Þóra Magnúsdóttir (Dídí) fæddist í Vestmannaeyjum 13. apríl 1930. Hún lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hraunbúðum Vestmannaeyjum 8. desember 2024. Foreldrar Þóru voru Magnús Bergsson bakarameistari í Vestmannaeyjum f. 2.10. 1898 d. 9.12. 1961 og Halldóra Valdimarsdóttir Reyndal húsfreyja f. 9.9. 1903 d. 12.6. 1942. Systkini Þóru voru Dóra Hanna f. 1925, d. 2013, Bergur, f. 1927, d. 1942, Júlíus Gísli, f. 1938, d. 1968, og Halldór Sigurður, f. 1942.

Eiginmaður Þóru var Kristinn Pálsson skipstjóri og útgerðarmaður frá Þingholti Vestmannaeyjum f. 20.8. 1926, d. 4.10. 2000. Foreldrar hans vour Páll Sigurgeir Jónasson skipstjóri, f. 1900, d. 1951, og Þórsteina Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 1904, d. 1991. Börn Þóru og Kristins eru 1) Magnús, f. 1950, útgerðarmaður giftur Lóu Skarphéðinsdóttur hjúkrunarfræðingi, börn þeirra eru a) Þóra, b) Elfa Ágústa, c) Héðinn Karl, d) Magnús Berg, e) Helga Marý, barnabörn 11 og barnabarnabörn 4. 2) Jóna Dóra, f. 1954, ljósmóðir, hennar maður var Björgvin Þorsteinsson hæstaréttarlögmaður, látinn 2021. Sonur Jónu Dóru er Kristinn Geir og á hann 4 börn, dóttir Björgvins er Steina Rósa og á hún 4 börn og 3 barnabörn. 3) Bergur Páll, f. 1960, stýrimaður, gifur Huldu Karen Róbertsdóttur kennara. Börn þeirra eru a) Dúi Grímur, b) Áslaug Dís, c) Þóra Kristín, barnabörnin eru 6. 4) Birkir, f. 1964, viðskiptafræðingur í sambúð með Ragnhildi Gísladóttur tónlistarkonu. Sonur Birkis er Kristinn, dætur Ragnhildar eru Erna og Bryndís, barnabörnin eru 6.

Þóra ólst upp hjá foreldrum sínum í Tungu í Vestmannaeyjum. Hún lauk námi í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1947, námi í Hjúkrunarskóla Íslands vorið 1952 og sérnámi í skurðhjúkrun frá Landspítalanum 1975. Hún var hjúkrunarfræðingur við Sjúkrahúsið og á heilsugæslunni í Eyjum1969 til 1972. Árið 1973 fór Þóra til Reykjavíkur í sérnám í skurðhjúkrun og starfaði þá á Borgarspítalanum og Landspítalanum 1973 – 1976. Eftir sérnámið starfaði hún á skurðdeild og handlækningadeild Sjúkrahúss Vestmannaeyja til 1992. Síðustu 3 starfsárin vann hún á lyflækningadeild sjúkrahússins. Hún lét af störfum árið 1995.

Þóra þótti ábyrgur og góður hjúkrunarfræðingur, var vel liðin af sjúklingum og samstarfsfélögum. Hún var dugleg að tileinka sér nýjungar í starfi, sótti námskeið og ráðstefnur. Hún hafði gaman af félagsstörfum og var virk í Félagi hjúkrunarfræðinga í Vestmannaeyjum og Kvenfélaginu Líkn. Hún hugsaði vel um heilsuna, stundaði sund nánast daglega fram á háan aldur, hafði yndi af handavinnu, átti góða vini og var dugleg að rækta vinskapinn.

Útför Þóru fer fram í dag, 18. desember 2024, frá Landakirkju Vestmannaeyjum. Streymt verður frá útförinni: https://www.landakirkja.is/

Elsku mamma.

