Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Halldór Þorkelsson, lögfræðingur framkvæmdaaðila í Álfabakka 2, segir forsvarsmenn félagsins hafa átt í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna málsins. Því sé vandséð hvernig framkvæmdin eigi að koma fulltrúum borgarinnar á óvart.
Tilefnið er að fulltrúar borgarinnar, þar með talin Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, hafa sagt málið koma sér í opna skjöldu. Halldór segir hins vegar marga fulltrúa borgarinnar, m.a. á sviði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, hafa komið að málinu.
Þá segir Halldór aðspurður að byggingarheimildir hafi ekki verið fullnýttar en framkvæmdaaðili hafi engu að síður greitt fyrir þær allar.
„Þar af leiðandi fórum við fram á breytingar á gildandi deiliskipulagi þannig að byggingarmagn á þessari lóð yrði fært niður í 11.500 fermetra. Það var ekki fallist á þá beiðni.“
Hægagangur hjá borginni
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins seinkaði verkefninu vegna tafa af hálfu Reykjavíkurborgar. Skýrðust þær meðal annars af því að borgin vildi taka afstöðu til álitaefna á borð við fjölda bílastæða. Því var aðkoma borgarinnar margþætt.
Halldór segir það upplifun framkvæmdaaðila að ferlið, þ.e.a.s. undirbúningsferlið, hafi tekið verulega og óþarflega langan tíma.
Þá víkur Halldór að fullyrðingum um stóraukna umferð í Suður-Mjódd vegna þeirrar starfsemi sem verður í húsinu. Það sé við hæfi að fram komi að umferð vöruflutningabifreiða eða annarra stærri tækja í tengslum við kjötvinnslu verði óveruleg og ekki líkleg til að valda nágrönnum ónæði.
Loks hafi samþykki skipulagsfulltrúa fyrir starfsemi kjötvinnslu verið forsenda leigusamnings við leigutaka í nýja húsinu.
Meirihluti borgarstjórnar hafnaði í gær tillögu um að umræða færi fram á borgarstjórnarfundi um vöruhúsið að Álfabakka 2. Einnig var því hafnað að taka á dagskrá tillögu um stjórnsýsluúttekt á vöruhúsinu.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögurnar en hún sagði að ræða þyrfti málið á fundinum þar sem það væri brýnt enda borgarstjórn á leið í jólafrí. Fram kom í máli Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur forseta borgarstjórnar að málið yrði tekið upp á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.
Meirihlutinn greiddi atkvæði gegn því að umræða um Álfabakkamálið yrði tekin inn með afbrigðum á dagskrá fundarins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins og Sósíalista greiddu atkvæði með tillögunni. Fulltrúi VG sat hjá. Sama varð uppi á teningnum með tillögu um stjórnsýsluúttekt á málinu.