Guðshús Nýja kirkjan er tilbúin að utan. Klæðning að innan er að hefjast.
Guðshús Nýja kirkjan er tilbúin að utan. Klæðning að innan er að hefjast. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jólamessa Grímseyinga þetta árið verður í félagsheimilinu Múla og stefnt er á 27. desember. Væntingar höfðu verið um að byggingu hinnar nýrrar Miðgarðakirkju yrði lokið fyrir jól, en fyrir nokkru varð ljóst að þau mörk næðust ekki

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Jólamessa Grímseyinga þetta árið verður í félagsheimilinu Múla og stefnt er á 27. desember. Væntingar höfðu verið um að byggingu hinnar nýrrar Miðgarðakirkju yrði lokið fyrir jól, en fyrir nokkru varð ljóst að þau mörk næðust ekki.

„Allt ytra byrði nýju kirkjunnar er tilbúið og aðeins innivinnan eftir. Nýlega var komið hingað með farm; timbur sem verður inniklæðning í byggingunni. Nú þarf að bera þann við inn í húsið og láta venjast hitastiginu svo smíðavinnan geti hafist. Þetta tekur allt sinn tíma og nú er stefnt á vígslu nærri sólstöðum næsta sumar,“ sagði Alfreð Garðarsson formaður sóknarnefndar við Morgunblaðið.

Sem kunnugt er brann hin gamla Miðgarðakirkja í Grímsey haustið 2021. Rík samstaða myndaðist þá strax fyrir því að endurreisa kirkju í eynni og hófust framkvæmdir árið eftir. Þær hafa tekið sinn tíma, en nú eru í sjóðum innistandandi fjármunir sem duga langt til að ljúka verkinu. Ætla má að allur pakkinn kosti um 200 milljónir króna.

Miðgarðasókn í Grímsey er þjónað af prestum Dalvíkurprestakalls. Löng hefð er fyrir því að þeir komi út í eyju milli jóla og nýárs til helgihalds, og þá þykir ekki öllu skipta hvort messan er á virkum degi eða helgum. Búist er við að einhvers staðar á milli 40 og 50 manns verði í Grímsey um hátíðar.