Körfubolti
Jökull Þorkelsson
jokull@mbl.is
Haukar verða á toppnum í úrvalsdeild kvenna í körfubolta yfir jól og áramót eftir útisigur á Aþenu, 77:64, í Breiðholtinu í gærkvöldi. Haukaliðið er nú með 18 stig og í toppsæti deildarinnar en Njarðvík er í öðru sæti með 16 stig. Aþena er í áttunda og þriðja neðsta sæti deildarinnar með sex stig, líkt og Valur og Hamar/Þór, sem eru fyrir neðan Aþenu, og Grindavík sem er sæti ofar.
Haukaliðið fór sex stigum yfir til búningsklefa og var mun sterkara í þriðja leikhluta sem skilaði sigrinum.
Lore Devos átti sannkallaðan stórleik í liði Hauka en hún skoraði 35 stig, tók tíu fráköst og gaf eina stoðsendingu en Þóra Kristín Jónsdóttir átti einnig mjög góðan leik þar sem hún skoraði 20 stig, tók tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Haukakonur hafa verið afar sannfærandi fyrri hluta tímabilsins eftir slappt síðasta tímabil en liðið hefur unnið níu af ellefu leikjum sínum í deildinni.
Furðulegur leikur í Garðabæ
Stjarnan skoraði aðeins þrjú stig í síðasta leikhluta í stóru tapi liðsins fyrir Tindastóli, 92:57, í Garðabænum í gærkvöldi. Eftir leik er Tindastóll í fimmta sæti með 14 stig, jafnmörg og Þór Akureyri og Keflavík í sætunum tveimur fyrir ofan, en Stjarnan er í sjötta sæti með átta stig.
Stjörnukonur voru örlítið betri í fyrri hálfleik og fóru stigi yfir til búningsklefa, 44:43. Í seinni hálfleik sá Stjarnan þó ekki til sólar en Tindastóll valtaði yfir heimakonur. Tindastólsliðið vann þriðja leikhluta með ellefu stigum og var tíu stigum yfir fyrir þann fjórða og síðasta.
Sá leikhluti var undarlegur en Stjarnan skoraði aðeins þrjú stig í öllum leikhlutanum gegn 28 frá Tindastóli sem vann að lokum 35 stiga sigur í Garðabænum. Randi Brown skoraði 32 stig, tók sjö fráköst og gaf eina stoðsendingu í liði Tindastóls en hjá Stjörnunni skoraði Fanney María Freysdóttir mest eða 13 stig.
Tindastóll, sem er nýliði í efstu deild, hefur staðið sig mjög vel sem af er tímabili og er til að mynda annað af tveimur liðum til að vinna topplið Hauka.
Þór í góðum málum
Þórskonur eru í góðum málum eftir sigur á Hamri/Þór, 82:73, á Akureyri í gærkvöldi. Eins og áður kom fram er Þór í fjórða sæti deildarinnar en Hamar/Þór er í neðsta sæti með jafnmörg stig og þrjú önnur lið. Madison Sutton átti stórleik fyrir Þór en hún skoraði 19 stig, tók 15 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Eva Wium Elíasdóttir skoraði þá 18 stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hjá Hamri/Þór skoraði Abby Beeman mest eða 18 stig.