Bergvin Halldórsson fæddist 10. júlí 1932 á Akureyri. Hann lést á heimili sínu, Lögmannshlíð, 7. desember 2024.
Foreldrar hans voru Halldór Ingimar Halldórsson, bóndi og söðlasmiður, f. 29. júlí 1895, d. 5. maí 1960, og Guðríður Erlingsdóttir, húsfreyja og hannyrðakona, f. 15. desember 1897, d. 4. apríl 1991.
Bergvin var yngstur systkina sinna, systur hans voru Erla Margrét, d. 4. desember 2012, og Halla Guðbjörg, d. 10. október 2012.
Eiginkona hans var Unnur Jósavinsdóttir f. 26. september 1932, d. 5. mars 2024.
Börn þeirra eru: 1) Guðríður Elín, f. 26. nóvember 1951, maki Sigþór Bjarnason, f. 11. febrúar 1948, d. 22. júní 2023. 2) Erlingur Steinar, f. 23. apríl 1955, maki Ingibjörg Ágústsdóttir f. 24. nóvember 1956.
Átti hann átta afabörn, sautján langafabörn og fjögur langalangafabörn.
Útför hans fer fram frá Glerárkirkju í dag, 18. desember 2024, klukkan 13.
Elsku besti afi okkar, það sem við eigum eftir að sakna þín.
Lífið hefur verið skrítið eftir að amma kvaddi okkur en alltaf tókst þú á móti okkur með sömu hlýju og breiðu brosi þegar við kíktum til þín. Stundirnar og minningarnar eru óteljandi og það yljar í sorginni að hugsa til baka. Fólkið þitt var þér mjög mikilvægt og eins og ömmu þótti þér fátt skemmtilegra en þegar við komum öll saman. Þú fylgdist vel með fólkinu þínu og spurðir ævinlega um alla þegar maður kom í heimsókn til þín. Þú varst ótrúlega mikið með það á hreinu hvað hver var að gera. Börn okkar systkina voru lánsöm að eiga þig að og svo dásamlegt hversu spenntur þú varst fyrir þeim og því sem þau voru að gera.
Það kemst enginn nálægt því að vera jafn mikill prakkari og stríðnispúki og þú. Við lærðum fljótt að sjá í gegnum stríðnina og þurftum við staðfestingu frá ömmu hvort þú værir virkilega að segja satt. Þegar staðfestingin var komin þá fylgdi prakkaraglott og hlátur frá þér. Fæturnir á manni voru hvergi óhultir þegar þú náðir taki og kitlaðir iljarnar þangað til maður var orðinn uppgefinn af hlátri. Það var fátt skemmtilegra en að skora á þig í krók þó maður vissi að maður ætti ekki séns í að vinna þig. Þér fannst líka gaman þegar við sátum saman við borð að setja hnefann í borðið og þú settir þá þinn ofan á, litli hnefinn var alveg kraminn og við í stökustu vandræðum að draga hann undan stóra hnefanum þínum.
Þú varst besti afi sem hægt var að hugsa sér. Þú varst alltaf tilbúinn að sýna okkur allskonar sem þú varst að brasa niðri í kjallara, verkstæðið var þinn griðastaður og þar sem töfrar þínir fengu að skína. Við erum svo lánsöm að eiga allskonar fallegt sem þið amma bjugguð til saman. Hestarnir og heyskapurinn var mjög skemmtilegur og eftirminnilegur tími og fengum við krakkarnir að taka mikinn þátt. Það sem var skemmtilegast var að fá að fara upp á pall á vörubílnum þínum í krabbanum. Það má segja að þetta hafi verið hálfgert tívolí fyrir okkur krakkana. Það var alltaf gaman að fá að fara með í vörubílnum og ferðirnar með þér og ömmu að sækja sand voru einstaklega skemmtilegar. Amma bar nú þungann af því að hafa ofan af fyrir okkur en þú varst alltaf tilbúinn að leyfa okkur að fara með og það hefur örugglega ekki flýtt fyrir að eiga eftir að smala inn í bíl þegar þú varst búinn að fylla pallinn, en aldrei neitaðir þú okkur um að koma með. Þú áttir aldrei erfitt með að kæta okkur og snúa okkur þegar við fórum í fýlu. Þú sagðir oftar en ekki að þessi skeifa myndi örugglega passa undir litla folaldið. Þetta virkaði yfirleitt og skeifan breyttist í bros svo að folaldið fengi ekki skeifuna.
Sorgin nístir djúpt og erfitt að þurfa að kveðja þig en einhvern veginn er samt hlý tilfinning og huggun í því að núna eru þið amma sameinuð á ný. Það er mjög erfitt að hugsa til þess að fá ekki að sjá þitt breiða bros og innilega hláturinn aftur þegar við rifjum upp skemmtilegar stundir.
Ástarþakkir fyrir allt elsku afi Beggi, við elskum þig.
Berglind, Arnar, Ingvar og Unnur Erlingsbörn.