Hilmar Finnsson fæddist í Reykjavík 21. júní 1949. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 7. desember 2024 eftir árs veikindi.

Foreldrar hans voru Sveinbjörn Finnsson, f. 21. júlí 1911, d. 1. apríl 1993, og Thyra Finnsson (fædd Friis Olsen), f. 30. janúar 1918, d. 8. ágúst 1995.

Systkini: Gunnar, f. 1. nóv. 1940, d. 31. ágúst 2014, Arndís, f. 5. júní 1943, og Ólafur William, f. 5. okt. 1951.

Hilmar kvæntist hinn 28. apríl 1972 Jósefínu (Nínu) Ólafsdóttur, f. 10. júní 1951. Foreldrar hennar voru Ólafur Haukur Árnason, f. 23. okt. 1929, d. 15. janúar 2023, og Björg Hansen, f. 25. júní 1928, d. 6. apríl 2017.

Hilmar og Nína eiga þrjú börn, fjögur barnabörn og eitt barnabarnabarn: 1) Björg kennari, f. 22. nóv. 1972 í sambúð með Kristni Geir Friðrikssyni; var gift Erni Guðmundssyni; dætur þeirra eru a) Nína Guðrún, f. 1998, gift Símoni Brynjari Grétarssyni; þau eiga nýfædda dóttur, og b) Katrín, f. 2003. 2) Eva Þyri píanóleikari, f. 16. maí 1978, gift Ágústi Ólafssyni. 3) Gunnar tónlistarmaður, f. 2. júní 1983, kvæntur Önnu Huldu Ólafsdóttur; börn þeirra eru Guðrún, f. 2010, og Ólafur Hilmar, f. 2017.

Hilmar ólst upp í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971. Eftir það lá leiðin í Tækniskóla Íslands og lauk hann þaðan námi í byggingatæknifræði 1976. Hann stundaði auk þess frekara nám í DTU í Kaupmannahöfn og Toronto í Kanada.

Árið 1978 fluttu Hilmar og Nína til Reyðarfjarðar þar sem hann tók við starfi umdæmistæknifræðings hjá Vegagerðinni á Austurlandi. Þar bjuggu þau í tíu ár. Eftir að fjölskyldan flutti aftur til Reykjavíkur hélt hann áfram að starfa hjá Vegagerðinni og lengst af sem deildarstjóri hönnunardeildar Reykjanesumdæmis. Eftir formleg starfslok hélt hann áfram að sinna ýmsum verkefnum og gæðaeftirliti fyrir Vegagerðina þar til hann veiktist fyrir ári.

Hilmar og Nína fluttu úr Skerjafirðinum á Seltjarnarnesið árið 2014. Þaðan er útsýni gott og fallegt. Hilmar var mikill unnandi útivistar og íslenskrar náttúru. Hana fangaði hann listilega með ljósmyndum, teikningum og vatnslitamyndum. Einnig hafði hann mikinn áhuga á tónlist og var engin tónlistarstefna þar undanskilin. Hann hafði gaman af stangveiði og fluguhnýtingum og var um árabil formaður veiðifélagsins Ármanna. Hann var meðlimur í Frímúrarareglunni og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 18. desember 2024, klukkan 13.

Þakklæti er mér efst í huga vegna þeirrar gæfu að hafa fengið að kynnast Hilmari og vera hluti af lífi hans í næstum 23 ár.

Hilmar var hlýr, drífandi, hugulsamur og ósérhlífinn – eiginleikar sem endurspeglast í öllum minningum sem við eigum um hann.

Hilmar var einstaklega næmur og hafði lag á að láta fólki líða vel. Hann gaf sér tíma til að hlusta, veitti stuðning og hjálpaði þegar þess þurfti. Alltaf passaði hann upp á að allir fengju nóg að borða og liði vel. Hann setti fjölskylduna í forgang og lagði sig fram við að létta okkur lífið. Ég mun aldrei gleyma því hversu þétt hann og tengdamamma héldu bæði mér og pabba mínum að sér á erfiðum tíma 2010 þegar mamma kvaddi okkur. Slík gjöf er ómetanleg og ber merki um þessa eðlislægu nærgætni og kærleik sem hann hafði og gerði hann að einstökum manni.

