Bækur
Björn
Bjarnason
Um miðjan tíunda áratuginn stofnaði Félag íslenskra listdansara sjóð til að standa fjárhagslega að ritun sögu listdans á Íslandi. Þá voru um 20 ár liðin frá því að Íslenski dansflokkurinn kom til sögunnar. Margir af fyrstu menntuðu dönsurum og danskennurum þjóðarinnar voru á lífi og unnt að nálgast frumheimildir beint.
Leitað var til Árna Íbsen, rithöfundar og leikhúsritara Þjóðleikhússins. Hann tók verkið að sér 1998 og hóf öflun heimilda en sagði sig frá því vegna alvarlegra veikinda. Ingibjörg Björnsdóttir listdansari tók síðar að sér söguritunina.
Ingibjörg nýtti sér af efni sem Árni safnaði en segir í formála að sjónarhorn sitt á söguna sé annað en hans. Sjónarhorn sitt mótist af þátttöku í sögunni, hún líti á hana „að innan“ en Árni hafi komið „að utan“ þótt hann hafi sem leikhúsritari haft skrifstofu „við hliðina á búningsherbergi stúlknanna í Íslenska dansflokknum“ í Þjóðleikhúsinu.
Ingibjörg Björnsdóttir stundaði nám í listdansi við Listdansskóla Þjóðleikhússins og við skoska Listdansskólann í Edinborg þaðan sem hún lauk námi árið 1963. Hún lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2002. Ingibjörg var dansari við Þjóðleikhúsið og með Íslenska dansflokknum. Hún kenndi við Ballettskóla Sigríðar Ármann og var listdanskennari við Listdansskóla Þjóðleikhússins frá 1965 og síðar skólastjóri hans og fyrsti skólastjóri Listdansskóla Íslands frá 1977-1997. Hún stjórnaði nemendasýningum og samdi flesta dansa fyrir þær í 25 ár. Þá gegndi hún margvíslegum stjórnar- og trúnaðarstörfum fyrir listdansara og sviðslistafólk.
Ingibjörg er þannig öllum hnútum kunnug. Vandvirkni hennar, hollusta við heimildir og reynsla gerir bókina Listdans á Íslandi að einstakri heimild um þessa listgrein allt frá upphafi hennar hér fram til ársins 2014 þegar Íslenski dansflokkurinn hafði starfað í 40 ár.
Ingibjörg segir að við söguritunina hafi hún orðið að gera sér fulla grein fyrir þeim „hættum sem nándin við menn og málefni listgreinarinnar fólu í sér“ (7). Ingibjörg dregur ekkert undan í frásögninni en gengur aldrei á hlut neins, að minnsta kosti ekki í augum þess sem þekkir listdans hér sem áhorfandi og vegna verkefna á sviði stjórnsýslu.
Bókin skiptist í tíu kafla: (1) Listdans á öldum áður; (2) Íslenskur listdans; (3) Ný kynslóð dansara; (4) Árin með Erik Bisted; (5) Sviptingar í Þjóðleikhúsinu; (6) Íslenski dansflokkurinn; (7) Fyrsti íslenski listdansstjórinn; (8) Nýir straumar – tímamót; (9) Stefnt á alþjóðavettvang; (10) Dansað á nýrri öld.
Þá fylgja fjórir viðaukar meginmálinu: (1) Nemendadanshátíð í Reykjavík – Reykjavik Dance Festival; (2) Nokkrir sjálfstæðir danshópar; (3) Íslenskir dansarar á erlendu leiksviði; (4) Listdansskólar.
Bókin er ríkulega myndskreytt og er höfunda mynda getið í sérstakri skrá, þá eru skrár yfir heimildir og nöfn en tilvísanir í heimildir birtast í lok hvers kafla. Bókin er í stóru broti, prentuð á þungan pappír, myndir njóta sín því vel og er lögð alúð við myndatexta.
