Gunnar Hörður Sæmundsson fæddist 28. nóvember 1956 í Hafnarfirði. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 29. nóvember 2024.
Foreldrar hans voru Sæmundur Hörður Björnsson, f. 1926, d. 2015, og Hrefna Eyjólfsdóttir, f. 1928, d. 1993. Systkini Gunnars eru: Eyjólfur Þór, f. 1950, d. 2018, eftirlifandi eiginkona hans er Gerður Sigurðardóttir; Sæmundur, f. 1961, d. 2002; Þórey Ósk, f. 1971.
Eftirlifandi eiginkona er Sigríður Björg Stefánsdóttir, f. 19.1. 1957, þau giftu sig 17. júlí 1976. Börn þeirra eru: 1) Stefán, f. 12.4. 1976, kona hans er Wanida Nakngoen. Dóttir Stefáns er Sigríður Kristbjörg, f. 27.9. 2008. 2) Hörður, f. 18.8. 1982, sonur Harðar er Oliver Breki, f. 24.4. 2004.
Gunnar lauk sveinsprófi í vélvirkjun árið 1977, hann hóf nám í véltæknifræði í Tækniskólanum og lauk því námi frá Odense Teknikum 1982. Gunnar lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007. Árið 2018 lauk hann kennararéttindum frá Háskóla Íslands.
Gunnar starfaði lengst af við sjávarútveg. Hann var forstöðumaður tæknisviðs Bæjarútgerðar Reykjavíkur frá 1983 til 1985, síðar forstöðumaður tæknisviðs Granda frá 1985 til 1997.
Árið 1997 stofnaði hann fyrirtækið Sætækni ehf. og tók að sér fjöldann allan af verkefnum tengdum sjávarútvegi. Gunnar hóf störf sem kennari í Tækniskólanum árið 2016 og starfaði þar til dánardags.
Gunnar sat sem stjórnarmaður í BHM 1991 til 1993 og sem formaður Tæknifræðifélags Íslands frá 1993 til 1995.
Útför Gunnars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. desember 2024, klukkan 13.
Í dag kveð ég þig, elsku Gunni bróðir minn, ég á erfitt með að sætta mig við að þú sért farinn. Við áttum gott heimili á Hellisgötunni þar sem oft var líf og fjör. Við vorum samheldin fjölskylda. Þið bræðurnir voruð þrír og ég langyngst, örverpið. Ég leit upp til ykkar og fannst gott að eiga bræður sem voru eldri en ég og lífsreyndari. Það var gaman að fylgjast með þér og störfum þínum, sér í lagi síðustu árin þegar þú kenndir í Tækniskólanum. Þar varstu á heimavelli og naust þín við að fræða nemendur. Við áttum margar áhugaverðar samræður um kennsluna. Þar kom vel í ljós áhugi þinn á efninu og ekki síst nemendum.
Ég á margar góðar minningar um þig og efst í huga mér er þakklæti fyrir ómetanlega aðstoð sem þú veittir mér á síðasta ári þegar erfiðleikar steðjuðu að í lífi mínu. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og mína fjölskyldu og ég fann að þú vildir okkur allt það besta. Það er góð tilfinning. Eftir sit ég með söknuð í hjarta og minningar um góðan og ástríkan bróður.
Minning þín er ljós í lífi okkar sem eftir lifum.
Þín systir,
Þórey Ósk.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Elsku frændi.
Þvílík forréttindi það eru að hafa fengið að kynnast þér. Þú varst mér alla tíð afskaplega góður enda traustur, heiðarlegur og vandaður maður.
Þú varst alla tíð forvitinn um hag minn og vildir mér vel í stóru sem smáu. Ég á fullt af minningum um þig sem munu fylgja mér út ævina og eru þær eru allar góðar. Þessar minningar eru mér ómetanlegar í dag.
Mér þótti óskaplega vænt um þig og þín er sárt saknað elsku Gunni. Jól og áramót án þín er óbærileg tilhugsun en svona getur lífið verið grimmt. Það er mér þó ákveðin huggun í sorginni að vita til þess að þið bræðurnir sameinist á ný ásamt ömmu Hrefnu, afa Sæma og fleiri góðu fólki.
Elsku Sigga, Stefán, Hörður, Oliver, Sigga yngri, Þórey og aðrir sem eiga um sárt að binda, ég samhryggist ykkur innilega og bið Guð að veita ykkur huggun í sorginni.
Baldur Þór Eyjólfsson.
Kveðja frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar.
