Brasilíumaðurinn Vinicius Junior, kantmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, og hin spænska Aitana Bonmatí, miðjumaður Evrópumeistara Barcelona, voru valin bestu leikmenn ársins af FIFA í Doha í Katar í gær. Vinicius vann þar með verðlaunin í fyrsta sinn en Bonmatí annað árið í röð. Bonmatí vann einnig Gullboltann í lok október en Vincius hafnaði í öðru sæti á eftir spænska miðjumanninum Rodri, leikmanni Manchester City.
Rodri hafnaði í öðru sæti á eftir Vinicius hjá FIFA en í þriðja sæti endaði Jude Bellingham, samherji Vinicius hjá Real Madrid. Kvennamegin hafnaði Barbra Banda, leikmaður Orlando Pride og landsliðs Sambíu, í öðru sæti og Norðmaðurinn Caroline Graham Hansen sóknarmaður Barcelona í þriðja sæti.
Carlo Ancelotti, stjóri Vinicius hjá Real Madrid, var valinn besti þjálfari ársins karlamegin en Englendingurinn Emma Hayes, sem stýrir ólympíumeisturum Bandaríkjanna, var valin besti þjálfarinn kvennamegin.
Emiliano Martínez, landsliðsmarkvörður heimsmeistara Argentínu, var þá valinn besti markvörður heims karlamegin en Alyssa Naeher, sem varð ólympíumeistari með Bandaríkjunum í sumar, var valin besti markvörðurinn kvennamegin.
Alejandro Garnacho, sóknarmaður Manchester United, hlaut þá Puskas-verðlaunin fyrir mark ársins karlamegin. Brasilíska goðsögnin Marta skoraði besta markið kvennamegin og hlaut Mörtu-verðlaunin, sem eru nefnd í höfuðið á henni sjálfri.