Bækur
Steinþór
Guðbjartsson
Vestfirðir eru sveipaðir dulúð og glæpasagan Í djúpinu eftir Margréti S. Höskuldsdóttur gerist að mestu í heimavistarskóla í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp 1985. Morð í Reykjavík 2023 rifjar upp gamla atburði, sem hafa nagað sumar helstu persónur og koma loks upp á yfirborðið.
Lífið í heimavistarskólanum snýst fyrst og fremst um Þórð. Hann er kóngurinn, stjórnar krökkunum og ræður öllu. Forhertur leiðindagaur, yfirborðsleg týpa, sem sér ekkert nema sjálfan sig, hleypir engum að sér með einni undantekningu og sér eftir þeim mistökum. Aðdáun Unnar á honum er með ólíkindum en hún er ókrýnd drottning á stúlknavistinni og fer sínu fram hvað sem það kostar. Er af sana sauðahúsi og hann. Edda er andstæðan, einblínir á hið góða og tekur ekki þátt í rugli og vitleysu.
Góð persónusköpun
Óþroskuðum unglingum verða á mistök eins og öðrum en sum uppátækin í Reykjanesi eru frekar ýkt. Þótt umhverfið falli vel að draugasögum er ótrúverðugt að flestir nemendur skólans trúi sögu um bláklædda konu sem gangi þar aftur í leit að eiginmanni sínum og sumir telji sig jafnvel vita af henni. Sama má segja um aðra drauga og andaglas. Eineltið er hins vegar sláandi og minnir á sambærilegar sannar frásagnir víða um land. Aftur vel að verki verið og frásögnin af lífinu í skólanum er að mestu leyti raunsæ og spennandi.
Bergur hjá rannsóknarlögreglunni er upptekinn af vandamálum í einkalífinu og Ragna, sem er í aðalhlutverkinu, minnir stundum á Peter Falk í hlutverki Columbos, en vakin er athygli á því hvað hún er illa að sér í landafræði. Aðfinnslan, sem á að vera fyndin, hittir ekki í mark, ekki frekar en vangaveltur um bréfberann.
Lýsing á bernskubrekum nemenda í Reykjanesi fyrir tæplega 40 árum vekja athygli í rannsókninni og hugboð Rögnu fyllir upp í göt gátunnar. Ljóðrænt réttlæti þarfnast samt frekari skýringar.