Oddný Þorkelsdóttir fæddist á Stokkseyri þann 30. janúar 1935. Hún lést á Dvalarheimilinu Lundi 7. desember 2024.

Oddný var dóttir hjónanna Margrétar Ólafsdóttur og Þorkels Guðjónssonar.

Þann 19. nóvember 1957 giftist Oddný Sigursteini Guðmundssyni, f. 30. júní 1935, d. 2. ágúst 2023. Hann var sonur hjónanna Katrínar Jónasdóttur og Guðmundar Guðmundssonar frá Núpi í Fljótshlíð.

Dætur þeirra eru Margrét, gift Sumarliða Guðbjartssyni, og Katrín, gift Kristni Bergssyni. Barnabörnin eru sex og langömmubörnin 19.

Oddný vann lengst af við verslunarstörf.

Útför hennar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 18. desember 2024, kl. 14.

Elsku amma okkar Odda.

Okkur langar að byrja á að þakka fyrir að vera svona góð amma, það var alltaf gott að koma til þín og afa, við höfum öll notið góðs af góðmennsku ykkar og umhyggju fyrir okkur öllum.

Takk fyrir allar samverustundirnar á Lyngheiðinni, öll jólin og áramótin, þau komu ekki nema að fá að vera hjá ömmu og afa. Takk fyrir allar sumarbústaðastundirnar, takk fyrir heita kakóið, gönguferðirnar á túninu, allan víkingamatinn, alla handavinnuna, klappið á kinnina og samtölin. Takk fyrir að taka alltaf svona vel á móti okkur þegar við komum í pössun eða bara völdum að fá að vera hjá ykkur. Takk fyrir allar hádegisverðarstundirnar árum saman í Lyngheiðinni. Takk fyrir samverustundirnar á morgnana þegar við vorum lítil. Takk fyrir að muna eftir öllum merkisdögum hjá okkur fjölskyldunni, alltaf hringdir þú fyrst. Takk fyrir að fylgjast svona vel með okkur þegar eitthvað var að gerast í okkar lífi. Alltaf vissum við að þú varst að fylgjast með og stundum kannski að hafa smá áhyggjur af okkur. Og síðast en ekki síst takk fyrir að vera svona góð langaló og taka ríkulegan þátt í lífi barnanna okkar. Þó svo að söknuðurinn sé mikill, munum við geyma minninguna um þig í hjörtum okkar og halda minningu þína í heiðri. Takk fyrir allt sem þú gafst elsku amma, góða ferð í sumarlandið til afa. Hvíl í friði.

Þín

Sif, Sigursteinn og Hildur.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Stríðnisglampinn í augunum er slokknaður og hláturinn þagnaður, hjá elsku vinkonu minni henni Oddu sem stoppaði fyrir utan heimili mitt kl. 06.10 í yfir 20 ár og tók mig með til fundar við félaga okkar Húnana, áður en okkur var hleypt inn í Sundhöllina á Selfossi. Mikið sem við áttum margar dásamlegar stundir saman, í Sundhöllinni, utanlands og innanlands og heima hjá hvert öðru, aldrei nein lognmolla þar, alltaf jafn gaman, enda frábær og samtaka hópur. En árin hafa liðið og margt hefur breyst, fjórir félagar okkar eru horfnir yfir móðuna miklu og nú þú elsku Odda okkar.

Oddný Þorkelsdóttir fékk í vöggugjöf allt það besta sem prýða má eina konu, falleg bæði utan sem innan, listfeng, hlý og góð, hún var sterkur persónuleiki og hafði ríka réttlætiskennd en átti til fína stríðni sem þó meiddi engan og fékk ég stundum góðlátlegan tón. Það var alltaf létt og skemmtilegt í okkar samverustundum, meira að segja á pólitísku nótunum, því þótt skoðanir hafi verið sterkar þá var gleði og grín oftast í fyrirrúmi enda var hún með frábæra kímnigáfu og hlátur sem ennþá heillar í minningunni.

Þinn minnisvarði Odda mín er fallegur. Þér var margt til lista lagt, þú varst skarpgreind og víðlesin og aldrei kom maður að tómum kofunum þar sem þú varst. Hannyrðakona varstu, en ekki fyrir það að flíka listgyðjunni.

Nú hefur þú lokað augunum í hinsta sinn og flust yfir á annað tilverustig. Ég er þakklát fyrir okkar kynni, þau voru góð og mun ég alltaf minnast þín með þakklæti og hlýju.

Farðu í friði elsku hjartans Odda mín og Guð blessi minningu þína, þú verður á hlaðvarpanum og tekur fagnandi á móti mér þegar þar að kemur.

Elsku Margrét og Katrín, þegar sorg knýr dyra eru orð fátækleg og lítið í raun hægt að segja, en hugurinn er hjá ykkur. Húnarnir á Selfossi votta ykkur og fjölskyldum ykkar dýpstu samúð.

Sigríður J. Guðmundsdóttir (Sirrý).