Kristín Móðurást: Draumþing er „djúpvitur og listilega ofin skáldaga, ævintýraleg og sönn í senn“, skrifar rýnir.
Kristín Móðurást: Draumþing er „djúpvitur og listilega ofin skáldaga, ævintýraleg og sönn í senn“, skrifar rýnir. — Morgunblaðið/Kristín Heiða
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Móðurást: Draumþing ★★★★★ Eftir Kristínu Ómarsdóttur Mál og menning, 2024. Innb., 166 bls.

Bækur

Snædís Björnsdóttir

Það kemur fyrir að ég tárist eilítið yfir bók. Það er stundum erfitt að útskýra nákvæmlega af hverju það er – það kann að vera eitthvað órætt, einhver tilfinning eða óljós hughrif sem bókin miðlar. Það er einfaldlega eitthvað sem hittir í hjartastað.

Þetta á við um bókina Móðurást: Draumþing eftir Kristínu Ómarsdóttur. Yfir henni táraðist ég nokkrum sinnum, ekki síst vegna þess að hún er ævintýralega falleg.

Bókin er annað bindið í skáldaðri sögu höfundar um langömmu sína Oddnýju Þorleifs- og Þuríðardóttur á ofanverðri nítjándu öld. Fyrir fyrsta bindi sögunnar, Móðurást: Oddný, hlaut Kristín Fjöruverðlaunin 2024.

Á milli barns og konu

Draumþing segir frá fimmtánda aldursárinu í lífi Oddnýjar. Hún stendur á krossgötum, mitt á milli barns og konu, og rígheldur í bernskuna. Hana óar við alvöruþrungnum heimi fullorðinna sem virðist eintómt strit og þjáning. Um „kvenkynslegar horfur“ hennar „stefnir í algjöra óvissu“ eins og sögumaðurinn, Oddný sjálf, orðar svo skemmtilega (30). Hún byrjar þó að fullorðnast þegar hún fær gleraugu og stuttu síðar skauta, en það að skauta er að hennar mati nauðsynlegur liður í því að börn vaxi úr grasi (10).

Á Jónsmessuhátíð Setselju frænku hennar um sumarið kemur kvenfólk fjölskyldunnar saman í lokuðu samkvæmi en karlmennirnir verða eftir heima og sjá um býlið. Oddný fær að fara með ásamt systur sinni, móður og frænkum og hér opinberast fyrir henni seiðmagnaður heimur fullorðinna kvenna. Konurnar baða sig saman í fagurri tjörn, þvo hár hver annarrar, setjast niður að dýrðlegum snæðingi og dansa svo fram á rauðanótt. Allt er þetta eins og í yndislegum draumi, jafnvel svolítið furðulegum, og eitthvað dulmagnað hangir í loftinu. Þegar degi hallar fara álfar, tröll og huldufólk síðan á stjá. Í bjartri sumarnóttinni kemst Oddný í kynni við fjarlægðina – og verður aldrei söm.

Undurfögur og seiðandi

Oddný er skarpur sögumaður sem býr yfir forvitnilegri sýn á umhverfi sitt og það er auðvelt að láta hrífast með henni. Frásögnin er því lifandi og orðfærið frumlegt, oft á tíðum fyndið. Undir bjartri ásýndinni blundar þó eitthvað meira, eitthvað stórt og djúpstætt, sem leitar upp á yfirborðið.

Líkt og Oddný segir sjálf frá fjallar bókin um þennan dularfulla stað „sem er varla staður en ég snerti áþreifanlega þetta sumar sem ég nýfermd fyllti fimmtánda árið“ (15). Þetta er merkilegur staður, mitt á milli bernsku og fullorðinsára, óreiðukenndur, uppfullur af mótsögnum, sársauka og söknuði. En hann er líka einstaklega frjór eins og Draumþing sýnir vel.

Tungumálið er töfrum þrungið, undurfagurt og seiðandi, og söguheimurinn þess eðlis að mann langar helst að setjast að inni í honum, breiða úr sér í fallegri lautu og leyfa sólskininu að verma húðina. Lýsingarnar eru margar hverjar dásamlegar og nýstárleg frásögnin af Jónsmessumáltíðinni freistar til að mynda bragðlaukanna: „Ég lokaði sjálf augunum, stakk uppí mig kúfuðum gaffli með rófustöppu undir klípu af bleikju baðaðri majonesi. Bragðið lék við tunguna og munninn, bráðnaði einsog heitt snjókorn með fölbleiku sjóbragði, rauðbleiku mauki, þekju úr þykku smjöri, sítrónutísti – sítrónutíst“ (79).

Að sama skapi er margt að taka inn og þetta er varla bók sem hægt er að lesa í einum rykk. Öllu heldur krefst hún þess af lesandanum að hann staldri við og lesi af natni. Það tók mig þess vegna svolítinn tíma að komast inn í söguna, venjast stíl hennar og óvanalegu flæði. Það er þó ekki endilega ókostur.

Móðurást: Draumþing er bók sem ég sé fyrir mér að ég muni heimsækja aftur og aftur. Þetta er djúpvitur og listilega ofin skáldaga, ævintýraleg og sönn í senn. Ég féll fyrir henni kylliflöt.