Garðar Ingi Jónsson fæddist í Reykjavík 28. október 1932. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 7. desember 2024.

Foreldrar Garðars voru Ólafía Sigurbjörnsdóttir saumakona, f. 17.8. 1898, d. 23.5. 1977, og Jón Magnússon trésmiður, f. 25.8. 1892, d. 7.10. 1972. Garðar ólst upp hjá móður sinni og stjúpföður, Sigurði Júlíusi Þorbergssyni sjómanni, f. 17.2. 1905, d. 4.9. 1977. Systkini Garðars samfeðra voru Kristjana Svanberg Jónsdóttir Cortes, f. 28.6. 1920, d. 22.10. 2010, Magnús Reynir Jónsson, f. 28.9 1922, d. 7.11. 1975, og Kristjón Jónsson f. 15.4. 1924, d. 1.7. 1961.

Garðar giftist 28. mars 1959 Guðrúnu Freysteinsdóttur, f. 2.8. 1932, d. 10.3. 2021. Þau eignuðust fimm dætur: 1) Ólöf sagnfræðingur, f. 29.6. 1959. Dætur hennar og Ísaks Harðarsonar, f. 11.8 1956, d. 12.5. 2023, eru: a) Katla, f. 11.7. 1984, gift Guðlaugi Hávarðarsyni, f. 4.6. 1981. Sonur þeirra er Styrkár, f. 5.7. 2011. b) Guðrún Heiður, f. 14.1. 1989, gift Sveini Steinari Benediktssyni, f. 7.7. 1981. Dóttir þeirra er Dýrfinna, f. 3.7. 2014. 2) Sigríður, starfsmaður hjá Cargolux í Lúxemborg, f. 6.1. 1963, sambýlismaður hennar er Romain Gales, f. 22.2. 1958. Sonur þeirra er Jón Pol, f. 24.2. 1995, sambýliskona hans er Joëlle Donven f. 5.2. 1995. 3) Ingunn kennari, f. 21.8. 1964. 4) Rúna Björg kennari, f. 12.6. 1971, sambýlismaður hennar er Sæmundur Oddsson, f. 7.4. 1969. 5) Steinunn umhverfisskipulagsfræðingur, f. 17.8. 1976, sambýlismaður hennar er Ari Rafn Sigurðsson, f. 9.5. 1969. Börn þeirra eru Pia María, f. 6.9. 2007, og Kári Rafn, f. 29.1. 2010. Fyrir átti Garðar dótturina Þórdísi Ósk Garðarsdóttur Leifsson, búsett í Perth í Ástralíu, f. 14.5. 1952, með Guðbjörtu Óskarsdóttur. Börn Þórdísar eru: a) Valtýr, f. 21.7. 1969. Dætur hans eru Amanda, f. 23.2. 1995, og Shanae, f. 29.11. 2000. b) Guðbjört Leonie, f. 30.11. 1976. Dóttir hennar er Charlee, f. 7.5. 2016. c) Adrian Garðar, f. 24.8. 1979, giftur Lee, f. 28.11. 1979. Dóttir hans er Scarlett Rose, f. 15.10. 2015. d) Cassandra Ósk, f. 5.9. 1986, gift Paul Pretorius, f. 14.8. 1980. Dætur þeirra eru: Alexis, f. 25.3. 2013, og Dahlia 10.4. 2017.

Garðar og Guðrún héldu fyrst heimili á Hagamel 43 í Reykjavík og síðan á Háaleitisbraut 32. Árið 1972 fluttu þau til Lúxemborgar. Árið 1988 sneru þau aftur heim og bjuggu eftir það í húsinu sem þau byggðu í Byggðarenda.

Garðar vann ýmis störf frá unga aldri, var m.a. matsveinn á kaupskipunum sem keypt voru til landsins eftir síðari heimsstyrjöldina. Hann lauk loftskeytaprófi 1954 og vann um tíma á radíóverkstæði Símans en var síðan radíóvirki og loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni, lengst af við fluggæslu. Garðar var forstöðumaður á radíóverkstæði Loftleiða frá 1970, fyrst á Keflavíkurflugvelli og frá árinu 1972 í Lúxemborg. Hann var svo deildarstjóri viðhalds- og endurnýjunardeildar Cargolux í Lúxemborg frá 1974-1988.

