Björn Brynjúlfur Björnsson tók við sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs fyrir sex mánuðum, á sama tíma eignaðist hann frumburð sinn. Hann segir að tímamót séu því nýafstaðin á tvennum vígstöðvum. Það hljómaði bratt að þetta bæri upp á sama tíma, en þetta hefur allt saman reddast að hans sögn.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Helsta verkefnið er að ná utan um alla þræði í starfsemi ráðsins. Viðskiptaráð hefur verið sameiginlegur vettvangur íslensks viðskiptalífs frá árinu 1917, með ríka sögu og fjölmörg hlutverk.
Við starfrækjum til dæmis Menntasjóð Viðskiptaráðs sem fer með eignarhluti ráðsins í Verslunarskólanum og Háskólanum í Reykjavík, auk þess að úthluta náms- og rannsóknastyrkjum. Innan vébanda ráðsins starfa líka 16 millilandaráð. Þar tók til dæmis Dansk-íslenska viðskiptaráðið þátt í að skipuleggja heimsókn viðskiptasendinefndar til Kaupmannhafnar í haust í tilefni af heimsókn forseta Íslands.
Hjartað í starfseminni er síðan málefnastarfið. Stærstur hluti af mínum tíma hefur farið í að styðja við málefnateymið og styrkja útgáfustarfsemi ráðsins.
Það er skapandi viðfangsefni og hver útgáfa veitir tækifæri til að gera betur t.d. varðandi hugmyndir, efnisvinnu, hönnun, samskipti og dreifingu. Mörg innlegg okkar þar hafa haft áhrif undanfarið, til dæmis um skólamál, eftirlitsstofnanir, veðmál, loftslagsmál, alþingiskosningarnar og nú síðast sérréttindi opinberra starfsmanna.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Ég reyni að vera duglegur að hitta fólk sem ég lít upp til. Í starfi mínu er ég mikið á fundum. Fundir eru talaðir niður og kannski eðlilega enda almennt of algengir. Margir þeirra gefa mér hins vegar orku með því að kynnast nýjum sjónarhornum og hugmyndum.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Við hefjum árið á þremur stórum viðburðum. Í janúar höldum við skattadaginn í samstarfi við Deloitte og Samtök atvinnulífsins. Í febrúar höldum við síðan peningamálafund og viðskiptaþing, en síðarnefndi viðburðurinn er einn sá stærsti í íslensku viðskiptalífi.
Markmið okkar með þessum viðburðum er að skapa vettvang fyrir uppbyggilega umræðu um rekstrarumhverfi fyrirtækja og hagfellda framtíðarstefnu fyrir Ísland.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Ég mætti á Menntaþing, en það var stór ráðstefna sem var skipulögð í sameiningu af stjórnvöldum og Kennarasambandi Íslands. Ég mætti þangað sem þátttakandi í pallborði um grunnskólakerfið. Það var hressandi og ég kann fráfarandi ráðherra þakkir fyrir að hleypa okkar sjónarmiðum að borðinu þar. Það er full þörf á.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig er líklega The Selfish Gene eftir Richard Dawkins. Hún sýndi mér að þróunarkenninguna má finna afar víða, hvort sem litið er til líffræði, sálfræði, rekstrar eða þjóðhagfræði.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Já, ég myndi segja það. Ég reyni að borða frekar hollt, mæti nokkuð reglulega í líkamsrækt og passa yfirleitt upp á svefninn. Samhliða þessu tek ég bæði magnesíum og kreatín. Ég mæli með hvoru tveggja, þau eru ekki einungis góð fyrir líkamlega heilsu heldur ekki síður andlega.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Hagræðingarkeisari er umtalað hlutverk þessa dagana eftir að Elon Musk og Vivek Ramaswamy tóku við þeim hlutverkum í Bandaríkjunum. Ætli draumastarfið mitt væri ekki að ráðast í samskonar verkefni til að hagræða hjá hinu opinbera á Íslandi. Af þeim störfum sem eru til í raunveruleikanum þá rímar núverandi starf ágætlega við það.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Eðlisfræði eða heimspeki því hugmyndirnar þaðan eiga við á svo mörgum sviðum.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Kostir: Það er einfalt að stofna og reka fyrirtæki. Ísland er lítið land með stuttar boðleiðir, meiri sveigjanleika og takmarkaða pappírsvinnu í samanburði við stærri ríki.
Gallar: Hið opinbera er of umsvifamikið á Íslandi. Skattar og opinber útgjöld eru há. Boð og bönn eru nú talin í tugum þúsunda og eftirlitsstofnanir óvíða stærri. Allt dregur þetta úr svigrúmi fólks til að skapa hluti og ráða sínu eigin lífi.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Fjárlögum. Ég myndi vilja lækka opinber útgjöld um hundruð milljarða. Hið opinbera hefur þanist umtalsvert út fyrir þau hlutverk sem breið sátt ríkir um.
Hin hliðin
Menntun: Menntaskólinn í Reykjavík, eðlisfræðideild II (2008), Háskóli Íslands, BS í iðnaðarverkfræði (2011), University of Oxford, MSc í fjármálahagfræði (2012)
Störf: Credit Suisse, greinandi (2012), McKinsey & Company, ráðgjafi (2013-2014), Viðskiptaráð Íslands, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri (2014-2017), Sjálfstætt starfandi, ráðgjöf og eigin rekstur (2017-2020), Moodup, stofnandi og framkvæmdastjóri (2021-2024), Viðskiptaráð Íslands, framkvæmdastjóri (2024-nú). Háskólinn í Reykjavík, stjórnarmaður (2024-nú), Moodup, stjórnarformaður (2024-nú)
Áhugamál: Matarboð og veitingastaðir, ferðalög, hreyfing í góðum félagsskap, tækni og internetið, tölvuleikir, kvikmyndir, tónlist, vísindaskáldskapur.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Oliwiu Antczak laganema og eigum saman eitt barn, Ólaf, sem er hálfs árs gamall.