Þórdís „Það er miklu auðveldara að skrifa ljóð um hin heiðnu goð, Þór, Óðin og Freyju, en nútímalífið.“
Þórdís „Það er miklu auðveldara að skrifa ljóð um hin heiðnu goð, Þór, Óðin og Freyju, en nútímalífið.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Bókin fjallar um aðlögun í stóra samhenginu, það var mín hugsun með þessum ljóðum. Aðlögun er forsenda fyrir því að lífverur lifi af, þær sem aðlagast geta fjölgað sér og lifað af, en þær sem geta ekki aðlagast, þær lifa ekki af

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Bókin fjallar um aðlögun í stóra samhenginu, það var mín hugsun með þessum ljóðum. Aðlögun er forsenda fyrir því að lífverur lifi af, þær sem aðlagast geta fjölgað sér og lifað af, en þær sem geta ekki aðlagast, þær lifa ekki af. Þess vegna er maðurinn alls staðar á jörðinni, hann hefur aðlagast ólíkustu aðstæðum,“ segir Þórdís Gísladóttir rithöfundur sem sendi frá sér nýja ljóðabók á dögunum, Aðlögun.

„Í bókinni er ljóð um síðustu daga lífveru sem lifði ekki af, loðfílinn. Ég yrki líka um forföður okkar, járnaldarmann, og læt fylgja með ljósmynd af andliti hans. Ég elska þessa mynd og söguna á bak við hana, en bóndi á Jótlandi kom niður á þennan dána mann í mýri um 1950. Líkið hafði varðveist svo vel að bóndinn hringdi í lögregluna, hélt að það væri af einhverjum sem hefði verið drepinn fyrir ekki svo löngu. Líkið reyndist vera 2.400 ára og á myndinni má sjá að það er eins og maðurinn sé nýdáinn, eða að hann sofi. Hann er með skeggbrodda og leðurhúfu, ekkert ólíkur okkur nútímamanneskjum. Mér finnst stórmerkilegt að geta horft framan í látna manneskju frá járnöld, tilfinningin fyrir tímanum verður undarleg,“ segir Þórdís sem veltir líka fyrir sér tímanum í nærtækara samhengi, að engin undankomuleið sé fyrir ljóðskáldið sjálft, frekar en aðra, frá því að deyja.

„Ég hugsa öðruvísi um dauðann en áður, ég sætti mig meira við hann. Mér fannst tilhugsunin um dauðann óhugnanleg þegar ég var unglingur, en núna er ég æðrulaus, svona er þetta bara, eitt sinn skal hver deyja,“ segir Þórdís sem fær lesendur ljóðabókarinnar líka til að hugsa um stríðsógnina sem er yfir heiminum núna. „Þetta eru undarlegir tímar, gamli kalda-stríðskvíðinn kemur aftur yfir mig, en ég var með mikinn kjarnorkustyrjaldarkvíða sem barn. Mér finnst sama tilfinning læðast að mér í ljósi átaka í heiminum, sem magnast með degi hverjum.“

Alls ekki með allt á hreinu

Þórdís veltir í nýju bókinni m.a. fyrir sér kröfunni um fullkomleika í samtímanum; faldir reikningar, óreiða í skápum og draslaraskapur hrærir viðkvæmar taugar hirðusamra.

„Í samfélaginu er ákveðið óþol gagnvart fólki sem er ekki fullkomið og með óreiðu í hversdagslífi sínu. Reyndar held ég að við séum öll frekar ófullkomin og ekki með allt á hreinu, en kannski mismikið og misoft. Ég veit ekki hversu margar súpur ég hef búið til úr linum gulrótum af því að þær étast ekki hjá mér, ég er ennþá að kaupa inn eins og það búi fullt af unglingum á heimilinu. Ég næ ekki að aðlagast því að synir mínir eru farnir að heiman,“ segir Þórdís um ástæður fyrir myglaðri gúrku í einu ljóðanna.