Frá 1988 vann Garðar hjá Ratsjárstofnun í nokkur ár. Á árunum 1993-1994 stóð hann fyrir byggingu tennishallarinnar í Kópavogi og var þar framkvæmdastjóri um tíma. Garðar lauk starfsævinni hjá Air Atlanta og dvaldi á næstu árum víða um heim.

Útför Garðars fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 18. desember 2024, klukkan 13.00.

„Það hefur bara verið gott fólk í kringum mig.“ Þetta rifjaði pabbi reglulega upp í bíltúrum niður á höfn og um vesturbæinn. Þessir bíltúrar enduðu í kirkjugarðinum við leiði mömmu. Hann signdi líka yfir leiði Ísaks og „skilaði kveðju“ til Simma frá mömmu. Ísak tengdasonur og Simmi mágur voru honum kærir alla tíð. Hann fór líka reglulega að leiði afa og ömmu. Siggi afi og Freysteinn afi eru tveir af þeim fjölmörgu sem reyndust pabba vel. Það hefur verið mikið lán fyrir Ólafíu ömmu og pabba að fá Sigga inn í líf sitt. Freysteinn hefur sjálfsagt skilið aðstæður pabba betur en margur annar og tók honum einstaklega vel þó Þorbjörg amma hafi haft sínar efasemdir um ráðahag mömmu. Pabbi þreyttist ekki á að rifja upp hvað þessir tveir menn voru honum mikil stoð og stytta. „Þetta er hinn vænsti piltur,“ á Freysteinn afi að hafa sagt.

Nú fær pabbi að liggja við hlið mömmu. Til þess hlakkaði hann innilega þó hann hafi í sömu andrá hugsað með tilhlökkun til 100 ára afmælisins. „Ég er viss um að ég verð 100 ára.“ Aldarafmælisveislan var sett á dagskrá í lok stórveislu á 90 ára afmælinu. Sannarlega viðeigandi því heimili pabba og mömmu stóð alltaf öllum opið. Þannig var pabbi, hann vildi hafa líf og fjör í kringum sig og sat sjaldnast kyrr.

Áhugamálin voru fjölmörg og hann fékk dálæti á þeim mörgum. Ég man eftir honum með ljósmyndagræjur, á veiðum, á skíðum, í tennis, við húsbyggingar, í trérennismíði og á fundum hjá Stjörnuskoðunarfélaginu. Hann vann við flug og fór ungur á sjó en bæði flugið og sjómennskan voru meira en bara vinna. Hann var græjukarl, Apple-maður og Citroën-karl. Hann fylgdist vel með þjóðmálum og heimsfréttum. Hann var ágætur í eldhúsinu og hélt heimilinu og garðinum í toppstandi. Allt lék í höndunum á honum og ef hann vissi ekki hvernig átti að gera hlutina þá fann hann út úr því, hann gafst ekki upp.

Hann átti marga góða vini um ævina og talaði mikið um árin á Bárugötu með æskufélögunum vestur í bæ. Seinna bættust skólafélagar mömmu í hópinn, æskuvinkonur hennar og makar. Pabbi var tekinn inn í saumaklúbbinn eftir hennar dag og vissi fátt betra en að fá sér góða rjómaköku með Önnu og Ellu. Pabbi var sérlega mannblendinn og átti auðvelt með að kynnast fólki. Hann var líka lunkinn við að fá ólíklegasta fólk til að aðstoða sig við hitt og þetta. Sjálfsagt hefur hann átt þessa greiða inni, ekki endilega hjá þeim sem endurguldu greiðann en í stóra samhenginu, því hann var alltaf boðinn og búinn að aðstoða hvern sem var með hvað sem var.

Stuttu eftir að mamma dó fór pabbi með okkur Sæmundi á Snæfellsnes, þar rifjaði hann upp ævintýrin „Catalinunni“ með Gæslunni í einu af þorskastríðunum. Þau eru mörg ævintýrin sem pabbi lenti í á langri ævi, hann hefur komið víða við og sagt okkur margar sögur af löngu horfnum heimi. Dýrmætastar voru honum minningar af góðum vinum og samferðafólki.

Gott fólk fylgdi pabba líka síðasta spölinn. Við fjölskyldan erum þakklát öllum þeim sem sinntu honum af alúð eftir að mamma dó.

Takk fyrir allt, elsku pabbi og mamma!

