Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Farin var óvenjuleg leið á Reyðarfirði á sunnudaginn þegar börn og aðstandendur þeirra fengu tækifæri til að hlýða á jólaguðspjallið í fjárhúsi.
„Við vorum með aðventustund í fjárhúsunum á bænum Sléttu á Reyðarfirði. Hugmyndin var sú að börnin fengju mögulega einhverja tilfinningu fyrir því hvernig hafi verið að fæðast í fjárhúsi og hvernig aðstæður hafi verið þar sem frelsarinn fæddist,“ segir Benjamín Hrafn Böðvarsson, sóknarprestur á Reyðarfirði, en hann segir að fjölskyldur víðar úr Fjarðabyggð hafi sótt aðventustundina sem kölluð er aðventustund fjölskyldunnar.
Benjamín las upp jólaguðspjallið og fæðingarfrásögnina en einnig voru sungin jólalög.
„Það var mjög vel mætt og fólki fannst alveg frábært að hlýða í fjárhúsi á frásögnina af fæðingu í fjárhúsi. Ég tel það alltaf vera gott þegar við færum kirkjuna aðeins út fyrir kirkjudyrnar,“ segir Benjamín en samkoman var ætluð fjölskyldum en ekki eingöngu börnum. Kalla megi viðburðinn helgistund frekar en kirkjuskóla.