Í Svínadal Guðvarður í sumarbústað sem hann byggði sjálfur ásamt fjölskyldu sinni í Svarfhólsskógi. Myndin er tekin á þessu ári.
Í Svínadal Guðvarður í sumarbústað sem hann byggði sjálfur ásamt fjölskyldu sinni í Svarfhólsskógi. Myndin er tekin á þessu ári.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðvarður Jónsson er fæddur 18. desember 1924 á Þingeyri. Guðvarður var þriggja ára þegar hann var tekinn í fóstur á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi en foreldrar hans bjuggu þá að Fossi, sem var hjáleiga frá Rauðamýri

Guðvarður Jónsson er fæddur 18. desember 1924 á Þingeyri.

Guðvarður var þriggja ára þegar hann var tekinn í fóstur á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi en foreldrar hans bjuggu þá að Fossi, sem var hjáleiga frá Rauðamýri. Þar ólst hann upp hjá Halldóri Jónssyni búfræðingi og sambýliskonu hans, Jakobínu Þorsteinsdóttur.

„Við vorum þá fjögur systkinin og þau fóru sitt á hvern bæinn en hann fóstri varð að hirða mig af því ég var búinn að vera svo veikur,“ segir Guðvarður. „Ég var sjónskertur svo fólk taldi að ég hefði ekki mikla möguleika í lífinu. En ég tel að ég hafi verið mjög heppinn að lenda hjá Halldóri því þegar ég fer í skólann þá er ég búinn að læra að lesa og skrifa.

Þegar ég kem í Reykjanesskóla tíu ára gamall þá fæ ég samt ekki gleraugu til þess að geta lesið þannig að ég var settur á aftasta bekk og bara látinn vera þar, og mér var ekkert sinnt á nokkurn einasta hátt, en ég las allar kennslubækurnar í herberginu mínu og þar reiknaði ég dæmin og allt svoleiðis. Þetta bjargaði mér alveg í gegnum skólann. Nemendurnir voru líka allir jákvæðir gagnvart okkur, það var enginn að gera grín að okkur.“

Guðvarður lauk héraðsskólaprófi frá Reykjanesi við Djúp vorið 1942.

Hann stundaði vegavinnu við Ísafjarðardjúp í 20 sumur og trésmíði og skósmíði í verksmiðjum í Reykjavík á vetrum. Frá 1962 starfaði hann sem bifreiðarstjóri á sendibílum, vörubílum og olíubílum. Síðustu starfsárin vann hann sem mælaálesari hjá Hitaveitu Reykjavíkur frá 1986.

Guðvarður var í stjórn Starfsmannafélags Bæjarútgerðar Reykjavíkur 1980-86 og gegndi þar bæði formanns- og gjaldkerastarfi. Þá var hann varafulltrúi Starfsmannafélagsins á sama tíma í útgerðarráði Bæjarútgerðar Reykjavíkur og aðalfulltrúi síðasta árið sem Bæjarútgerðin starfaði.

Hann hefur alla ævi verið mikill áhugamaður um laxveiði og enn fremur söng Guðvarður í kirkjukórum áratugum saman. Guðvarður skrifaði bækur sem Vestfirska forlagið gaf út auk þess að skrifa fjölda greina.

Þrátt fyrir háan aldur er Guðvarður nokkuð ern og býr í lítilli blokk í Breiðholti ásamt Rósu eiginkonu sinni.

Áhuginn á laxveiði kviknaði snemma. „Á Rauðamýri var það nú svo að ég var nú eini ungi krakkinn þarna og fyrstu árin var ég mikið einn inni á daginn og allir voru úti að vinna. Þá fór ég að stelast að ánni til að horfa á laxana og silungana að synda í ánni. Ég lá þarna tímunum saman við fossana að horfa á þetta og þetta kom sér vel þegar ég loksins komst í það að fá silungastöng því ég þekkti svo vel fiskana og mér gekk mjög vel að veiða.“

Hvannadalsáin var gjöful og þangað komu laxveiðimenn jafnan á sumrin. „Sýslumaðurinn og kaupfélagsstjórinn og skattstjórinn og þessir karlar voru alltaf heima á Rauðamýri að fá veiðileyfi og borguðu ekkert fyrir. Fóstri hefur þó haft hagnað af þessu býst ég við, en ég var afskaplega illa séður af öllum laxveiðimönnum af því að þegar ég var orðinn 14 ára þá var ég orðinn nokkuð glúrinn og búinn að eignast stöng.

Ég man eftir því að sýslumaðurinn kom alltaf á vissum tímum og hann var mjög glúrinn veiðimaður. Það hagaði þannig til á Rauðamýri að þetta var timburhús og stigi upp á loftið og ég var búinn að þjálfa mig sérstaklega í því að geta labbað stigann án þess að brakaði í veggnum, en það var alveg sama hve hljóðlega ég fór að um leið og ég var kominn í ána þá var sýslumaðurinn kominn. Hann henti jafnvel yfir línuna mína og klippti stundum öngulinn af. Urðu engin orðaskipti út af þessu, bara settur nýr öngull á. En ég hafði afskaplega gaman af þessu.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðvarðar er Rósa Guðrún Bjarnadóttir, f. 30.7. 1945. Foreldrar hennar voru Bjarni Hansson og Sigrún Jóna Guðmundsdóttir, en Rósa ólst upp á Lyngholti á Snæfjallaströnd, hjá Salbjörgu Jóhannsdóttur ljósmóður og Ingvari Ásgeirssyni smið.

Börn Guðvarðar og Rósu Guðrúnar eru 1) Jón Erlendur Guðvarðarson bifreiðarstjóri, f. 1962; 2) Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir, tómstunda- og félagsmálafræðingur, f. 1965, maki: Guðsteinn Bjarnason. Dætur: Kolbrún Soffía Arnfinnsdóttir og Steinunn Rós Guðsteinsdóttir. Kolbrún eignaðist þrjú börn og tvö þeirra eru á lífi; og Jóhann Pétur Guðvarðarson húsasmiður, f. 1970. maki: Birgit Raschhofer. Dóttir: Anna Margrét.

Systkini Guðvarðar voru átta talsins, þar af ein hálfsystir sammæðra, Þorgerður Jensdóttir, f. 1921, d. 2007, og Gunnjóna Fanney Jónsdóttir, sem fæddist árið 1923 og lést árið eftir. Síðan komu Gunnjóna Fanney, f. 1927, d. 1978, Svavar, f. 1928, d. 2006, Yngvi, f. 1930, d. 2009, Hjörleifur, f. 1931, d. 2000, Sigurbjörg, f. 1933, d. 2020, Hreiðar, f. 1935, d. 2009, og yngstur er Guðbjörn, f. 1941. Eru þeir tveir bræðurnir, sá elsti og sá yngsti, einir enn á lífi af systkinahópnum.

Foreldrar Guðvarðar voru Jón Erlendur Jónsson, frá Hamri í Nauteyrarhreppi, og Aðalheiður Soffía Bjarnadóttir frá Þingeyri.