Ingibjörg rekur söguna í tímaröð, frá ári til árs. Hún segir frá sýningum, hverjir tóku þátt í þeim og birtir tilvitnanir í umsagnir sé þær að finna. Hér má því fylgjast með heilli listgrein þróast stig af stigi og sjá hvernig með aðstoð erlendra kennara, stjórnenda og dansara tekst að skapa íslenskum dansflokki sérstöðu – hann verður eftirsóttur erlendis og laðar að sér erlenda listamenn, ekki síst danshöfunda.
Félagi íslenskra listdansara var boðið að sýna dansverk á Listamannaþingi sem Bandalag íslenskra listamanna efndi til í Þjóðleikhúsinu skömmu eftir að það var opnað árið 1950. Sættust félagskonur eftir nokkrar umræður á að skipta tíma listdansins á milli þriggja kvenna. Mestum tíðindum þótti sæta að þarna var frumfluttur ballettinn Eldur eftir Sigríði Ármann við tónlist Jórunnar Viðar – fyrsti alíslenski ballettinn og fyrsta nútímadansverkið samið hér á landi. Fékk verkið mikið hrós gagnrýnenda, meðal annars hér í blaðinu hjá Bjarna Guðmundssyni sem kallaði ballett „dýrasta djásn allrar leikmenntar“ (65).
Af bókinni má ráða að hér hafi verið mikill áhugi á dansmennt á sjöunda áratugnum. Allir Íslendingar vissu hver Daninn Erik Bisted var en hann kom hingað 1952 með Lisu Kæregaard eiginkonu sinni þegar þau dönsuðu í Leðurblökunni í Þjóðleikhúsinu. Bisted tók síðan að sér að verða ballettmeistari hússins auk þess sem hjónin starfræktu listdansskóla við leikhúsið og hóf hann starfsemi í byrjun október 1952. Þegar skólinn hafði starfað í fimm vetur undir stjórn Bisteds voru nemendur orðnir 300 (83).
Hjónin störfuðu hér í átta ár og vonuðu að komið yrði á ballettflokki við leikhúsið. Það gerðist þó ekki við Þjóðleikhúsið fyrr en Sveinn Einarsson hafði tekið við af Guðlaugi Rósinkranz sem þjóðleikhússtjóri haustið 1972. Flokkurinn var stofnaður um vorið 1973 en 27. febrúar 1974 samþykkti Magnús Torfi Ólafsson menntamálaráðherra með bréfi „stofnun listdansflokks á vegum Þjóðleikhússins“. Gilti sú skipan til 1996 þegar Katrín Hall var ráðin listdansstjóri og nýtt tímabil hófst í starfi Íslenska dansflokksins (217) með sjálfstæðri stjórn. Frá 7. október 1997 hefur flokkurinn átt samastað í Borgarleikhúsinu. Nú eru ákvæði um dansflokkinn í lögum um sviðslistir frá 1. júlí 2020 og tóku þau við af reglum um hann frá 1999 og 2002.
Í þriðja viðauka eru nefndir til sögunnar 24 íslenskir dansarar á erlendu leiksviði. Hafa nokkrir þeirra starfað sem gestir á íslensku leiksviði og lagt sitt af mörkum fyrir þróun listdansins hér og má þar t.d. nefna Helga Tómasson í Bandaríkjunum og Sveinbjörgu Alexanders í Þýskalandi.
Frásögn Ingibjargar snýst óhjákvæmilega mikið um samskipti við dansara erlendis, íslenska og erlenda, kennara og danshöfunda. Íslenski dansflokkurinn hefur vakið athygli víða um lönd og ýmsir eftirsóttustu danshöfundar Evrópu hafa unnið með honum. Á síðari árum hefur upphefð flokksins komið að utan. Á 30 ára afmæli flokksins sagði Katrín Hall sorglegt að leiðin virtist Íslenska dansflokknum „opnari erlendis en hér heima“. Það væri eins og listdansinn væri „ekki einn hluti af listflórunni“ (243).
Í bókinni Listdans á Íslandi er einstæð lýsing á þessari grein listflórunnar. Hlúa þarf að greininni eins og öðrum viðkvæmum blómum en fyrst og síðast að leyfa henni að vaxa og dafna á eigin forsendum.