Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Áætlað er að afgangur af A- og B-hluta reksturs sveitarfélagsins Hornafjarðar á næsta ári verði 392 millj. kr. Heildarveltan verður, gangi áform eftir, um 4,4 ma. kr. sem er því sem næst óbreytt tala milli ára. Útgjöldin eru áætluð 3,6 ma. kr. Veltufé frá rekstri og heildartekjum er áætlað 18,7% eða samtals 826 millj. kr.
Útsvar fyrir næsta ár verður óbreytt eða 14,97% og sama gildir um fasteignagjöld og skatta. Aðrar almennar gjaldskrár hækka ekki umfram 3,5%, enda var skuldbinding frá sveitarfélaginu í tengslum við kjarasamninga í byrjun sumars að gjaldskrár sem snerta barnafjölskyldur hækkuðu ekki umfram það.
„Áætlunin endurspeglar þann mikla kraft og uppbyggingu sem er hér í Hornafirði. Og þegar atvinnulíf blómstrar og verðmætasköpun er fyrir hendi blómstrar mannlífið einnig og rekstur sveitarfélagsins verður kraftmeiri. Efnahagsumhverfi sveitarfélagsins er þó krefjandi, ekki síst vegna nýrra væntanlegra kjarasamninga, en sem betur fer er verðbólgan að hjaðna, sem skiptir rekstur sveitarfélagsins máli,“ segir Sigurjón Andrésson bæjarstjóri í pistli á vef sveitarfélagsins.
Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2025 er samtals 1.550 m.kr. Stærstu verkefnin á komandi ári eru stækkun leikskólans Sjónarhóls og breytingar á samkomuhúsinu Sindrabæ við Hafnarbraut á Höfn, þar sem Tónlistarskóli Austur-Skaftafellssýslu er til húsa. Þá er bygging nýs hjúkrunarheimilis á Höfn langt komin og íbúar flytja þar inn á fyrri hluta næsta árs. Þá verður farið í að lagfæra núverandi húsnæði Skjólgarðs sem á að ljúka áður en næsta ár er úti.
Á árinu 2025 er sömuleiðis áætlað að ljúka við fráveituverkefni sem unnið hefur verið að síðustu ár. Það er áfangi 4b, sem tengir það sem eftir er af þéttbýlinu á Höfn inn á hreinsistöð í Óslandi. Þetta verður framkvæmt fyrir eigið fé sveitarfélagsins; en skuldir þess hafa lækkað jafnt og þétt á yfirstandandi kjörtímabili. Ekki er talin þörf á að slá lán vegna þeirra margvíslegu verkefna sem nú eru í farvatninu.