Hann var mikið jólabarn og er það sérlega sárt að hann hafi kvatt okkur svo skömmu fyrir jól en á sama tíma ljúft að hugsa til hans á betri stað á þessum tíma friðar og hátíðar. Hann elskaði jólin og umstangið sem þeim fylgdi – að skapa hlýlegt og gleðilegt andrúmsloft, sjá gleðina í augum barnanna og dekra við fjölskylduna sína.

Hilmar var hæfileikaríkur á svo mörgum sviðum og kunni vel að meta list. Hann gaf sig ekki út fyrir að vera listamaður en hann hafði engu að síður sérstaka getu til að skapa í gegnum teikningar sem lifnuðu hreinlega við í höndum hans. Hann hafði með sanni víðan smekk á tónlist og hlustaði mikið á allt mögulegt, frá Rammstein yfir í Bach og allt þar á milli, sem setti svip sinn á heimilislífið.

Það var ómetanlegt að fá að sjá hann í hlutverki afa – eins hvernig hann bar ómælda hlýju til barnanna okkar Gunna og sambandið sem hann skapaði við þau var einstaklega náið. Hilmar minnti okkur á það daglega hversu þakklátur hann var fyrir að eiga bæði okkur og afabörnin að.

Það er erfitt að horfa á eftir Hilmari, en minningin um hann lifir áfram í hjörtum okkar sem þekktum hann. Allt sem hann gaf af sér, allar stundirnar, kærleikurinn og gleðin sem hann færði, mun lifa með okkur.

Hvíldu í friði elsku tengdapabbi.

Anna Hulda Ólafsdóttir.

Afi var listrænn og góðhjartaður maður sem sýndi hverjum sem hann mætti virðingu. Hann kenndi mér margt um lífið sem ég hugsa um daglega. Að hugsa sér að hann muni aldrei segja mér aðra sögu um gömlu dagana þegar hann vann úti í sveit og þurfti að brasa mikið alla daga er ekki skemmtileg tilhugsun.

Ein af uppáhaldsminningum mínum með honum er þegar að við sátum saman fyrir utan sumarbústað við Hæðargarðsvatn rétt utan við Kirkjubæjarklaustur. Við vorum að taka roðið af harðfiskinum sem að við höfðum keypt deginum áður. Mér fannst mjög mikilvægt að harðfiskur væri með í þessari för og hafði þess vegna beðið ömmu og afa sérstaklega um að kaupa harðfisk. En það þurfti að taka roðið af eða rífa hann úr roðinu eins og afi sagði. Við sitjum saman, bara við tvö, á litlum hól fyrir framan stórt og víðáttumikið vatnið. Það er mitt sumar svo að heitur blær fyllir loftið í kringum okkur. Afi réttir mér eitt órifið flak og segir mér að byrja að vinna. Á meðan hann tekur hvert flakið á fætur öðru er ég ennþá að dunda mér við það sama. Hvorugt okkar segir neitt vegna þess hve friðsælt er og við hlustum á lífið á vatninu og tístið í fuglunum. Eftir svolitla stund af algjörri þögn byrjum við aftur að spjalla um margt og mikið. Svo heyrum við svaladyrnar opnast á bústaðnum og amma stingur hausnum út og segir okkur að það séu tíu mínútur í kvöldmatinn og að við skulum ekki borða okkur södd af harðfiski. Þó að það nálgist kvöldmatarleytið þá er ennþá bjart af íslenskri sumarsól. Allt í einu sest afar stór fiskifluga á harðfisksbitann sem ég held á. Ég verð hrædd og ætla að fara að lemja hana af mér en afi stoppar mig. Hann segir mér að ég eigi ekki að vera hrædd við svona kvikindi, hún sé bara meinlaus lítil fiskifluga. Ég er grafkyrr en að lokum flýgur hún í burtu. Ég ætla svo að fara að stinga bitanum upp í mig en hann stoppar mig aftur og segir mér að fleygja bitanum vegna þess að þó að þessi fluga hafi ekkert illt í huga þá sé hún alveg örugglega með margar bakteríur á sér. Eftir langt samtal um fiskiflugur og bakteríur förum við saman inn og borðum yndislegan mat sem amma hafði útbúið.

