Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford segist vera reiðubúinn að yfirgefa uppeldisfélag sitt Manchester United. Þetta sagði hann í samtali við fjölmiðlamanninn og rithöfundinn Henry Winter. Rashford hefur verið hjá Manchester United allan sinn feril en var skilinn eftir utan hóps í sigri United á nágrönnum sínum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn sunnudag. Þá sögu enskir miðlar frá því í gær að Manchester United væri tilbúið að selja sóknarmanninn en hann virðist ekki vera í plönum nýja knattspyrnustjóra liðsins, Rúbens Amorims.
Julia Niemojewska, landsliðskona Póllands í körfuknattleik, er gengin til liðs við Keflvíkinga en hún kemur til þeirra frá Jairis Murcia á Spáni. Julia er 26 ára leikstjórnandi sem hefur lengst af leikið í heimalandi sínu með Arka Gdynia, GTK Dynia og Poznan, en einnig í Þýskalandi og á Ítalíu.
Miðasala fyrir íslenska stuðningsmenn er hafin á miðasöluvef UEFA fyrir EM 2025 í knattspyrnu kvenna, sem fer fram í Sviss næsta sumar. Í tilkynningu frá Knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, segir að eftirspurn eftir miðum meðal íslenskra stuðningsmanna sé nokkuð meiri en sá miðafjöldi sem er í boði á leikina gegn Finnlandi og Noregi. KSÍ sé nú þegar að kanna hvort hægt sé að fjölga miðum á þá leiki en óvíst sé hvort það takist.
Knattspyrnukonan Jana Sól Valdimarsdóttir er komin aftur í Stjörnuna eftir fjögurra ára fjarveru. Hún gat nær ekkert leikið með Val á þremur árum þar, vegna meiðsla, en lék síðan með HK í 1. deild á þessu ári og skoraði fimm mörk í 13 leikjum.
Brasilíumaðurinn Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður heims á sínum tíma, gefur kost á sér í embætti forseta knattspyrnusambands Brasilíu. Hann býður sig fram gegn sitjandi forseta, Ednaldo Rodrigues, í kjörinu sem fer fram í mars 2026.
Knattspyrnukonan Alma Mathiesen hefur skrifað undir nýjan samning við FH til tveggja ára. Alma, sem er 21 árs, kom til FH frá Stjörnunni sumarið 2023 en missti af öllu tímabilinu 2024 eftir að hafa slitið hásin.
Tveir erlendir leikmenn karlaliðs Hauka í körfuknattleik eru á förum frá félaginu eftir leik þess gegn ÍR í kvöld. Samkvæmt karfan.is hafa Haukar sagt upp samningum við Frakkann Steeve Ho You Fat og Bandaríkjamanninn Tyson Jolly. Haukar, sem sitja á botni úrvalsdeildarinnar, hafa verið með fjóra erlenda leikmenn í vetur, auk „íslenska Bandaríkjamannsins“ Everage Lee Richardsons.
Serbneski miðherjinn Nikola Jokic fór einu sinni sem oftar á kostum með liði Denver Nuggets í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í fyrrinótt þegar Denver vann nauman sigur á Sacramento Kings, 130:129. Jokic skoraði 20 stig, tók 14 fráköst og átti 13 stoðsendingar. Það var hans tíunda „þrefalda tvenna“ í fyrstu 24 leikjum Denver á þessu tímabili.