Eins erfitt og mér fannst að kveðja þig fyrir rétt rúmri viku þá vil ég trúa því að tímasetningin hafi verið nokkuð rétt. Þú varst búin að sinna þínu fullkomlega í gegnum langa ævi og koma öllum þínum á legg, og gott betur en það. Að þurfa að vera rúmliggjandi hefur aldrei verið þinn stíll, og þegar þannig var komið fyrir þér, og þú meira að segja hætt að varalita þig, þá ákvaðstu að sleppa takinu og yfirgefa jarðvistina.

Minningarnar lifa áfram af fallegri og heilsteyptri manneskju sem bar umhyggju fyrir öllum sínum nánustu, ásamt þeim sem minna máttu sín. Það að hjúkra og hugsa um aðra var þér alltaf ofarlega í huga, enda menntuð hjúkrunarkona og barst mikla virðingu fyrir því starfi.

Ég sem yngsta barnið ykkar pabba fékk alltaf að njóta þess að vera yngstur með smá auka umhyggju frá þér. Þegar ég flutti að heiman til að hefja nám í Reykjavík passaðir þú alltaf upp á litla drenginn þinn með því að elda fyrir alla daga vikunnar og setja það í merktar skálar sem ég tók með mér í bæinn og hitaði síðan upp á hverjum degi þegar hungrið kallaði. Síðar á lífsleiðinni þegar ég bjó úti í Eyjum og spilaði fótbolta eldaðir þú alltaf nóg af staðgóðum mat fyrir mig. Stundum hélt ég að þú værir að elda fyrir alla fjölskyldumeðlimi sem bjuggu úti í Eyjum, en þá var varstu bara að elda kvöldverðinn fyrir okkur tvö. Þú varst alltaf sátt þegar ég kláraði allan matinn og allir pottar tómir. Ef ég náði ekki að klára allt, þá sagðir þú oftast að ég gæti bara borðað fyrir morgundaginn með því að klára það sem eftir var.

Þú hvattir mig alltaf áfram til að afla mér menntunar en vildir jafnframt að vinnan myndi aldrei stjórna lífi manns því lífið hefði upp á svo margt skemmtilegt að bjóða. Í íþróttunum hafði ég engan betri stuðningsmann en þig, og þegar ég var að spila þá gekkst þú um gólf, horfandi á leikinn í sjónvarpinu eða hlustandi á lýsinguna í útvarpinu, og nagaðir á þér neglurnar af spenningi. Þú safnaðir síðan úrklippum úr blöðunum um alla leiki og VHS-spólurnar sem þú tókst leikina upp á fylla nokkrar ferðatöskur.

Á Hraunbúðum var hugsað vel um þig og þar fór vel á með þér og starfsfólkinu sem og vistfólkinu. Það verður skrítið að fara til Eyja á næstunni og ekki fara á Hraunbúðir til að heimsækja þig þar.

Takk fyrir allt saman elsku mamma mín, minning þín lifir.

Birkir.

Við fráfall elsku tengdamóður minnar er mér efst í huga þakklæti. Þakklæti fyrir allt sem hún kenndi mér og hefðirnar í fjölskyldunni sem hún skildi eftir sig.

Dídí var hörkukona sem alltaf var áræðin og sjálfstæð. Hún fór að heiman um tvítugt í Hjúkrunarskóla Íslands til að læra hjúkrun. Að loknu námi fór hún heim til Eyja, þá búin að eiga fyrsta barnið sitt, en börnin urðu fjögur.

Á meðan börnin voru lítil og Kristinn á sjó vann hún hlutastörf við heilsugæsluhjúkrun en þegar börnin komust á legg ákvað hún að fara til Reykjavíkur til að undirbúa sig til að fara að vinna á nýja sjúkrahúsinu í Eyjum, sem þá var í smíðum. Henni líkaði mjög vel í Reykjavík og nú var fjölskylda hennar komin til Reykjavíkur vegna eldgossins og fór hún að læra skurðhjúkrun.