Hann gerði sumarbústaðarferðir eftirminnilegar og það verður erfitt að fara í slíka án hans. Ég mun ávallt sakna hans.

Þín skessa,

Guðrún Gunnarsdóttir.

„Oh, what a beautiful morning“ hljómar um litlu opnu grasflötina við húsin tvö á kyrrlátum morgni. Hann vaknar fyrstur og stendur úti á palli með heitan kaffibolla á handriðinu. Niðurinn í rólegu ánni reynir að vera hærri en tónlistin, og keppa hljóðin tvö við fuglasönginn. Blíð gola ber með sér ilm af lyngi og birki, kannski líka af lambasparði. Sumarsólstöðusólin skín hlýlega á hann og endurspeglar birtuna og hlýleikann sem einkenndi hann. Hann veit að hann er á undan áætlun og hefur reynt að breyta því en án árangurs. Hann bíður þolinmóður eftir ömmu, hann spjallar við langafa á meðan. Foreldrar hans og bróðir tóku vel á móti honum.

Eina óhagganlega staðreynd lífsins er sú að öll munum við þurfa að kveðja á endanum. Ég lét mig dreyma um að allir sem mér þykir vænt um fengju að verða eldgamlir og hrukkóttir, en það virðast vera forréttindi sem ekki allir fá að upplifa. Ég sá afa fyrir mér á elliheimili með ömmu, með hatt á höfði og þverslaufu. Hann myndi daðra við hana næstum því jafn mikið og hann stríddi henni, og framleiða nær endalaust magn af skemmtilegum teikningum sem þekja veggi herbergis þeirra. Börn, barnabörn og barnabarnabörn væru reglulegir gestir hjá þeim í sífellt stækkandi og elskulegri fjölskyldu sem öll sem eitt líta endalaust upp til fjölskyldumóðurinnar og -föðurins.

„Það er ótrúlegt að ímynda sér að sá sem býr yfir svo mikilli þekkingu og valdi – því að marga undursamlega hluti gerði hann meðal okkar – geti farist og svo mikill sagnasjóður horfið með honum úr heiminum.“ Þessi orð fóru á milli Faramírs og Fróða í Hringadróttinssögu, sem afi var mjög hrifinn af. Ég gat ekki annað en hugsað til afa þegar ég las þau og merkti við þau í bókinni minni rúmri viku áður en hann fór að lokum frá okkur. Því sálin og hugurinn hans afa, þessi sagnasjóður og húmor, hurfu fyrir ári og höfum við verið að syrgja hann síðan. Við munum öll þurfa að gera honum þann greiða að gleyma síðastliðnu ári og muna eftir honum eins og hann var; ávallt virðulegur, brosmildur og snjall.

Ég mun minnast afa það sem eftir er en sérstaklega á jólunum, áramótum og páskum. Þegar við Nína Guðrún vorum litlar varði afi miklum tíma í að búa til vandaðan ratleik sem endaði á páskaeggjunum okkar. Einu sinni skar hann kilina af bókum og faldi eggin á bak við það sem við héldum að væri bækur. Hver vísbending var gáta, stundum í formi ljóðs eða vísu. Páskar voru því svakalegt tilhlökkunarefni hjá okkur systrum.

Ég lærði margt af afa. Hann lét mig greina Stones, Kinks, Bítlana og fleiri í sundur og kenndi mér að stríða en aldrei hrekkja. Það skipti hann ómetanlega miklu máli að börnin hans og barnabörn væru umfram allt hamingjusamt og góðhjartað fólk og það skulum við reyna að vera í minningu hans. Ég þakka afa og ömmu fyrir nánd fjölskyldunnar sem er afar dýrmæt og ekki sjálfsögð. Afi vissi það betur en flestir og var sannkallaður fjölskyldufaðir.

