Svava Axelsdóttir fæddist í Reykjavík 28. nóvember 1942. Hún lést á Vífilsstöðum 8. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Jónína Sæunn Sigurðardóttir Sæby, f. á Siglufirði 5. maí 1910, d. 11. apríl 1985, og Axel Vilberg Pálsson, f. 30. nóvember 1909 á Siglufirði, d. 20. september 1951.

Hálfsystir sammæðra var Guðmunda Sigríður Óskarsdóttir, f. 11. júní 1938, d. 25. desember 2003. Uppeldisbróðir er Guðmundur Haraldsson, f. 24. ágúst 1953.

Svava giftist Grími Haraldssyni 25. nóvember 1961. Börn þeirra eru: 1) Ómar Örn, f. 3. júní 1961, d. 4. júlí 2016, börn hans eru Guðrún Rakel, Sylvía Rún, Aníta Rún, Svava Líf og Helga Margrét. 2) Helga, f. 3. júní 1962, sonur hennar er Baldvin Örn. 3) Harpa, f. 1. október 1968, maki hennar er Garðar Sigurjónsson, börn þeirra eru Gríma Björg og Aron Snær.

Svava ólst upp í Reykjavík hjá móður sinni og Gógó systur til sjö ára aldurs, er hún fór í fóstur til Siglufjarðar þar sem Haraldur Sigurðsson móðurbróðir hennar og Valgerður Guðmundsdóttir bjuggu henni gott heimili. Svava lauk gagnfræðaprófi á Siglufirði. Fluttist þaðan ung og fór að vinna á Sólvangi í Hafnarfirði þar sem hún kynntist Grími. Svava og Grímur fluttu til Grundarfjarðar 1962 og bjuggu þar til ársins 1987, þegar þau fluttu í Garðabæ. Svava vann lengi vel á skrifstofu Soffaníasar Cecilssonar í Grundarfirði en einnig rak hún eigin blóma-, hannyrða- og gjafavöruverslun með Huldu konu hans. Þegar Svava og Grímur fluttu í Garðabæinn fór hún að vinna í Blómabúð Breiðholts þar sem hún vann þangað til hún hætti störfum vegna aldurs.

Útför Svövu fer fram frá Garðakirkju í dag, 18. desember 2024, klukkan 13.

Ég kynntist Svövu tengdamóður minni árið 1996, þegar við Harpa vorum að kynnast, hún tók mér strax opnum örmum. Hún hugsaði vel um tengdasoninn, og sem dæmi þá straujaði Svava hverja einustu flík af mér og má líklega rekja einhverja galla í mínu fari í dag til þessa tíma.

Gríma og Aron fóru oft heim til ömmu Svövu beint eftir skóla þar sem dekrað var við þau og reglulega bauð hún okkur í mat þar sem allt var klárt stundvíslega kl. 18.00 og að sjálfsögðu fylgdi eftirréttur. Ekki þýddi að taka það rólega í matnum hjá Svövu, hún vildi helst ekki setjast niður heldur passaði upp á að allir borðuðu mikið og hratt því að eftirrétturinn þurfti að komast á borðið. Að loknum matnum sagði hún mér yfirleitt að leggjast í sófann og hvíla mig. Gerist ekki betra. „Leggðu þig bara, þú hefur gott af því!“ Seinna meir var Aron búinn að taka yfir sófann. Það var alveg ljóst hver það var sem stýrði heimilinu í Kjarrmóum og hentaði það ágætlega þeim hjónum þar sem Grímur lét nokkuð vel að stjórn.

