Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Leyniþjónusta Úkraínu, SBU, greindi frá því í gær að hún hefði staðið að sprengingu í Moskvu fyrr um morguninn, sem felldi Ígor Kírillov, yfirmann efnavopnadeildar rússneska hersins, og aðstoðarmann hans.
Sprengjan sem felldi Kírillov var fest við hlaupahjól og sprakk það fyrir utan íbúðarhús í suðausturhluta Moskvuborgar. Olli hún skaða á framdyrum hússins, auk þess sem nokkrir gluggar brotnuðu við höggið af sprengingunni.
Kírillov var undirhershöfðingi í Rússaher og jafnframt háttsettasti herforinginn sem Úkraínumenn hafa fellt frá því að allsherjarinnrás Rússa hófst í febrúar 2022. Kírillov stjórnaði sérstakri deild sem sá meðal annars um varnir gegn gereyðingarvopnum fyrir aðrar herdeildir Rússa.
Rússnesk yfirvöld sögðu í gær að morðið á Kírillov væri rannsakað sem „hryðjuverk“. Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar innan SBU sagði hins vegar í gær að Kírillov hefði verið stríðsglæpamaður og lögmætt hernaðarskotmark, þar sem hann hefði gefið fyrirskipanir um að beita ólöglegum efnavopnum gegn Úkraínuher. „Svo óglæsilegur endir bíður allra þeirra sem drepa Úkraínumenn. Hefnd fyrir stríðsglæpi er óumflýjanleg,“ sagði heimildarmaðurinn.
Tilræðið gegn Kírillov kom einungis sólarhring eftir að saksóknarar í Úkraínu tilkynntu að þeir hefðu ákært hann fyrir stríðsglæpi, en í ákærunni voru talin rúmlega 4.800 tilfelli þar sem Rússar voru sagðir hafa beitt efnavopnum gegn Úkraínumönnum.
Munu ekki syrgja hann
Bretar settu viðskiptaþvinganir á Kírillov í október sl. vegna meintrar beitingar efnavopna í Úkraínu, en stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum segja að Rússar hafi þar meðal annars beitt klórópikríni, en það er efnavopn sem m.a. var beitt sem táragasi í fyrri heimsstyrjöld.
Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar sagði í gær um tilræðið að Bretar myndu ekki „syrgja“ andlát Kírillovs, sem hefði stutt við hina ólöglegu innrás Rússa og valdið Úkraínumönnum bæði þjáningu og dauða.