Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Í aðdraganda alþingiskosninga fá margir tækifæri til að hrökkva af hjörunum, óþarflega margir gera það þegar á reynir. Sumir vegna kosningaloforða annarra flokka en þeirra eigin, aðrir vegna eigin loforða og svo eru það öll aukaatriðin, sem litlu…

Í aðdraganda alþingiskosninga fá margir tækifæri til að hrökkva af hjörunum, óþarflega margir gera það þegar á reynir. Sumir vegna kosningaloforða annarra flokka en þeirra eigin, aðrir vegna eigin loforða og svo eru það öll aukaatriðin, sem litlu skipta í raun, sem verða að aðalatriðum í búbblu hvers og eins.

Nú er tími jólaundirbúnings og stjórnarmyndunarviðræðna. Allt ætti að vera í lukkunnar velstandi, en nú bregður svo við að fulltrúar og bakland hinna ýmsu hópa gera einmitt þetta á lokadögum aðventunnar, hrökkva af hjörunum.

Fyrirsvarsmenn leikskólakennara gera það vegna frétta af því að fyrirtæki undirbúi nú að stofna leikskóla til að bjarga foreldrum og þá sérstaklega starfsmönnum sínum frá þeirri stöðu sem Reykjavíkurborg hefur skapað í dagvistunarmálum. Af hverju þessi óskaplegu læti og andúð í garð lausna sem gætu mögulega leyst hluta þeirra vandamála sem við blasa í þessum efnum?

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, hrökk svo rækilega af hjörunum vegna úttektar Viðskiptaráðs á kjörum opinberra starfsmanna, þar sem kjör á almenna og opinbera markaðinum voru borin saman.

Niðurstaða Viðskiptaráðs varð sú að sérréttindi opinberra starfsmanna umfram þá á almenna markaðinum samsvöruðu 19% kauphækkun þeirra í opinbera geiranum. Mestu munaði þar um styttri vinnutíma, ríkari veikindarétt, aukið starfsöryggi og lengra orlof.

Eflaust má togast á um einhverjar forsendur úttektar sem þessarar, en að saka menn um hræsni og þráhyggju vegna þessa er ekki passandi í neinu samhengi.

Best væri að kalla eftir minna drama og meiri vilja til að greina það sem þarna liggur undir. Í öllu falli er ekki ástæða til að hrökkva af opinberu hjörunum vegna þessa.

Svo er það „Græni veggurinn“, sem á að vera öllum að kenna nema þeim sem samþykktu skipulagið og byggingargerðina. Borgarfulltrúi kallar eigin ákvarðanir „fíaskó“ og segir svo svarið vera meira og ítarlegra regluverk!? Sá hrökk sannarlega af hjörunum.

Hluti baklands Viðreisnar, sá borgaralega þenkjandi, er við það að hrökkva af hjörunum eftir að þingflokkurinn tók ákvörðun um að fara lóðbeint til vinstri eftir góðar gæftir á miðum hægri og borgaralega þenkjandi atkvæða. Kannski var það viðbúið, en það má hafa skilning á að stuðningsmenn flokksins séu litlir í sér á meðan unnið er að stofnun enn einnar vinstri stjórnarinnar.

Svarið við öllum þessum uppákomum er það sama í raun: Höldum ró okkar og höldum áfram.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason