Skemmtilegt „Um er að ræða fjóra lagaflokka og syngur Margrét Hrafnsdóttir öll lögin við undirleik Azima Ensemble. Hljóðfæraskipanin er einkar skemmtileg (píanó, selló, flauta/alt-flauta, klarínett og básúna).“
Skemmtilegt „Um er að ræða fjóra lagaflokka og syngur Margrét Hrafnsdóttir öll lögin við undirleik Azima Ensemble. Hljóðfæraskipanin er einkar skemmtileg (píanó, selló, flauta/alt-flauta, klarínett og básúna).“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
De Lumine – Icelandic works for solo violin ★★★★½ Verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Huga Guðmundsson og Viktor Orra Árnason. Sif Margrét Tulinius (fiðla). Ulysses Arts UA240090, árið 2024. Heildartími 62 mín

Magnús Lyngdal Magnússon

De Lumine – Icelandic works for solo violin

★★★★½

Verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Huga Guðmundsson og Viktor Orra Árnason. Sif Margrét Tulinius (fiðla). Ulysses Arts UA240090, árið 2024. Heildartími 62 mín.

Ég þreytist ekki á að benda á mikilvægi þess að flytja samtímatónlist. Svo er auðvitað brýnt að hljóðrita hana líka en verkin þrjú sem Sif Margrét Tulinius tók nýverið upp eftir þá Hjálmar H. Ragnarsson (f. 1952), Huga Guðmundsson (f. 1977) og Viktor Orra Árnason (f. 1987) eru giska ólík. Þau eiga það kannski einungis sameiginlegt að vera samin fyrir einleiksfiðlu (og af mjög ólíkum tónskáldum). Þannig kemst Hjálmar svo að orði í fylgiriti að á bak við einleiksverkið Partítu séu í raun engin skilaboð frá tónskáldinu, heldur lifni verkið við í meðförum einleikarans sem túlki nótur, tónbil, hryn og hendingar fullkomlega sjálfstætt. Aftur kallast verk Huga, Praesentia, á við fiðlukonsertinn Absentia; einleiksverkið myndar þannig nokkurs konar andstæðu við konsertinn (fjarvera/nærvera). Þá dregur einleiksverk Viktors Orra, Dark Gravity, taum af óleystri gátu um alheiminn. Öll verkin þrjú lifna við í meðförum Sifjar Margrétar sem er sannarlega í hópi fremstu fiðluleikara og tónninn er hvort tveggja í senn þykkur og fljótandi. Túlkunin er líka sjálfsprottin og innileg. Hljóðið hjá tónmeistaranum Ragnheiði Jónsdóttur er fyrsta flokks.

Logn

★★★★·

Verk eftir Ingibjörgu Azimu. Azima Ensemble – Margrét Hrafnsdóttir (sópran), Hrönn Þráinsdóttir (píanó), Ármann Helgason (klarínett), Ólöf Sigursveinsdóttir (selló), Björg Brjánsdóttir (flauta og alt-flauta) og Ingibjörg Azima (básúna). Odradek Records ODRCD453, 2024. Heildartími 40 mín.

Tónskáldið og básúnuleikarinn Ingibjörg Azima (f. 1973) samdi sönglögin ellefu sem platan Logn hefur að geyma á árabilinu 2010-2022, öll við ljóð íslenskra ljóðskálda (Snorra Hjartarsonar, Gerðar Kristnýjar, Sölva B. Sigurðssonar og Kristínar Jónsdóttur). Um er að ræða fjóra lagaflokka og syngur Margrét Hrafnsdóttir öll lögin við undirleik Azima Ensemble. Hljóðfæraskipanin er einkar skemmtileg (píanó, selló, flauta/alt-flauta, klarínett og básúna). Útfærslan er hins vegar ólík eftir lagaflokkum (grunnurinn er þó almennt píanó/söngur ásamt svo einu aukahljóðfæri fyrir hvern lagaflokk). Eins og nafn plötunnar (Logn) ber með sér er almennt um frekar rólega tónlist að ræða (þannig oftast í hægu/yfirveguðu tempói) en hún er alltaf í tóntegundum (ekki atónal) og einkar ljóðræn. Hljóðupptaka tónmeistarans Halldórs Víkingssonar er ljómandi góð og textaframburður Margrétar er um leið skýr; texti ljóðanna skilar sér því vel í gegn. Sjálf segir Ingibjörg Azima ljóðin hafa komið til sín ýmist fyrir tilviljun eða sökum forvitni gagnvart tilteknu skáldi. Sjálf gerir hún vel með að „lita“ sönglögin í mismunandi útsetningum.