Grænlenska lögreglan tilkynnti í gærmorgun að Paul Watson, leiðtoga umhverfissamtakanna Sea Shepherd, hefði verið sleppt úr haldi, en dönsk stjórnvöld ákváðu að Watson yrði ekki framseldur til Japans vegna meintra brota hans gegn þarlendum hvalveiðimönnum árið 2010.
Watson var handtekinn í júlí síðastliðnum á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar sem japönsk stjórnvöld gáfu út á hendur honum árið 2012, og hafði þurft að framlengja varðhald yfir honum sex sinnum á meðan beðið var niðurstöðu danska dómsmálaráðuneytisins.
Watson sagði í gær að handtaka sín hefði bara vakið enn meiri athygli á „hinum ólöglegu hvalveiðum“ Japana, og því verið herferð hans til góðs.