Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Bandarísk stjórnvöld fullyrtu í gær að eðlilegar skýringar væru á flugi dróna og annarra loftfara, sem hafa undanfarnar vikur sést sveima yfir New Jersey, New York og víðar í norðausturhluta Bandaríkjanna frá því í síðasta mánuði.
Myndskeið af dularfullum ljósum og drónum hafa farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og tilkynningar um slíkt hafa einnig borist frá Maryland, Virginíu, Pennsylvaníu, Connecticut, Ohio og fleiri ríkjum.
Ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta hefur sætt vaxandi gagnrýni fyrir að hafa ekki varpað skýru ljósi á uppruna þessara flygilda. Hafa getgátur verið um að drónarnir kunni að vera á vegum erlendra ríkja og einnig hafa bandarísk stjórnvöld verið sökuð um hugsanlega yfirhylmingu.
Bandarískir embættismenn hafa síðustu daga reynt að slá á áhyggjur almennings vegna málsins og í gær sendu heimavarnaráðuneytið, varnarmálaráðuneytið, alríkislögreglan FBI og bandaríska flugumsjónarstofnunin frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem segir að rannsóknir hafi ekki leitt í ljós neitt afbrigðilegt og löggæslumenn telji ekki að þær upplýsingar sem borist hafa bendi til þess að hætta kunni að steðja að almenningi eða þjóðaröryggi eða ógna flugstjórnarsvæðinu yfir New Jersey eða öðrum ríkjum í norðausturhluta Bandaríkjanna.
„Eftir að hafa rannsakað tæknileg gögn og ábendingar frá áhyggjufullum borgurum er það niðurstaða okkar að það sem hefur til þessa verið tilkynnt um hafi ýmist verið löglegir drónar sem notaðir eru í atvinnuskyni, frístundadrónar og drónar á vegum lögreglu, mannaðar fisflugvélar, þyrlur og stjörnur sem hafa verið taldar vera drónar,“ segir í yfirlýsingunni.
Fimm þúsund ábendingar
John Kirby, talsmaður bandaríska þjóðaröryggisráðsins, hafði áður tekið í sama streng en hann fullyrti á mánudagskvöld að ríkisstjórnin væri með allt uppi á borðinu varðandi málið. Fram kom hjá honum að um 5 þúsund ábendingar um dularfullar drónaferðir hefðu borist til yfirvalda en af þeim hefðu aðeins um 100 kallað á frekari rannsókn.
Þá hafa háttsettir embættismenn hafnað getgátum um að erlend ríki – hugsanlega Íran eða Kína, hafi sent drónana frá móðurskipum sem haldi sig undan ströndum Bandaríkjanna.
Kirby sagði að yfir 1 milljón dróna væri á skrá hjá bandarísku flugumferðarstofnuninni. „Þetta er umhverfið sem við erum að fást við og það er löglegt og eðlilegt,“ sagði hann. „Eins og tæknin hefur þróast getum við búist við því að drónum yfir Bandaríkjunum muni fjölga enn frekar á næstunni.“
Eitthvað undarlegt á seyði
Donald Trump, sem tekur við forsetaembætti Bandaríkjanna í janúar, gaf hins vegar til kynna í vikunni að Bandaríkjastjórn hefði eitthvað að fela í málinu.
„Ríkisstjórnin veit hvað er að gerast,“ sagði Trump við blaðamenn. „Herinn veita það og forsetinn veit það. Og af einhverjum ástæðum vilja þeir halda upplýsingum frá fólki,“ sagði hann.
Trump sagðist ekki telja að óvinveitt ríki bæru ábyrgð á drónafluginu því að þá hefðu drónarnir verið skotnir niður. „En það er eitthvað undarlegt á seyði,“ sagði hann.
Þá sagði Trump að drónar hefðu sést yfir golfvelli í hans eigu í Bedminster í New Jersey og að hann hefði hætt við áform um að dvelja þar um síðustu helgi af þeim sökum.
Á vef sjónvarpsstöðvarinnar Fox News er haft eftir William Dunn, sem er formaður ráðgjafarsamtakanna Strategic Resilience Group, að áhyggjur fólks séu góðar og gildar. Hann sé þeirrar skoðunar að yfirvöld viti hvaðan þessir drónar koma og hann telji að uppruni þeirra sé innan Bandaríkjanna.
„Við erum að öllum líkindum með bandaríska dróna, einnig þessa minni dróna sem er verið að fljúga í ákveðnum tilgangi. Spurningin er, hvað eru þessir drónar að gera? Ég held að þeir séu að fylgjast með og leita að einhverju, annaðhvort að efnavopni eða mögulega geislun,“ er haft eftir Dunn í viðtalinu.
Kröfur um hertar reglur
Málið hefur vakið umræður um að herða þurfi reglur svo að bandarísk stjórnvöld geti „tekið niður“ dróna sem taldir eru kunna að ógna öryggi með einhverjum hætti.
Chuck Schumer, helsti leiðtogi demókrata í bandarísku öldungadeildinni, og Kathy Hochul, ríkisstjóri í New York, lýstu m.a. þessari skoðun um helgina en loka þurfti flugbrautum á Stewart-flugvelli í New York í tvær klukkustundir á laugardag vegna flugs dróna við völlinn.
Þá tilkynnti lögregla um helgina að tveir karlmenn hefðu verið handteknir fyrir ógætilega meðferð dróna nálægt Logan-flugvelli í Boston í Massachusetts.