Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að ESB myndi á næstunni auka „bein samskipti“ sín við núverandi valdhafa í Sýrlandi, bæði uppreisnarhópinn Hayat Tahrir al-Sham, HTS, og aðra hópa.
Von der Leyen var stödd í Ankara höfuðborg Tyrklands þar sem hún ræddi við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta um stöðuna í Sýrlandi. Sagði hún að koma þyrfti með öllum ráðum í veg fyrir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams gætu fengið fótfestu á ný í Sýrlandi.
ESB sendi á mánudaginn erindreka til Damaskus höfuðborgar Sýrlands til þess að ræða við bráðabirgðastjórnina í Sýrlandi, en Tyrkir opnuðu sendiráð sitt í landinu á ný á laugardaginn. Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Kaja Kallas, sagði í gær að sambandið hygðist einnig opna sendiráð sitt, og að viðræður sambandsins við bráðabirgðastjórnina hefðu reynst mjög „uppbyggilegar“.
Yfirlýsingar forsvarsmanna ESB koma á sama tíma og hinir nýju valdhafar í Sýrlandi reyna að opna á samskipti við umheiminn, en sú viðleitni hefur reynst flókin þar sem flestir hópar uppreisnarmanna, HTS þar á meðal, eru nú á lista yfir hryðjuverkasamtök hjá vesturveldunum.
Bæði Frakkar og Þjóðverjar hafa þó sent fulltrúa sína til landsins eftir að Assad-stjórnin féll um þarsíðustu helgi, og þá fundaði leiðtogi uppreisnarmanna, Abu Mohammed al-Jolani, í gær með Stephen Hickey, yfirmanni málefna Mið-Austurlanda og Norður-Afríku í breska utanríkisráðuneytinu.
Sagði Jolani við Hickey að binda þyrfti enda á allar refsiaðgerðir gegn Sýrlandi sem fyrst svo að sýrlenskir flóttamenn gætu snúið aftur til landsins. Þá sagði hann að uppreisnarhóparnir sem steyptu Assad-stjórninni yrðu leystir upp og vígamenn þeirra þjálfaðir til þess að ganga til liðs við hinn nýja sýrlenska stjórnarher.