Í dag kveðjum við góðan félaga okkar Gunnar Hörð Sæmundsson.
Gunnar gekk í klúbbinn okkar árið 2005 og sinnti þar vel ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. formaður í nokkrum nefndum.
Gunnar var véltæknifræðingur og með MBA-gráðu frá HÍ. Hann stofnaði ráðgjafarfyrirtækið Sætækni þar sem hann veitti ráðgjöf bæði hérlendis og erlendis um hönnun og smíði tæknilausna fyrir skip. Nú síðustu ár sinnti hann kennslu við Tækniskólann sem hann hafði unun af.
Gunnar var duglegur að miðla af reynslu sinni og þekkingu til okkar félaga. Stutt er síðan hann hélt fyrir okkur í Rótarýklúbbnum mjög áhugavert erindi um hönnun skipa og hvernig mismunandi orka hefur verið notuð í tímans rás til að knýja þau áfram.
Við kveðjum við góðan félaga með virðingu og þökk.
Sendum eiginkonu hans, Sigríði Björgu Stefánsdóttur, og öllum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð veri minning Gunnars Harðar Sæmundssonar.
Þórdís Bjarnadóttir, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.
Kveðja frá Tækniskólanum.
Í dag kveðjum góðan vin okkar og samstarfsfélaga, Gunnar Hörð Sæmundsson eða Gunna eins og hann var ævinlega kallaður okkar á meðal. Starfsfólk og nemendur Véltækniskólans duttu í lukkupottinn þegar Gunni var ráðinn sem vélfræðikennari við Tækniskólann haustið 2016. Gunni var eldklár véltæknifræðingur en þá menntun sótti hann til Óðinsvéa í Danmörku sem ungur maður en seinna á lífsleiðinni bætti hann við MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og svo kennsluréttindum frá HÍ.
Gunni hafði gott lag á kennslu og bjó yfir mikilli fræðilegri sem og verklegri þekkingu sem nýttist vel í starfi en hann kenndi m.a. vélfræði, burðarþolsfræði, hönnun skipa og véltækni við skólann. Hann var harðduglegur, skemmtilegur og félagslyndur maður sem þótti gaman að vinna. Hann var einstaklega vel liðinn af samstarfsfólki og nemendum sínum. Óhætt er að segja að Gunni hafið fundið fjölina í kennslunni, hann unni því að kenna, vildi alltaf gera betur næst og hafði mikið gaman af félagsskap unga fólksins okkar.
Ég gleymi því seint hversu stoltur hann var þegar nemendur afhentu honum verðlaunagrip eftir að hafa valið hann kennara ársins en þessi verðlaunagripur stóð ávallt á borðinu hans og lagði hann sig allan fram við að standa undir þeim væntingum sem útnefningunni fylgdu. Það kom okkur því ekki á óvart þegar hópur nemenda, hverra margir útskrifast akkúrat í dag, óskaði eftir að fá að standa heiðursvörð þegar gengið verður út úr kirkju í dag.
Sjálfur kynntist ég, Víglundur, Gunna í veiði í Langá árið 2017 og fangaði hann athygli mína þegar hann sagði við matarborðið frá skemmtilegu starfi sem hann hafði hreppt, starfi sem kennari við Tækniskólann. Hann var fullur af stolti og tilhlökkun þegar hann lýsti starfinu með bros á vör. Seinna þetta kvöld lokkaði ég hann til að segja mér, sem nýlega hafði lokið námi í kennslufræðum, betur frá vinnustaðnum. Aðeins fáum mánuðum seinna stóðum við saman í vélasal skólans að kenna véltækni. Það má því segja að Gunni hafi verið örlagavaldur í mínu lífi. Það voru forréttindi að kenna með Gunna og höfðum við báðir gaman af því samstarfi og lögðum mikinn metnað í það.
Gunni átti og rak fyrirtækið Sætækni samhliða kennslunni en þar veitti hann skipatengda ráðgjöf og var eitt hans stærsta verkefni seinni ár að hanna landtengibúnað skipa fyrir Hafnarfjarðarhöfn og leysti hann það verkefni af hendi með miklum sóma.
Það er mikill söknuður að þessum sómadreng sem kveður okkur allt of snemma. Við sendum Siggu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina.
Blessuð sé minning Gunnars Harðar.
Fyrir hönd Tækniskólans,
Víglundur Laxdal Sverrisson, skólastjóri Véltækniskóla Tækniskólans, og Hildur
Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans.