Markaður
Ellert Guðjónsson
Sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Fossum
Þegar undirritaður hóf störf á fjármálamarkaði fyrir tæpum 18 árum voru samfélagsmiðlar í mýflugumynd. Hefðbundnari miðlar, þ.e. dagblöð, útvarp og sjónvarp auk frumstæðra vefmiðla, sáu almenningi og fjárfestum fyrir upplýsingum af mörkuðum. Í takt við tíðarandann snerist drjúgur hluti fréttaumfjöllunar um þróun markaða hérlendis og erlendis.
Marga kann að ráma í fréttaþuli þess tíma þylja langlokur um þróun hlutabréfavísitalna víða um heim, s.s. Úrvalsvísitölunnar, Dow Jones, DAX, Nikkei, FTSE og Nasdaq, að ólastaðri Hang Seng-vísitölunni í Kína. Hreyfingar vísitalna og hlutabréfaverðs stærstu félaga voru daglegt brauð margra fréttatíma og þótti einhverjum nóg um. Þá voru reifaðir punktar úr hálf-fimm fréttum og morgunkornum greiningardeildanna til glöggvunar.
Sýnist sitt hverjum um ágæti slíks fréttaflutnings en eftir á að hyggja var e.t.v. meira jákvætt en neikvætt við þá framsetningu. Umfjöllunin var hvati til að byggja hér upp hlutabréfamarkað. Áhugi almennings á hlutabréfum, rekstri fyrirtækja og miðlun fjármagns fór vaxandi og ýtti undir skoðanaskipti og almenna þátttöku.
Í kjölfar bankahrunsins 2008 hefur dregið mjög úr opinberri umræðu og skoðanaskiptum um hlutabréf. Verðmöt greinenda og álit markaðsaðila eru nú meðhöndluð sem hernaðarleyndarmál sem gætu valdið almenningi tjóni. Fyrir vikið eru skoðanaskipti nú í skötulíki og umræða einskorðuð við lokaða spjallþræði, hlaðvörp og áskriftarmiðla sem flestir standa utan daglegrar umræðu. Form slíkrar upplýsingamiðlunar býður síður upp á heilbrigð skoðanaskipti og hætt er við að bergmálshellarnir ómi hver í sínu horni. Velta má fyrir sér hvort þróunin sé almenningi og neytendum til heilla.
Batnandi markaðshorfur 2025
Lítið hefur verið fjallað um þann viðsnúning sem hefur átt sér stað á undanförnum vikum á innlendum hlutabréfamarkaði eftir langvarandi lægð sökum hárrar verðbólgu, hárra vaxta og dræmrar afkomu. Frá byrjun október hefur úrvalsvísitalan OMXI15 hækkað um ríflega 15% á nokkuð breiðum grunni þar sem öll félög hafa hækkað, með örfáum undantekningum. En hvað hefur gerst?
Leiða má líkur að því að eftirfarandi samverkandi kraftar skýri hækkanirnar:
Verðlagning flestra félaga í kauphöll hefur verið hófleg; skuldsetning félaganna heilt yfir lág.
Uppgjör flestra félaga voru sterk á þriðja fjórðungi, í takti við eða yfir væntingum markaðsaðila sem stillt höfðu væntingum í hóf eftir dræm uppgjör undanfarna fjórðunga.
Hjöðnun verðbólgu og upphaf vaxtalækkunarferlis Seðlabankans í október og ekki síður væntingar um áframhaldandi lækkun verðbólgu og vaxta. Þessi þróun hefur orðið fjárfestum og almenningi hvatning til að færa sparnað sinn í auknum mæli í hlutabréf í leit að ávöxtun.
Ásókn erlendra aðila í bréf Marels í tengslum við yfirtökutilboð JBT, samhliða miklum hækkunum á JBT, hleypti miklu súrefni inn á hlutabréfamarkaðinn þar sem innlendir aðilar gátu losað fjármagn til endurfjárfestingar í öðrum skráðum hlutabréfum.
Væntingar markaðsaðila um farsæla yfirtöku JBT á Marel (skýrist 20. des. nk.) og að stór hluti söluandvirðis sem fáist greiddur í evrum muni leita aftur inn á innlendan hlutabréfamarkað.
Stór hluti innlendra skráðra félaga eru arðgreiðslufélög sem mörg hver eru með ofgnótt eigin fjár sem væntingar eru um að verði ráðstafað ýmist aftur til hluthafa í formi arðgreiðslna eða endurkaupa og/eða til ytri vaxtar.
Horfur á innlendum hlutabréfamarkaði 2025 fara áfram batnandi, svo ekki sé meira sagt. Innflæði í hlutabréfasjóði er hafið á ný eftir langt tímabil útflæðis frá febrúar 2022 til loka september í ár. Full ástæða er því til þess að hvetja lesendur til að gefa innlendum hlutabréfamarkaði aftur gaum, kynna sér félög kauphallarinnar með gagnrýnum hug en hafa ávallt hugfast að ávöxtun í fortíð sé hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð.