Byggingin Eins og sjá má á myndinni er húsið risið þótt það sé ekki fullbúið.
Byggingin Eins og sjá má á myndinni er húsið risið þótt það sé ekki fullbúið. — Morgunblaðið/Óli Már Aronsson
„Við erum enn að bíða eftir skipulagi á þessari lóð á Rangárflötum 6,“ segir Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra, en á lóðinni sem er sunnan megin við Stracta-hótelið á Hellu er engu að síður risið fokhelt hús

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við erum enn að bíða eftir skipulagi á þessari lóð á Rangárflötum 6,“ segir Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra, en á lóðinni sem er sunnan megin við Stracta-hótelið á Hellu er engu að síður risið fokhelt hús. Hreiðar Hermannsson eigandi hótelsins hafði verið að byggja hús á eigin lóð, en fór út fyrir lóðina sem hann hafði byggingarrétt á, yfir á lóð í eigu sveitarfélagsins.

Þegar hann er spurður hvort hægt sé að byrja að reisa hús án þess að skipulag fyrir lóðina sé samþykkt segir Haraldur Birgir svo ekki vera, en engar fundargerðir um skipulag eða byggingarleyfi þar að lútandi eru á vefsvæði sveitarfélagsins.

„Samkvæmt lögum má það ekki, en það er ekki þar með sagt að menn geri það ekki. Svo við urðum að bregðast við. Ég stöðvaði framkvæmdir á lóðinni á húsi sem hann hefur ekki leyfi fyrir. Í kjölfarið sækir hann um lóðina sem hann er kominn inn á og sveitarstjórnin úthlutar honum lóðinni með þeim skilyrðum að það skuli lagt fram skipulag og annað til að hægt sé að gefa út byggingarleyfi á grunni skipulags eins og lög gera ráð fyrir. Tímaramminn er löngu liðinn hvað mig varðar, því ég hef ekki fengið skipulagið í hendurnar og ekki gefið út byggingarleyfi.“

Telur sig með byggingarrétt

Hreiðar Hermannsson eigandi Stracta-hótelanna kannast ekki við að hafa ekki leyfi fyrir að reisa húsið sem er fokhelt á lóðinni á Hellu. „Ég er búinn að kaupa mikið land þarna og borga allt saman og var búinn að fá þessa lóð, en bæjarfélagið tók hana af mér, endurgreiddi hana og skilaði henni svo aftur. Upphaflega voru þau skilyrði að þarna yrði byggt íbúðarhús, en ekki atvinnuhúsnæði, en ég er að fara að byggja verslun og íbúðir þarna fyrir framan hótelið.“

Byggingarfulltrúinn segir þó Hreiðari til varnar að hann hafi hafið bygginguna á húsinu í góðri trú, því hann hafi haldið að það væri innan marka lóðar sem hann átti og hafði byggingarrétt á. Sú var hins vegar ekki raunin og þess vegna er komin upp þessi sérkennilega staða. Ekki náðist aftur í Harald byggingarfulltrúa til að bera undir hann fullvissu Hreiðars um að hann væri kominn með byggingarrétt á lóðinni.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir