Magnea Marín Halldórsdóttir
magnea@mbl.is
„Það gengur ekki að neytendur þurfi alltaf að bera hitann og þungann af öllum hækkunum sem verða,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir verslanir yfirfæra ábyrgð með spám um að nauðsynjavörur hækki um áramót í ljósi þess að það hafi hvergi komið fram. Þetta séu einungis tilkynningar verslana um að slíkt sé í farvatninu sem um leið „ýtir undir þá tilfinningu að það sé bara í lagi að hækka vöruverð, sem er grafalvarlegt“. Þá segir hann eðlilegt að milliliðir svari því til hvaða ráðstafana þeir ætli að grípa til þess að koma í veg fyrir að þessar verðhækkanir fari út í verðlagið, og hvetur forsvarsmenn verslana til að leita allra leiða.
Þá bendir Breki á að engin umræða sé um slíkar verðhækkanir erlendis. Til að mynda hafi matvöruverð einungis hækkað um 0,3% í Danmörku, „þar eru engar verslanir að hóta því að verð muni hækka um áramótin“.
Hann segir það hljóta að vera eitt af stærri verkefnum nýrrar ríkisstjórnar að taka á verðhækkunum og efla samkeppni á Íslandi, rífa niður tollmúra og ganga í beinan stuðning við bændur frekar en stuðning við milliliðina eins og nú er.
„Við þurfum á Íslandi að efla samkeppni til þess að ekki sé komist upp með það að tilkynna bara nýtt verð. Þetta er eins og í gamla daga þegar það var verðlagsráð og það tilkynnti verðið á morgun.“
Ekki borga jólin í febrúar
Jólin eru tími vellystinga og meðfylgjandi matarinnkaup kostnaðarsöm. Breki bendir á að almennt verðlag hafi hækkað um 4,8% en lambakjöt, vinsæll veislumatur, hafi hækkað um 13%, talsvert meira en önnur kjötvara. Þetta segir hann gerast í skjóli þess að samkeppni ríki ekki lengur á markaðnum eftir að afurðastöðvafrumvarpið var samþykkt fyrr á árinu.
Aðspurður um ábendingar til neytenda segir Breki gott að gera verðsamanburð og reyna að sniðganga þær vörur sem mest hafi hækkað. „Um leið og við fögnum hátíð ljóssins og gerum vel við okkur skulum við huga að öllum okkar samborgurum. Það eiga ekki allir til hnífs og skeiðar í samfélaginu okkar.“
Eins bendir hann á að best sé að reyna að halda sig innan ramma þess sem hver hefur efni á og „ekki falla fyrir gylliboðum áhrifavalda um að við þurfum eitthvað sem við þurfum ekki. Ekki kaupa drasl sem þú þarft ekki, fyrir peninga sem þú átt ekki, til að ganga í augun á fólki sem þú þekkir ekki.
Nú eru einhverjir að auglýsa að það sé hægt að borga jólin í febrúar, það er ekki góð hugmynd, það eru hæstu vextir og dýrustu lán sem fólk getur fengið,“ segir Breki.