Rúna Björg og
Sæmundur.

Elsku pabbi.

Fyrir mér varst þú allt sem pabbi á að vera. Þú gast og gerðir allt og kenndir mér að ég get allt sem ég vil nema bíta í nefið á mér. Þetta kom berlega í ljós í einu af ævintýrunum þegar þú skrappst á skíði og fótbrotnaðir illa. „Það þarf nú ekkert að gera í þessu, hann er búinn að búa um þetta sjálfur,“ sögðu sjúkraflutningamennirnir. Þá hafðir þú skorðað fæturna með því að binda þá saman með treflinum sem mamma heimtaði að þú tækir með í vonda veðrinu.

Ég var alltaf að bardúsa með pabba og fór með honum að hitta fólk og klappa kisunum á kisubarnum. Hann var góður við náungann, naut þess að vera innan um fólk og hafði gaman af dýrum. Maður er manns gaman og það vissi pabbi. Pabbi kynnti mig líka fyrir tröllum og prinsessum í sögum, klifraði með mér upp á fjall í Hverahlíð þar sem við tíndum ber og kíktum í kaffi til skessunnar. Hann dró mig upp í bröttu klettana, auðvitað á efsta tindinn. Oft sat ég á smíðaborðinu og hjálpaði pabba í bílskúrnum þegar hann byggði húsið okkar. Hann var afar vinnusamur en kunni líka að njóta og ég man þegar við kúrðum við plötuspilarann og hlustuðum á djass.

Pabbi fékk tennisdelluna upp úr fertugu. Auðvitað tók hann mig með og ég byrjaði ferilinn á að leika og moka sand á leirvöllunum í Grevenmacher, ná í kalda drykki handa körlunum og sækja bolta. Loks var ég farin að spila við pabba og eftir að við fluttum heim var uppáhaldssamveran okkar að skreppa í tennis á Þróttarvellina og ís á eftir. Meira að segja um hávetur mættum við með snjóskóflur. Þegar við bjuggum úti spilaði pabbi í stálgrindarhúsum á veturna og velti eitt sinn fyrir sér hvers vegna engum hefði dottið í hug að byggja þannig á Íslandi. Nokkrum vikum síðar stóð pabbi úti í móa í Kópavogsdalnum að taka fyrstu skóflustunguna að Tennishöllinni og innan við ári síðar var farið að spila tennis í innanhússaðstöðu í hæsta gæðaflokki.

Þegar ég hugsa til baka velti ég því fyrir mér hvernig honum entist ævin í allt það sem á daga hans dreif. En að baki sterkum manni er sterk kona. Þau mamma stóðu þétt saman. Við pabbi vorum líka lánsöm að hafa allar hinar stelpurnar hans, maka okkar, börn og aðra góða vini. Það er gott að muna eftir og þakka þeim sem standa með okkur á góðum og erfiðari tímum.

Mér er minnisstætt þegar góður vinur pabba (einn af þessum sem eru á mínum aldri) sagði í 90 ára afmælisveislunni sem pabbi skipulagði með stæl að þegar hann yrði 90 ára ætlaði hann að vera eins og Garðar. Það er margt sem við getum lært af pabba og sárt að geta ekki gert allt sem okkur dettur í hug saman lengur. Ég mun sakna þess að þú bankir upp á og truflir mig í vinnu. Þá bakaði ég pönnukökur með rjóma því þær voru bestar og hlustaði á ykkar Ara spjalla um flug eða nýjustu tækni. En þegar aldur færist yfir og við getum ekki gert allt sem við viljum er gott að hvílast, við hlið mömmu sem þú saknaðir hverja stund. Sofðu rótt elsku pabbi og skilaðu kveðju til mömmu. (P.s. ég mun halda upp á 100 ára afmælið fyrir þig, kannski á kisubarnum eins og við töluðum um.)

Þín litla Stein,

Steinunn.

hinsta kveðja

Afi var alltaf svo gjafmildur og oftast í góðu skapi. Við vorum oft að leggja kapal saman og ég man að við fórum oft út í bílskúr að finna eitthvað til að smíða úr. Ég var glaður yfir því að þú gast farið með okkur í bústaðinn í Danmörku þar sem þú malaðir okkur í skotkeppni. Ég mun sakna þín.

Kær kveðja,

Kári Rafn.