Eyðilegging sæstrengja í Eystrasalti er hluti af vaxandi, fjölþættum hernaði Rússa

Ekki hefur enn verið hægt að sýna fram á að sæstrengirnir, sem fóru í sundur á botni Eystrasaltsins um miðjan nóvember, hafi verið skemmdir vísvitandi, en í raun þykir annað útilokað.

Myndir teknar með kafaradróna sýna djúpar rákir, sem liggja að ljósleiðarastrengnum milli Finnlands og Þýskalands. Þær eru vísast eftir akkeri, sem dregið var að kaplinum.

Sæstrengirnir tveir eyðilögðust með nokkurra klukkustunda millibili. Gögn sýna að kínverskt flutningaskip, Yi Peng 3, sigldi yfir kaplana, sem nefnast C-Lion1 og BCS East-West Interlink, um það leyti sem þeir fóru í sundur.

Í október í fyrra átti sér svipað atvik stað. Þá skemmdist gasleiðsla milli Eistlands og Finnlands og tveir ljósleiðarastrengir. Þar kom kínverskt fragtskip einnig við sögu, Newnew Polar Bear frá Hong Kong. Staðfest er að það hafi dregið akkeri yfir leiðsluna og strenginn.

Kínverjar gangast hins vegar ekki við neinu varðandi strengina sem eyðilögðust í nóvember.

Yfirvöld ríkja, sem liggja að Eystrasaltinu, hafa nokkrar áhyggjur af stöðunni. Í fréttaskýringu í þýska tímaritinu Der Spiegel segir að þeir sem hafi öryggismál á sinni könnu eigi bágt með að trúa að stjórnvöld í Peking hafi fyrirskipað eyðileggingu sæstrengjanna í nóvember og telji ólíklegt að Kínverjar hafi gert þetta í samstarfi við Rússa. Kínverjar hafi engan hag af því að eyðileggja innviði í Evrópu og stefna samskiptum við ríki Evrópu í hættu.

Böndin berist því að Rússum og hljómar ein tilgátan þannig að Rússar hafi mútað skipstjóra Yi Peng 3 án vitundar Kínverja.

Rússneskar leyniþjónustur hafa verið iðnar við að valda usla og glundroða á Vesturlöndum eftir innrásina í Úkraínu. Netárásir færðust verulega í vöxt eftir innrásina.

Þá þykir margt benda til þess að ýmis grunsamleg atvik hafi í raun verið spellvirki að undirlagi rússneskra leyniþjónusta.

William Burns, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, og Richard Moore, yfirmaður MI6 á Bretlandi, skrifuðu saman grein í Financial Times í september um að leyniþjónustur á Vesturlöndum hefðu eflt samstarf sitt til að stöðva Rússa.

Nánast allt upplýsingastreymi í heiminum fer um strengi á borð við C-Lion1. Talið er að ljósleiðaranetið á hafsbotni sé þegar allt er talið 1,5 milljónir km á lengd. Þeir liggja iðulega um alþjóðleg hafsvæði og ekki er nokkur leið að vakta þá. Þessir strengir eru mun viðkvæmari en gasleiðslurnar, sem voru sprengdar í Eystrasaltinu í september 2022. Strengirnir eru umvafðir málmi og gerviefnum og eru á breidd við brunaslöngu. Milljarðaviðskipti eiga sér stað um þessa strengi daglega.

Á hverju ári eru milli 150 og 200 atvik þar sem sæstrengir skemmast út af botnvörpum, akkerum eða jarðskjálftum á hafsbotni. Síðan er hættan á skemmdarverkum.

Að mati Atlantshafsbandalagsins eru um 200 sæstrengir, sem gegna sérlega mikilvægu hlutverki. NATO varaði í maí í fyrra við því að Rússar gætu reynt að skemma strengi ríkja, sem styddu Úkraínu, og bentu á grunsamlegar siglingar svokallaðra rússneskra rannsóknarskipa í Eystrasalti og Norðursjó. Grunsamleg rússnesk skip hafa einnig verið á ferð í Norður-Atlantshafi.

Talið er að Rússar noti skipið Jantar til að kortleggja sæstrengi. Um borð í Jantar eru bæði mannaðir og ómannaðir kafbátar, sem gætu fundið strengi og eyðilagt á allt að 6.000 m dýpi.

Sæstrengjanetið er yfirgripsmikið og þegar strengirnir tveir duttu út í nóvember tókst að beina umferðinni um þá í aðra strengi þannig að ekki kom að sök. Eyríki á borð við Ísland er hins vegar ekki í jafn góðri stöðu komi til áfalla.

Eftir að Nordstream-leiðslan var eyðilögð var undir merkjum NATO sett upp miðstöð til að safna öllum uppýsingum, jafnt borgaralegum sem hernaðarlegum, um hvers kyns ferðir og athafnasemi í Eystrasaltinu sérstaklega þannig að hægt sé að greina hverjir séu á ferð og hvað þeir séu að gera.

Bent hefur verið á að í fyrra hafi skipinu Newnew Polar Bear verið siglt burt án íhlutunar, en Yi Ping 3 er enn fast í Kattegat, vaktað af tveimur herskipum, dönsku og þýsku.

Johannes Peters, stjórnmálafræðingur og öryggissérfræðingur, segir í viðtali við Der Spiegel að þótt Vesturlönd geti ekki varið sæstrengi sé hægt að bregðast við, til dæmis með því að smíða fleiri skip til að gera við slíka kapla. Þannig væri hægt að koma því til skila að þótt hægt sé að eyðileggja sæstrengi taki enga stund að gera við þá. Það hafi til dæmis aðeins tekið tíu daga að gera við sæstrenginn C-Lion1 milli Helsinki og Rostock.

Sagt hefur verið að Eystrasaltið sé orðið að gráu svæði þar sem hvorki ríki friður né stríð og NATO-löndin megi gera ráð fyrir hvers kyns áreiti.

Allt þetta eftirlit og árvekni hugnast Rússum lítt. Rússneskur greinandi orðaði það svo að í Kreml væri lítill vilji til að samþykkja að Eystrasaltið yrði NATO-haf. Rússar geta ekki búist við því að NATO taki ágangi þeirra og yfirgangi þegjandi og hljóðalaust.