Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Dregið verður verulega úr fjárfestingum og framkvæmdum á Akranesi á næsta ári en staðarmiðillinn Skagafréttir vekur athygli á þessu. Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar til næstu þriggja ára var samþykkt í bæjarstjórninni á dögunum. Fram kemur hjá Skagafréttum að nettó fjárfestingar 2025 verði einn tíundi þess sem varið var til fjárfestinga árið 2024.
Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum í tengslum við nýtt ráðhús á tímabilinu sem um ræðir, 2025-2028. Til stendur að Mánabraut 20 verði endurbyggð en þar var skrifstofuhúsnæði Sementsverksmiðjunnar á árum áður. Akraneskaupstaður á nú bygginguna en hún var áður í sameiginlegri eigu sveitarfélagsins og ríkisins. Viljayfirlýsing um uppbyggingu við Mánabraut var undirrituð í sumar.
Töluverðar framkvæmdir hafa verið í sveitarfélaginu á síðustu árum og samkvæmt áætluninni munu hefjast framkvæmdir við nýjan leikskóla árið 2027 og verður hann í eldri hluta bæjarins samkvæmt Skagafréttum. Árið 2027 verða lagðar 770 milljónir í byggingu leikskólans.
Bæjarstjórnin hefur ákveðið að taka 3,5 milljarða að láni hjá Landsbankanum til 2055 og milljarð hjá Lánasjóði sveitarfélaga.