Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Halldór Þorkelsson, lögfræðingur framkvæmdaaðila í Álfabakka 2, segir þá hafa átt í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna vöruhússins í Suður-Mjódd. Þeir eigi því bágt með að sjá hvernig útkoman eigi að koma fulltrúum borgarinnar á óvart.
Tilefnið er fréttaflutningur af nýbyggingu í Álfabakka 2 en af því tilefni vill félagið sem byggir og á húsið, Álfabakki 2 ehf., árétta nokkur atriði.
Í fyrsta lagi sé framkvæmdin unnin í samræmi við allar gildandi heimildir.
Umfangsmikil samskipti
„Líkt og áður hefur verið áréttað er sú uppbygging sem nú á sér stað við Álfabakka 2 í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag, þau lög og reglur sem ná til slíkrar framkvæmdar sem og heimildir byggingar- og skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Er í því samhengi ástæða til þess að árétta sérstaklega að umfangsmikil samskipti áttu sér stað við þar til bæra fulltrúa Reykjavíkurborgar í undirbúnings- og hönnunarferlinu.
Tóku þau samskipti m.a. til útlits og hönnunar byggingarinnar og frágangs lóðar,“ segir í áréttingu frá framkvæmdaaðila.
Margra mánaða ferli
Spurður út í þau samskipti segir Halldór að margir komi þar við sögu.
„Þetta var margra mánaða ferli sem tók til fulltrúa á sviði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, auk þess sem það voru samskipti við fleiri þar til bæra fulltrúa borgarinnar. Þannig að þetta er jú fjöldi einstaklinga á vegum Reykjavíkurborgar sem með einum eða öðrum hætti koma að verkefninu,“ segir Halldór.
Hversu líklegt er þá að málið komi fólki hjá borginni á óvart?
„Við eigum ansi bágt með að sjá með hvaða hætti það getur verið í ljósi verulega langs aðdraganda og ítarlegra gagna í öllu þessu undirbúningsferli. Það kemur okkur verulega á óvart.“
Falli að nærumhverfinu
Halldór segir að við hönnun lóðarinnar hafi eigandinn, Álfabakki 2 ehf., sem aftur sé í eigu félaganna Klettáss ehf. og Eignabyggðar ehf., kappkostað að áformuð starfsemi við Álfabakka 2 félli sem best að nánasta nágrenni og umhverfi.
„Það er ágætt að árétta að í öllu þessu undirbúningsferli var farið í mjög ítarlega lóðar- og frágangshönnun sem tekur til þessa nærumhverfis. Þar er farið út í sérútfærslur á trjágróðri og svo framvegis og það er gert ráð fyrir hljóðmön á lóðinni og sérstaklega horft til þess að draga úr umhverfisáhrifum og hljóðáhrifum og þess háttar. Þannig að heilt yfir er óhætt að segja það,“ segir Halldór.
Hvað verður á milli húsanna?
„Þar er gert ráð fyrir trjágróðri og búið að útfæra það í hönnun landslagsarkitekta,“ segir Halldór.
Þá segir hann framkvæmdaaðila vilja árétta að samþykki skipulagsfulltrúa fyrir starfsemi kjötvinnslu hafi verið forsenda leigusamnings við leigutaka. Slíkt samþykki hafi verið veitt af skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 10. janúar 2023.
Óveruleg umferð
Þá sé við hæfi að það komi fram að umferð vöruflutningabifreiða eða annarra stærri tækja í tengslum við kjötvinnslu verði óveruleg og ekki líkleg til að valda nágrönnum ónæði.
Hvernig var málið kynnt fyrir haghöfum og nágrönnum?
„Skuldbindingar framkvæmdaaðila eru gagnvart skipulags- og byggingaryfirvöldum og gagnvart þessum aðilum eru allar teikningar, áformaður frágangur, útlit og fyrirkomulag kynnt. Það er síðan á vegum borgarinnar hvernig staðið er að nánari kynningu gagnvart nærliggjandi aðilum og öðrum hagaðilum. Borgin var alfarið með það.“
Horfa á þessa einu lóð
Fjallað var um málið á vef RÚV í gær. Þar sagði að 13 breytingar á jafn mörgum árum hefðu verið gerðar á deiliskipulagi í Suður-Mjódd. Því hafi verið orðið erfitt fyrir lærða jafnt sem leika að fylgjast með, að mati fyrrverandi forstjóra Skipulagsstofnunar. Hvað með þennan málflutning, að það sé svo óvenju mikið um breytingar að fólk hafi misst sjónar á því hvað stæði til?
„Það er erfitt fyrir okkur að hafa skoðun á því. Við erum auðvitað bara að horfa á þessa einu lóð og hvernig hún hefur þróast og breyst í þessu deiliskipulagsferli. Hvað varðar hið stærra svæði sem er vísað til í þessu tilviki, Suður-Mjódd, þá þekkjum við ekki skil á því.“
Lögðu fram beiðni
Er rétt að byggingarheimildir hafi ekki verið fullnýttar en framkvæmdaaðili hafi engu að síður greitt fyrir þær allar?
„Já. Það er laukrétt. Og ekki bara það heldur lögðum við fram beiðni í ljósi þess að byggingarlóðarhafi er krafinn um greiðslu byggingarréttar fyrir allt að 15 þúsund fermetra byggingu ofanjarðar. Það varð fljótlega ljóst að það væri ekki talið skynsamlegt að ráðast í framkvæmd á stærra húsi en sem nemur 11.500 fermetrum. Og þá fást þau svör hjá borginni að það yrðu ekki gerðar breytingar á þessari greiðsluskyldu nema gildandi deiliskipulagi yrði breytt.
Þar af leiðandi fórum við fram á breytingar á gildandi deiliskipulagi þannig að byggingarmagn á þessari lóð yrði fært niður í 11.500 fermetra. Það var ekki fallist á þá beiðni.“
Ekki ásættanlegt
Hvað finnst þér um það?
„Það er ekki beinlínis ásættanlegt að greiða fyrir byggingarrétt sem þú sérð ekki fram á að nýta. Þannig að vissulega eru aðilar ekki beinlínis sáttir við það.“
Hvaða upphæðir er um að ræða?
„Ég kann ekki skil á því.“
Mér skilst að verkefninu hafi seinkað vegna tafa af hálfu Reykjavíkurborgar. Meðal annars vegna þess hversu langan tíma tók að samþykkja fjölda bílastæða. Að á ýmsum stigum málsins hafi framkvæmdaaðili þurft að bíða vegna slíkra tafa. Er það rétt?
„Upplifun framkvæmdaaðila er vissulega sú að ferlið, þ.e.a.s. undirbúningsferlið, tók að okkar viti verulega og óþarflega langan tíma,“ segir Halldór að lokum.