Hjá Hrafnistu Almar við Hrafnistu í Laugarási. Hann segir ákveðinn stofnanablæ að finna í bókinni.
Hjá Hrafnistu Almar við Hrafnistu í Laugarási. Hann segir ákveðinn stofnanablæ að finna í bókinni. — Morgunblaðið/Eyþór
Almar Atlason, myndlistarmaður og nú rithöfundur, vakti þjóðarathygli í desember árið 2015 þegar hann dvaldi nakinn í glerkassa í heila viku í Listaháskóla Íslands í Laugarnesi. Gjörningurinn lagðist misjafnlega í fólk, eins og við mátti búast,…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Almar Atlason, myndlistarmaður og nú rithöfundur, vakti þjóðarathygli í desember árið 2015 þegar hann dvaldi nakinn í glerkassa í heila viku í Listaháskóla Íslands í Laugarnesi. Gjörningurinn lagðist misjafnlega í fólk, eins og við mátti búast, sumir hneyksluðust en aðrir jusu hinn unga listamann lofi.

Nú hefur Almar gefið út sína fyrstu skáldsögu, Mold er bara mold, með undirtitlinum Litla systir mín fjöldamorðinginn. Er hún gefin út í þremur bindum og nefnist það fyrsta Með Venus í skriðdreka, annað Frelsið er takmarkað og það þriðja Þindarlaus frásögn … og kápa hvers um sig myndskreytt af Almari sjálfum.

Sama hræðilega kvöldstundin

Almar er spurður að því hvers vegna hann hafi valið bókinni þetta form, kosið að gefa hana út í þremur bindum í kassa. „Þetta eru í rauninni þrjár sögur eða þrír þættir sem tengjast. Önnur sagan, sérstaklega, er sögð frá allt öðru sjónarhorni en þær hverfast allar um sömu hræðilegu kvöldstundina. Þær enda sameiginlega tvær, þetta snýst allt um þriðjudaginn 16. apríl, hverfist um hann,“ svarar Almar.

Hvað gerðist þann dag?

„Þriðjudaginn 16. apríl 2019 brennur Notre Dame-kirkjan í París og allir á landsfundi sjálfstæðismanna létust í sorglegu slysi sama dag og Berglind Sól Bergmann, hættulegasti fjöldamorðingi 21. aldarinnar norðan Færeyja, var tekin föst,“ svarar Almar og vísar til bókarinnar. Er þar komin Begga Sól, aðalpersóna Mold er bara mold. Almar segist ekki mega segja of mikið þegar kemur að söguþræðinum en óhætt að segja að Begga Sól er óvenjuleg sögupersóna.

En hver er Begga Sól og hvaðan kom hún? „Hún er þungavigtin í þessari bók, mjög skapstór ung kona sem þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs. Hún notast við hjólastól til að komast á milli staða og hefur búið í óþarflega mörgum íbúðakjörnum. Hún tekur til við – með aðstoð NPA-starfsmanna eða þjónustuaðila sinna – að slátra dónakörlum í massavís,“ svarar Almar en til skýringar þá stendur NPA fyrir „notendastýrða persónulega aðstoð“, þjónustuform sem „byggist á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr“, eins og segir á vef NPA-miðstöðvarinnar, npa.is.

Kærleikur í misskilningi

Í lýsingu á bókinni stendur að misskilningurinn sé það besta sem guð hafi fært manninum því án hans gætum við aldrei elskað hvert annað. Geturðu útskýrt hvað þú átt við með þessu?

„Já … það tók mig 630 blaðsíður síðast, hvað hefurðu mikinn tíma?“ svarar Almar og hlær. „En það er kannski fyrst og síðast þetta að ég held að kærleikurinn búi í misskilningnum og við sjálf kannski líka. Það sem annað fólk hugsar að við hugsum er kannski meira við sjálf en það sem við svo í rauninni hugsum,“ svarar hann svo.

Almar segist hafa kynnst mörgu fötluðu fólki í íslensku samfélagi en þó aldrei séð manneskju á borð við Beggu Sól gegna neinu bókmenntalegu hlutverki, hvorki í bókmenntum né sjónvarpi, nema þá til að sýna annað fólk sem kærleiksríkt eða illgjarnt. „Mér finnst það fáránlegt því þetta eru oft frumlegustu og sterkustu persónur sem ég hef kynnst í raunveruleikanum,“ segir Almar.

Við bregðum okkur aftur til fortíðar, til daga Almars í kassanum. Almar segir að þá, líkt og nú, hafi verk hans verið umdeild. „Ég hugsa að enginn geti lesið þessa bók án þess að hún fari í taugarnar á þeim og vonandi að þeir gleðjist yfir henni líka,“ segir hann sposkur. Allir eigi þó að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Mér hefur alltaf liðið mjög vel á milli tannanna á fólki,“ bætir Almar við og segist ætla að halda áfram að skrifa. „Ég þarf bara að jafna mig núna því ég var að skrifa einhverja þá albestu bók sem ég hef lesið. Það er erfitt að spila á eftir Bítlunum og Stones,“ segir hann léttur í bragði. „Ég held að þetta sé hörkugóð bók, ég hef aldrei gert listaverk sem ég hef lagt fleiri klukkustundir í, hef aldrei reynt eins mikið á mig.“

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson