Áhorfendastúka Framkvæmdir við byggingu stúku við nýja KA-völlinn eru í gangi og svona á hún að líta út.
Áhorfendastúka Framkvæmdir við byggingu stúku við nýja KA-völlinn eru í gangi og svona á hún að líta út. — Teikning/KA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarmeistarar KA hafa sett stefnuna á það að leika heimaleiki sína í Sambandsdeild karla í knattspyrnu á heimavelli sínum á íþróttasvæði KA á Akureyri næsta sumar. Akureyrarliðið lék heimaleiki sína í Sambandsdeildinni á heimavelli Fram í…

KA

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Bikarmeistarar KA hafa sett stefnuna á það að leika heimaleiki sína í Sambandsdeild karla í knattspyrnu á heimavelli sínum á íþróttasvæði KA á Akureyri næsta sumar.

Akureyrarliðið lék heimaleiki sína í Sambandsdeildinni á heimavelli Fram í Úlfarsárdal sumarið 2023 en nú er kominn nýr völlur á svæði KA og framkvæmdir við byggingu stúkunnar eru þegar hafnar.

„Aðstaðan hjá okkur er alltaf að verða betri og betri og það er ákveðin hvatning fyrir okkur til þess að halda áfram að gera vel, innan sem utan vallar,“ sagði Hjörvar Maronsson, formaður knattspyrnudeildar KA, í samtali við Morgunblaðið.

„Draumurinn er sá að stúkan verði orðin tilbúin um mitt næsta sumar og þá ættum við að geta spilað heimaleiki okkar í Evrópukeppninni á Akureyri. Það var byrjað að steypa grunninn að stúkunni í nóvember en það þarf allt að ganga upp ef hún á að vera klár. Þetta fer líka eftir tíð og veðurfari en þetta er möguleiki í dag og við lifum á þeim möguleika,“ sagði Hjörvar.

Þakklátir Frömurum

Eins og áður sagði léku Akureyringar heimaleiki sína í Sambandsdeildinni í Úlfarsárdal sumarið 2023.

„Það tók alveg á að þurfa að spila þessa leiki í Reykjavík því það er jú útivöllur fyrir okkur, þó að við höfum vissulega spilað á Íslandi. Á sama tíma erum við Frömurum mjög þakklátir fyrir að leigja okkur völlinn og við kunnum þeim bestu þakkir fyrir það. Við eigum góðan kjarna af stuðningsmönnum í Reykjavík og það myndaðist mjög góð stemning í bænum.

Það er hins vegar þannig að við sem félag viljum að sjálfsögðu spila okkar heimaleiki á Akureyri. Að spila í Reykjavík tók líka sinn toll því leikmenn, þjálfarar og starfslið komust nánast ekkert heim til sín á meðan við tókum þátt í Evrópukeppninni. Við eyddum miklum tíma á hótelum sem var líka gríðarlega kostnaðarsamt fyrir félagið.“

Halda ótrauðir áfram

Akureyrarbær er þekktur fyrir mikinn snjóþunga á veturna og því liggur beinast við að spyrja hvort það sé ekki óraunhæft að ætla að klára framkvæmdir á stúkunni í vetur?

„Auðvitað viljum við fá snjó í bæinn því Akureyrarbær nýtur góðs af því. Persónulega væri ég alveg til í að snjórinn myndi fylla Hlíðarfjall og halda sig þar. Það væri fínt ef við slyppum við allan snjó í bænum en þetta er bara eitthvað sem þarf að koma í ljós. Óskastaða fyrir okkur og félagið er auðvitað að verktakarnir, sem koma að uppbyggingu stúkunnar, geti unnið áfram í vetur.

Þeir unnu við undirbúning fyrir uppsteypuna í 15-20° stiga frosti og það er mikill vilji til þess að klára þetta í vetur. Þegar allir leggja allt sitt á vogarskálarnar þá er allt hægt. Við erum bara að vinna með það, á meðan möguleikinn er til staðar, að spila Evrópuleikina á Akureyri næsta sumar, og við höldum ótrauðir áfram.“

Markmiðið náðist

KA varð bikarmeistari í sumar í fyrsta sinn í sögu félagsins en liðið hafnaði í 7. sæti Bestu deildarinnar þar sem Akureyringar ætluðu sér stærri hluti.

„Heilt yfir erum við mjög ánægðir með tímabilið og þetta er tímabil sem fer svo sannarlega í reynslubankann. Við vorum í erfiðleikum framan af en það kom aldrei upp neitt stress innan félagsins því tilfinningin var alltaf sú að við myndum ná að snúa genginu við enda með mjög gott lið í höndunum. Fyrstu leikirnir voru einfaldlega stöngin út.

Við vorum staðráðnir í því að halda áfram að gera það sem við erum góðir í og við vissum að úrslitin myndu falla með okkur á einhverjum tímapunkti, sem þau og gerðu. Markmiðið fyrir síðasta sumar var samt númer eitt, tvö og þrjú að verða bikarmeistarar og það tókst. Um leið og bikarkeppnin hófst leið mér alltaf eins og það markmiðið myndi nást og það er ótrúlegt hversu langt maður getur náð ef trúin og viljinn er fyrir hendi.“

Rætt var um stöðu Hallgríms Jónassonar þjálfara liðsins í upphafi tímabilsins þegar KA var í botnbaráttu Bestu deildarinnar en Hjörvar ítrekar að það hafi aldrei komið til tals að segja þjálfaranum upp störfum.

Kom aldrei til greina

„Það kom aldrei til greina að reka Hallgrím Jónasson. Við settumst vissulega niður með honum og við vorum sammála um að það væru ákveðnir hlutir sem þyrfti að breyta og mér fannst hann gera það mjög vel. Hann naut og nýtur fulls trausts innan félagsins og það er mikil tilhlökkun fyrir því sem koma skal undir hans stjórn.

Árið var líka frábær skóli fyrir Hallgrím. Það eru fáir þjálfarar í deildinni betri en hann í að vinna með ungum leikmönnum og hann hefur sýnt það með leikmenn á borð við Brynjar Inga Bjarnason og Nökkva Þey Þórisson. Hann er enn mjög ungur og hann þarf sinn tíma til þess að þroskast sem þjálfari, alveg eins og leikmenn þurfa tíma til að þroskast. Þeir erfiðleikar sem við gengum í gegnum gerðu Hallgrím að betri þjálfara.“

Dyrnar standa opnar

Akureyringar urðu fyrir blóðtöku fyrr í þessum mánuði þegar þeir Daníel Hafsteinsson og Sveinn Margeir Hauksson gengu til liðs við Víking úr Reykjavík.

„Það var engin óskastaða að missa þessa tvo frábæru drengi. Við sjáum klárlega eftir þeim en það kemur alltaf maður í manns stað. Það var mikið rætt og ritað um brotthvarf þeirra og einhverjir gengu svo langt að tala um að það væru allir æfir fyrir norðan. Það er mjög fjarri sannleikanum en ég skal alveg viðurkenna það að við vorum auðvitað mjög súrir að missa þá.

Ég óska þessum strákum alls hins besta og vonandi gengur þeim vel í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur, nema á móti KA auðvitað. Ég vonast svo til þess að þeir snúi aftur í KA einn góðan veðurdag og dyrnar eru alltaf opnar enda eru þeir báðir frábærir drengir sem eiga allt það besta skilið.“

Metnaður á Akureyri

Það hlýtur samt að svíða að sjá tvo uppalda leikmenn ganga til liðs við Reykjavíkurlið Víkinga?

„Við erum félag sem stendur með strákunum sínum og auðvitað hefðum við frekar viljað sjá þá fara utan en til liðs sem við teljum okkur í samkeppni við. Það hefur sýnt sig og sannað í gegnum tíðina að við hikum ekkert við það að selja okkar leikmenn út og það er alltaf kostur númer eitt. Nökkvi Þeyr fer þegar við erum í toppbaráttu og við seljum Brynjar Inga á miðju tímabili.

Við hefðum líka viljað selja Daníel og Svein Margeir út og við stöndum ekki í vegi fyrir okkar strákum þegar það er áhugi að utan.

Eins og ég kom inn á áðan þá kemur alltaf maður í manns stað. Það liggur alveg ljóst fyrir að við erum að leita að styrkingu fyrir næsta sumar og við munum styrkja liðið. Það er ákveðin verðbólga á leikmannamarkaðnum í dag og við ætlum aðeins að bíða og sjá næstu daga.

Við munum svo bæta við okkur tveimur til þremur nýjum leikmönnum á nýju ári. Það er mikill metnaður á Akureyri og við ætlum okkur langt á næstu árum,“ bætti Hjörvar við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason