Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Við hjá Búseta teljum einboðið, eftir yfirlýsingar frá fulltrúum Reykjavíkurborgar síðustu daga, að borgin stöðvi framkvæmdir við Álfabakka 2,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta um umdeilda byggingu vöruhúss við Álfabakka í Suður-Mjódd.
Bjarni Þór segir í samtali við Morgunblaðið að mikill munur sé á byggingunni sem sé risin nú og fyrsta deiliskipulaginu þar sem til stóð að hús á einni hæð myndi rísa á lóðinni.
„Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir miklu uppbroti á byggingarmagni á lóðinni með sjö byggingum með bili á milli þar sem augljóslega kemur fram mikið uppbrot fyrir ljós og birtu,“ segir Bjarni.
Hann segir að eftir synjun Reykjavíkurborgar um stöðvun framkvæmda hafi borgarstjóri tjáð sig um málið í Morgunblaðinu þar sem hann sagði að hæð og útlit vöruhússins hefði komið sér í opna skjöldu, hann vildi kanna hvort hægt væri að lækka húsið, hann vildi hefja samtal við eigendur hússins um að lækka það, því að þetta væri að hans viti algjörlega óásættanlegt.
Í svari frá fulltrúa hjá skipulagsfulltrúa til íbúa í Árskógum 7, við hlið vöruhússins, er fullyrt að íbúinn þurfi ekki að hafa áhyggjur af hæð hússins. Það verði bara ein og hálf hæð. Annað hefur komið á daginn.
Fundað án niðurstöðu
Búseti og Félagsbústaðir funduðu með skipulagsfulltrúa í fyrradag án nokkurrar niðurstöðu og án þess að frekari fundir hafi verið boðaðir í framhaldinu um hvernig borgin hyggst koma til móts við kröfur þeirra.
Gerðu ráð fyrir uppbroti á byggingarmagni
Á lóðinni var gert ráð fyrir aflöngu húsi á 1-7 hæðum með tveggja hæða bílakjallara.
Mistök urðu í auglýsingu sem voru ekki leiðrétt.
Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir verslun, þjónustu og starfsemi sem þjóni heilum borgarhluta.