Katrín Arnardóttir.

Hjartkær bróðir er kvaddur í dag eftir erfið veikindi. Söknuðurinn er meiri en orð fá lýst og tómarúmið stórt.

Fæðingardagur Hilmars, 21. júní 1949, er mér ógleymanlegur. Þetta var fallegur sumardagur og ég var sex ára gömul, stödd úti í garði hjá afa og ömmu á Hvilft í Önundarfirði, þegar mér var sagt að nú hefði ég eignast lítinn bróður. Það varð mikill fögnuður.

Ég dáði þennan fallega bróður, sem fékk ljósa lokka, brún augu og öfundsverð löng augnhár. Ég fann til mikillar ábyrgðar gagnvart honum og yngri bróður okkar Ólafi sem fæddist tveimur árum síðar. Þeir tveir voru nánir bræður alla tíð. Það má nærri geta að þessi sjálfskipaða umhyggja og stjórnsemi eldri systur var sannarlega ekki alltaf vinsæl, en þegar frá leið og með auknum þroska og skilningi allra aðila hefur þetta oft orðið að hlátursefni okkar systkinanna.

Hilmar var stórbrotinn persónuleiki. Skarpur, ör í skapi og lét álit sitt óspart í ljós ef honum mislíkaði. Manna skemmtilegastur, ljúfur og hjálpsamur, höfðingi heim að sækja. Þessi fjölbreytileiki gerði Hilmar svo eftirminnilegan þeim sem kynntust honum enda valdist hann oft til forystu á ýmsum vettvangi. Hilmar var einnig laghentur, en hann lumaði á leyndum listrænum hæfileikum, sem færri vissu af. Hann teiknaði skopmyndir af helstu viðburðum og merkisdögum innan fjölskyldunnar. Næmt skopskyn hans og kímnigáfa gerðu þessar myndir einstaklega skemmtilegar. Kortin og myndirnar urðu eins og sagnfræði fyrir fjölskylduna yfir liðna áratugi og eru okkur ómetanlegar perlur.

Á unglingsárum fékk Hilmar alvarlegan sjúkdóm og varð fárveikur. Hann var sendur til Bandaríkjanna í aðgerð sem bjargaði lífi hans en með dugnaði og stuðningi ástríkra foreldra okkar náði Hilmar sér á strik og lífið hélt áfram.

Hann lauk stúdentsprófi og menntaði sig fyrir ævistarfið. Hann kynntist Nínu sinni, sem alla tíð hefur staðið sem klettur við hlið hans. Síðar meir, þá sem ungur fjölskyldufaðir, gerðu fyrri veikindi aftur vart við sig og í hönd fóru erfiðir tímar. Aftur sigraði lífið og með dyggilegum stuðningi Nínu og fjölskyldu náði Hilmar sér og lífið varð aftur gott.

Unga fjölskyldan fluttist út á land þar sem þeim leið vel og Hilmar starfaði sem umdæmistæknifræðingur í fleiri ár. Börnin orðin þrjú og fjölskyldan dugleg að stunda útivist með tilheyrandi veiðitúrum og gönguferðum. Þær eru margar og skemmtilegar minningarnar frá þeim tíma. Útivist og göngur voru áfram stundaðar af miklum dugnaði eftir endurkomu til Reykjavíkur.

Fjölskylda Hilmars var honum allt. Hann var mikill og góður fjölskyldufaðir og Hilmar og Nína voru samhent hjón sem héldu þétt utan um sína góðu fjölskyldu og þau öll ferðuðust víða, bæði innanlands og utan.

Fyrir ári varð Hilmar fyrir þungu áfalli, sem rændi hann færni og lífsgæðum. Allt var gert til að létta undir og gera líf hans bærilegra við þær kringumstæður. Þessa erfiðu baráttu var ekki hægt að vinna. Hilmar var hetja þessa lífs.

Blessuð sé minning Hilmars bróður.

Arndís Finnsson.