Áhugamál Svövu fyrir utan blóm og málun var stangaveiði og var allur frítími hennar og Gríms að sumri til skipulagður með veiði í huga. Á tímabili voru þau í bæði Stangaveiðifélagi Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og var veturinn nýttur í að bóka og skipuleggja ferðir sumarsins ásamt veiðifélögum sínum, Gulla, Hólmfríði og Didda frænda. Ég man ekki til þess að þau hafi nokkurn tímann farið út á land að sumri til án þess að það hefði verið skipulagt í kringum veiði. Nokkrir staðir voru í uppáhaldi eins og Veiðivötnin, Botnarnir í Eldhrauni og Hvítá í Borgarfirði, þau fóru líka oft í Vatnsdals- og Miðfjarðará fyrir norðan. Tvisvar á ári áttu Svava og Grímur fastan tíma í Veiðivötnum og eins og þeir sem þar til þekkja vita þá voru þetta ævintýraferðir. Ég fór nokkrar ferðir með þeim inn í Veiðivötn ásamt Aroni og eru þetta ferðir sem gleymast ekki þó að sjaldan hafi aflinn verið að flækjast fyrir. Þarna ljómuðu þau hjónin og voru í essinu sínu eins og sagt er. Meðan heilsa þeirra beggja leyfði var stangaveiðin þeirra ær og kýr en þegar Grímur hennar greindist með alzheimer fór veiðiferðunum að fækka.

Svava var yndisleg manneskja sem hugsaði mjög vel um alla í kringum sig, má eiginlega segja að hún hefði mátt hugsa betur um sjálfa sig en það er önnur saga.

Heilsa Svövu seinni árin var því miður ekki með besta móti, hún var slæm í baki, varð sjóndöpur og missti að lokum sjónina. Þar var mikið tekið af henni og helst það að geta ekki lengur staðið á árbakka og hent út fyrir fisk, hvað þá að geta ekki lengur hnýtt flugur.

Nú er Svava búin að kveðja okkur í bili og komin á árbakkann með Grími sínum.

Ég vil þakka Svövu fyrir samfylgdina og hennar stuðning í gegnum lífið og óska henni góðrar ferðar í því ferðalagi sem fram undan er. Betri tengdamömmu hefði ekki verið hægt að óska sér.

Þinn tengdasonur,

Garðar.

Elsku amma Svava kvaddi þennan heim 8. desember síðastliðinn.

Ég á svo ótal margar ljúfar og góðar minningar með þér elsku besta amma mín. Þú varst alltaf til staðar, áttir nægan tíma fyrir mig og varst til í að hlusta. Ávallt reiðubúin að gefa góð ráð og rétta mér hjálparhönd.

Við amma vorum sérstaklega nánar alla tíð en ég var svo heppin að fá að eyða stórum hluta æsku minnar heima hjá ömmu og afa í Kjarrmóum í Garðabæ. Ég var óheyrilega dekruð af ömmu, sem tók ávallt á móti mér heima hjá sér eftir skóla með nýbökuðum pönnsum eða öðru góðgæti og sagði sjaldnast nei við mig. Mér er það t.d. sérstaklega minnisstætt þegar ég var um 13 ára að bera út Morgunblaðið að amma mætti keyrandi til mín eldsnemma á morgnana og keyrði á eftir mér með blöðin í bílnum svo ég þyrfti ekki að draga þau í kerru.

Elsku amma, þú kenndir mér svo margt sem ég mun kenna strákunum mínum og búa að alla ævi, allt sem ég kann um blóm og plöntur, hvað stangveiði er dásamlega skemmtilegt sport, að vera alltaf með snyrtilegar neglur en fyrst og fremst góðmennsku og mannasiði. Ég heyri þig ennþá segja við mig: „Maður á að vera góður við allt og alla“ og: „Mundu, Gríma, að kurteisi kostar ekki peninga.“

Amma var mikill karakter, hún var réttsýn og með stórt hjarta, ákveðin og algjör nagli, hún t.d. þoldi ekki væl og aumingjaskap. Hún fékk mörg erfið verkefni en ekki man ég eftir því að hún hafi vorkennt sér eða velt sér upp úr því sem liðið var. Það blómstraði allt í kringum ömmu sem tók reglulega á móti slöppum pottaplöntum frá mér og hjúkraði þeim eftir mitt afskiptaleysi. Amma var alltaf að og virtist einhvern veginn hafa fleiri klukkustundir í sólarhringnum en aðrir. Þegar hún var ekki í vinnunni í blómabúðinni þá var hún að baka eða elda, þrífa loftin, reyta arfa, strauja viskustykki, mála myndir, hnýta flugur eða sinna vinum og fjölskyldu. En amma var þannig týpa að hún gerði allt og meira til fyrir fólkið sitt og tók öllum opnum örmum. Hún elskaði að gefa gjafir og hlúa að fólkinu sínu. Amma var einstaklega góður gestgjafi og gerði allt til þess að láta gestum líða vel, átti alltaf heitt á könnunni og heimabakað bakkelsi.

Tilveran er tómlegri eftir fráfall þitt elsku amma, ég mun sakna þess að hringja í þig þegar ég er í bílnum og skreppa til þín í heimsókn og njóta hlýrrar nærveru þinnar.

Þú kallaðir mig alltaf „ljósið mitt“ en nú ert það þú sem verður ljósið mitt.

Takk fyrir allt, elsku besta amma mín.

Þín

Gríma.

„Sæl, amma mín!“ er hvernig ég heilsaði ömmu ávallt og ef ég gleymdi því bað hún mig að hefja samtalið upp á nýtt. Elskuleg amma mín var ákveðin kona, vissi sitt og sparaði ekki orðin þegar hún vildi fá sínu framgengt: „Ég er eldri, feitari og frekari!“ En þannig kenndi amma mér margar góðar lexíur sem ég tek með mér út í lífið.

Amma Svava átti stóran hluta í mér og margar mínar æskuminningar eru með henni á heimili þeirra afa í Kjarrmóum 19 í Garðabæ, þar sem þau bjuggu í hartnær 30 ár og ég varði miklum hluta æskunnar. Þar beið manns ávallt kakómalt, bakkelsi og nýtt Andrésar Andar-blað. Alltaf var maður velkominn, eftir skóla eða um helgar, einn eða með öllum vinahópnum, alltaf tók amma vel á móti manni.

Á seinni árum tók amma Kötu minni opnum örmum og þegar hún frétti að Kata ætti enga ömmu eftirlifandi gekk hún henni um leið í ömmustað, sem lýsir hve hjartgóð kona amma Svava var.

Síðan þegar kom að því við eignuðumst Gabríel Gísla átti hún alltaf til góðgæti handa honum og Gabríel þótti fátt skemmtilegra en að fara í heimsókn að leika við langömmu Svövu!

Bless amma mín, góða ferð og ég hlakka til að hitta þig á ný í seinna lífi.

Þinn

Aron Snær.

Ég var heppin þegar Svava sótti um vinnu hjá mér í Breiðholtsblómi. Hún var nýflutt í bæinn frá Grundarfirði, en þar hafði hún rekið blómabúð um tíma. Þegar hún mætti til viðtals var hún með langar stíflakkaðar neglur. Ég hafði á orði að þessar neglur myndu ekki endast lengi í moldinni. Sú varð ekki raunin; neglurnar entust vel þrátt fyrir að Svava hlífði sér hvergi og réðist í alla hluti af krafti og dugnaði. Þetta var byrjunin á traustu sambandi og góðri vináttu sem entist út lífið.

Svava var einstaklega hjartahlý manneskja, elskuð af starfsfólkinu og okkur öllum fannst gott að vinna með henni. Hún var ósérhlífin og samviskusöm og ávann sér traust viðskiptavinanna. Hún var hrein og bein, ákveðin og lá ekki á skoðunum sínum, en ávallt sanngjörn. Líf hennar var ekki alltaf dans á rósum, en hún tók öllu með jafnaðargeði. Undir það síðasta hafði heilsu hennar hrakað mikið en hún bar sig alltaf vel og eins og hún sagði sjálf: „Þetta gæti verið verra.“ Hún var sannkölluð hetja. Nú er hún farin en minningin lifir um eftirminnilega og góða vinkonu. Við Nanna sendum öllum aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Birna Björnsdóttir.

