Hjördís Guðmundsdóttir
Hjördís Guðmundsdóttir
„Ég held að okkar skilaboð verði almenn. Við búum auðvitað við náttúruvána, sem er ekkert að fara, en ég held að ég verði að segja að hvernig sem tónninn verður í ráðum okkar til fólks muni þau ekki síst snúa að afleiðingum þess sem mögulega…

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

„Ég held að okkar skilaboð verði almenn. Við búum auðvitað við náttúruvána, sem er ekkert að fara, en ég held að ég verði að segja að hvernig sem tónninn verður í ráðum okkar til fólks muni þau ekki síst snúa að afleiðingum þess sem mögulega gæti hér gerst,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en líkt og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu er verið að skoða uppfærslu á leiðbeiningum til almennings ef til neyðarástands kemur.

Aðallega snúið að náttúruvá

Fjallað hefur verið um leiðbeiningar til almennings annars staðar á Norðurlöndum þar sem áherslan hefur verið meiri á stríð.

Á Íslandi hafa leiðbeiningar fyrst og fremst snúið að náttúruvá til þessa, alveg síðan þær birtust í símaskránni sálugu, allt til ársins 2016. Líkt og komið hefur fram í blaðinu er leiðbeiningarnar að finna á vefnum 3 dagar, sem rekinn er af Rauða krossi Íslands í samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, en þrír dagar vísa í að hvert og eitt heimili þurfi að geta verið sjálfu sér nægt í þrjá daga ef hamfarir og neyðarástand dynja yfir.

Öðruvísi tónn

Hjördís segir undirbúning endurskoðunar leiðbeininganna meðal annars hafa falið í sér samtöl og samvinnu við hin norrænu löndin.

„Við erum í góðu samstarfi við Norðurlöndin og höfum verið að fylgjast með þeim. Yfirmenn almannavarna Norðurlandanna hittast árlega og á fundi þeirra í byrjun desember var þetta rætt. Þannig að við erum ekkert eyland, alls ekki. Maður finnur að tónninn er orðinn öðruvísi og það er verið að ræða málin hér og athuga hvernig við tæklum þetta.“

Spurð hvort einhver áhersla verði lögð á stríð í upplýsingum til borgaranna segir Hjördís að frekar verði lögð áhersla á afleiðingar stríðs, hverjar sem þær geti orðið.

„Staðsetning okkar segir líka að öll verðum við að vera tilbúin að takast á við hvað sem er.“