Það fór þannig að eftir að hún lauk námi í skurðhjúkrun var fjölskyldan komin til Eyja og vildi hvergi annars staðar vera. Hún ákvað með trega að fara til Eyja þar sem hún vann á skurðstofu og handlækningardeild.

Dídí var kona sem lét sig fólk varða og fór í margar heimsóknir til sjúkra og aldraðra og var auk þess mjög frændrækin.

Hún hlúði vel að aðkomufólki sem kom að vinna á sjúkrahúsinu í Eyjum og hélt ófá boð fyrir þetta fólk og tengdist því vináttuböndum sem sum héldu fram á síðasta dag.

Dídí varð ekkja árið 2000 þegar Kristinn lést eftir erfið veikindi. Hún skipti um húsnæði og flutti í nýja útsýnisíbúð í hjarta Vestmannaeyjabæjar. Þar undi hún sér vel, hélt áfram sínu lífi, fór mikið til Reykjavíkur og naut þess að vera með börnum sínum sem bjuggu þar og rækta vina- og frændgarðinn sinn. Hún keyrði bíl þar til hún varð níræð.

Það var mjög erfiður tími í covid þegar hún var einangruð ein inni, 90 ára, fékk innlit tvisvar á dag og mat við dyrnar. Þarna sýndi hún aðdáunarvert æðruleysi og kvartaði ekki. Hún fékk svo pláss á hjúkrunarheimilinu á Hraunbúðum í febrúar 2021 þar sem hún undi sér vel og fékk mjög gott atlæti.

Hún kvaddi lifið með reisn með börnin sín sér við hlið og þurfti sem betur fer ekki að liggja lengi, það var ekki í hennar anda.

Við munum halda í hefðirnar hennar, eldum jólasúpuna, en þá vantar hana til að segja: „aðeins meira sérrí eða aðeins meiri rjóma“.

Við höldum fjölskyldunni okkar saman á jóladag sem var hennar hefð og allar hinar góðu hefðirnar sem hún skapaði.

Það gott að vita af ykkur Kristni sameinuðum á ný.

Elsku tengdamamma, takk fyrir lífið með þér.

Þín tengdadóttir,

Lóa.

Elsku amma mín, þá hefur þú fengið hvíldina og hitt elsku afa.

Fyrir það er ég þakklát.

Það er svo margar minningar sem koma upp þegar hugsað er um ömmu á uppvaxtarárunum mínum. Þrettándinn skipar stóran sess í minningabankanum. Enginn vildi missa af þeirri veislu sem amma var með þegar við komum úr þrettándagöngunni, þá var gott að ylja sér á heitu súkkulaði og meðlæti. Það var spilað púkk á jóladag, sem amma og afi kenndu okkur. Reglurnar í spilinu þurfti oft að rifja upp með tilheyrandi hlátrasköllum.

Það var líka gott að kíkja til þín í Baldurshagann þegar þú bjóst þar, þú elskaðir að búa í Miðbænum, að geta labbað út í búð og fleira.

Það tók þig smá tíma að sættast við að búa á Hraunbúðum því þér fannst alveg fáránlegt að setja gamla fólkið vestur í bæ og ekkert hægt að labba út og skoða mannlífið. Og er ég ekki frá því að þetta mál hafi ratað inn á borð til bæjarstjóra því ömmu var mikið niðri fyrir þegar hún talaði um þetta.

Það var vont að fá fréttir um að þér hafi hrakað örlítið og ættir stutt eftir, ég vildi ekki trúa því að þú færir áður en við kæmum heim úr smáferðalagi með mömmu og pabba. En þú beiðst eftir okkur og áttum við gott spjall síðustu dagana þína. Það sem einkenndi síðustu dagana var brosið þitt og svo kyrrðin og værðin yfir þér.

Bless elsku amma, þangað til næst. Guð geymi þig. Elska þig.

Þín

Elfa Ágústa.