Það var yndislegt nágrennið sem við áttum við Svövu og Grím á Fagurhólnum í Grundarfirði. Þegar við komum þangað voru þau að flytja í nýja húsið sitt og það var gaman að fylgjast með elju þeirra og áhuga við frágang lóðar og eitt og annað sem enn var ólokið. Heimilið þeirra var fallega búið og smekklega, það sem mestu varðar helgað hlýrri gestrisni og vinarþeli í allra garð. Þau voru samhent hjón og bjuggu börnum sínum kærleiksríka og góða tilveru. Þau kunnu vel þessir góðu vinir að þakka góða daga og stóðu saman sterk og æðrulaus þegar mótlætið knúði dyra.

Svava var einstök heiðurskona, falleg og geislandi, greind og hugsandi. Hún var glaðsinna og næm á hið spaugilega í tilverunni. Hreinskiptin var hún og heiðarleg og sagði hug sinn þætti henni nokkru skipta. Þau hjónin tóku heilan þátt í félagslífi í byggðarlaginu og létu muna um sig og það var hreinasta yndi að fylgjast með þeim taka snúning á dansgólfinu af dillandi kátínu og ótrúlegri list. Þau voru trúir félagar í kirkjukórnum um langt árabil, bæði með fallega söngrödd, tónviss og músíkölsk. Seint verður ofmetið framlag þess fólks sem sinnir slíkri þjónustu í kirkjum landsins og fegrar helgar stundir í gleði og sorgum í þágu þess málstaðar sem dýrastur er í þessum heimi.

Það var gott að eiga samleið með þessum heiðurshjónum í Grundarfirði og líka gott að hitta þau hér sunnan fjalla eftir að við höfðum öll flutt á mölina. Við vissum af Svövu í blómabúð í Breiðholtinu og af hennar höndum urðu þar til gullfallegir brúðarvendir dætra okkar allra og við fundum alúð og vináttu í þeirri gjörð til þeirra sem hún hafði haft svo mikið af að segja frá fyrstu bernsku. Þakkarefni er einnig að hafa fengið að taka þátt í helgum gleðistundum í fjölskyldu þessara góðu vina. Það voru fagnaðarfundir þegar þau komu við hjá okkur á Mosfelli á leið í veiðitúr í Leirvogsvatnið en slíkar ferðir sögðu af áhugamáli þeirra hjóna sem tók talsvert rými og tíma. Grímur andaðist í janúar árið 2020 eftir erfið veikindi. Svava sinnti honum í því krefjandi mótlæti af einstöku ástríki og umhyggju. Síðustu árin bjó hún í Strikinu 10 í Garðabæ. Hún var þá orðin lögblind en sá um sig sjálf en naut umhyggju afkomenda og trúfastra vina. Þangað var gott að koma í kaffisopa og notalegt spjall og þar komumst við að því sem við vissum ekki fyrr, og var ekki haldið á lofti, að listræn og smekkvís kona hafði fundið sér afþreyingu í listmálun og náð fallegum árangri.

Það er margs að minnast frá liðinni tíð og segir allt af skuggalausri vináttu og trúnaði sem við vorum svo lánsöm að fá að eignast. Það allt skal þakkað hér og nú við leiðaskil.

Þeir eru dimmir dagarnir sem nú líða hjá einn af öðrum en handan fárra dægra bíða hvörfin stóru með birtu jólanna í faðmi sínum. Sú kærleiksbirta sem helgar þá blessuðu hátíð umvefur nú kæra vinkonu í dýrðarríki Drottins við himneska endurfundi.

Guð blessi minningu Svövu Axelsdóttur og Guð blessi ástvini hennar alla.

Jón frá Ljárskógum Þorsteinsson,
Sigríður Anna
Þórðardóttir.