Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte segir að ónákvæmni hafi gætt í bókhaldi Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH). Fyrirtækið var fengið til að fara yfir framkvæmd og meðferð fjármuna félagsins á byggingartíma knatthúss í eigu þess, Skessunnar.
Skýrslan var afhent bæjarstjóra í lok júlí, en þar var farið yfir byggingarkostnað Skessunnar, fjármögnun hennar og FH og rekstrarkostnað frá því að húsið var tekið í notkun.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að kostnaðaráætlun sem lá til grundvallar í upphafi verkefnisins hafi numið 790 milljónum króna en að byggingarkostnaður muni enda í um 1.132 milljónum sem sé rúmum 342 milljónum eða 43% umfram upphaflega áætlun.
Það hafi verið vegna viðbyggingar sem Deloitte segir ekki hafa verið gert ráð fyrir í upphaflegu kostnaðaráætluninni.
Einnig kemur fram að formaður FH, Viðar Halldórsson, hafi stýrt framkvæmdum við Skessuna og hlotið fyrir það yfir 70 milljónir króna.
FH sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem meðal annars kemur fram að félagið telji það rangt að engin viðbygging hafi verið í upphaflegri kostnaðaráætlun og að við þá áætlun hafi bæst 216 fermetra stækkun á viðbyggingu.
Sé það leiðrétt sé raunbyggingarkostnaður Skessunnar 20% hærri en upprunalega var áætlað og að sögn FH á sú hækkun sér eðlilegar útskýringar vegna hækkunar á verðlagi yfir það sjö ára tímabil sem það tók að klára framkvæmdina.
Þá segir félagið einnig aðkomu formannsins vera eðlilega og bendir á að greiðslur til hans hafi verið yfir tíu ára tímabil, frá 2015 þegar fyrstu teikningar af húsinu voru gerðar til 2024 þegar framkvæmdir við húsið kláruðust.
Nánari umfjöllum um málið má finna á mbl.is.