Nýja bókin býr yfir leiftrandi húmor, eins og Þórdísi einni er lagið. T.d. kemur hún í ljóðinu „Kvíða“ inn á hvernig konur í samtímanum skulu gyrða skyrtur með ákveðnum hætti ofan í buxnastreng.

„Ef maður ætlar að fylgjast með hvernig skuli bera sig að í nútímanum, þá er það ótrúlega mikil vinna og rosalega flókið. Það er miklu auðveldara að skrifa ljóð um hin heiðnu goð, Þór, Óðin og Freyju, en nútímalífið. Núna er mikil krafa um að allt sé eftir settum reglum, niður í minnstu smáatriði. Við sjáum þetta líka ef við skoðum auglýsingar fasteigna, þar eru öll heimili eins, eftir samþykktum tískustöðlum. Sem betur fer hefur mér yfirleitt verið alveg sama hvað öðrum finnst um mitt útlit eða heimili, og fullt af fólki er alveg sama, þótt hjarðhegðun sé mjög sýnileg. Stundum er bara eins og fólk gleymi að það geti haft sjálfstæðan smekk og vald yfir hlutunum.“

Meðalmennskan er vanmetin

Þórdís varpar fram í einu ljóðinu hugmynd um að stofnuð verði meðalmennskuverðlaun.

„Engin ástæða er til að tala niður meðalmennskuna, því þeim sem lifa í sátt við meðalmennsku líður betur en þeim sem keppast við að vera best. Í íslensku nútímasamfélagi er krafa um að allir verði að vera afkastamiklir og helst hlaupa maraþon. Hálfvelgja og athafnaleysi eru ekki viðurkennd störf, en ég held að meðalmennska sé gríðarlega vanmetin í nútímanum, hún er partur af líffræðilegri aðlögun, fólkið sem lifir af eru þeir sem eru meðalmanneskjur. Nú er líka hamrað á því að allir eigi að vera sigurvegarar, sem er óraunhæf krafa, en ofverndun er á sama tíma tilhneiging í nútímasamfélagi, sem ekki gerir neinum heldur gott. Við andlegum krankleika hafa markþjálfar og ráðgjafar nútímans ekki endilega bestu svörin, lífsreyndir vinir vita stundum betur. Heillavænlegri leið er að leita til vina sinna, ef þeir eru skynsamir og í jafnvægi, um til dæmis hvort þú eigir að púkka upp á þennan eða hinn kærastann, heldur en að fara til einhvers sem þekkir þig ekki.“

Ógeðsvaldið er áhrifamikið

Í ljóðinu „Ógeðsauðmagnið“ fullyrðir Þórdís að allir eigi sér uppáhaldsviðbjóð.

„Sjálf á ég ekki uppáhaldsógeð, enda er ég ekki klígjugjörn og kúgast ekki af minnsta tilefni. Aftur á móti á ég kunningja sem getur ekki hreinsað hárin úr niðurföllunum heima hjá sér,“ segir Þórdís og hlær. „Ógeðsvaldið birtist mér hjá ungu fólki sem haldið er hreinleikadýrkun og segir oj við mörgu, þeim finnst margt mjög ógeðslegt. Þau eru alveg ótrúlega falleg og vel heppnuð, með hreina húð og fullkomið hár. Í samanburði við þau held ég að ég og mínar vinkonur hljótum að hafa verið ógeðslegar þegar við vorum í menntaskóla, við vorum með bólur, klipptum hárið á okkur sjálfar og gengum í fötum af öfum okkar. Ógeðsvaldið er gríðarlega áhrifamikið og aðskiljandi, með því að segja að einhver sé ógeð þá ertu að skilja viðkomandi frá þér og þeim sem telja sig ekki tilheyra ógeðsflokknum. Enginn vill að aðrir segi oj við þeim, eða eins og segir í texta sigurlags jólalagakeppni Rásar tvö þetta árið, en þar er Grýla spurð: Viltu að fólki finnist þú bara vera ógeð?“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir