Ólöf Sigríður Sigurðardóttir fæddist á Skálanesi á Mýrum 21. febrúar 1930. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 10. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Sigurður Þórðarson bóndi og Guðmundína Þorbjörg Andrésdóttir húsfreyja.
Ólöf átti átta hálfsystkini frá föður, þau eru öll látin. Alsystkini Ólafar eru Eiríkur Kúld, f. 1917, d. 1988, Anna Guðrún, f. 1921, d. 2012, Ólafur Þorvalds, f. 1924, d. 2001, Jósef, f. 1926, d. 2018. Kristín, f. 1928 og lést stuttu síðar. Fóstursystir Ólafar er Svala S. Guðmundsdóttir, f. 1942.
Ólöf átti tvo syni: Sigurvin Bjarnson flugstjóra, f. 22. júlí 1955, d. 27. júlí 2019, og Guðmund B. Hallgrímsson, f. 14. janúar 1964. Sigurvin kvæntist Svanhildi Jónsdóttur, f. 4. mars 1955, og eru börn þeirra: a) Jón Þór, f. 1978, eiginkona hans er Guðrún Þorgeirsdóttir og eiga þau þrjár dætur, Svanhildi Kristínu, Þórdísi Björk og Kristínu Birnu. b) Berglind Ólöf, f. 1984, eiginmaður hennar er Jón Ómar Gunnarsson og eiga þau þrjú börn, Sigurvin Elí, Matthías Kára og Rebekku Maríu. c) Kristín Björg, f. 1992, hennar maður er Ívar Elí Sveinsson og eiga þau tvö börn, Ágúst Elí og Þóreyju Evu.
Útför Ólafar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 18. desember 2024, klukkan 13.
Lóa amma var yndisleg. Hún var hæglát, gjafmild og hlý. Við barnabörnin eigum ótalmargar góðar minningar af leikhúsferðum, sund- og bíóferðum með henni og Gumma þar sem við skemmtum okkur konunglega saman. Einnig eigum við dýrmætar minningar af öllum dagsferðunum sem við fórum með ömmu, Gumma og pabba. Þar standa upp úr ferðir á Fjöruhúsið á Hellnum í fallegu veðri, gönguferðir að Maríulind og Húrrabrekkunni, þar sem amma renndi sér þegar hún var ung. Við ferðuðumst saman um fallega Snæfellsnesið, þaðan sem amma er ættuð, og hlustuðum á vel valin lög. Amma sagði okkur margsinnis að hún væri heilsuhraust af því að hún synti oft í sjónum að Skálanesi með hundinum sínum, Kolla.
Ömmu var margt til lista lagt í bakstri. Hún bakaði dásamlegar pönnukökur og eftirminnilegan ananasfrómas. Frómasinn var einn af uppáhaldseftirréttunum hans pabba. Lóa amma gladdist mikið yfir barnabarnabörnunum og þau voru hæstánægð með langömmu sem átti alltaf eitthvert góðgæti að bjóða upp á. Henni þótti gaman að hlæja og hún var alltaf jákvæð.
Við eigum margar góðar minningar af Lóu ömmu. Hennar verður sárt saknað. Blessuð sé minning þín, elsku amma.
Jón Þór Sigurvinsson, Berglind Ólöf Sigurvinsdóttir og Kristín Björg Sigurvinsdóttir.