Brennsla kola til raforkuframleiðslu hefur aldrei verið meiri en á þessu ári þrátt fyrir alþjóðleg markmið um að draga úr kolanotkun, samkvæmt skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin, IEA, birti í gær.
Segir stofnunin að samtals 8,77 milljörðum tonna af kolum hafi verið brennt og er gert ráð fyrir að notkun kola fari áfram vaxandi að minnsta kosti til ársins 2027. Er það einkum rakið til vaxandi kolabrennslu í Kína en síðasta aldarfjórðunginn hefur kolanotkun Kínverja verið 30% meiri en allra annarra ríkja til samans.
Kolavinnsla hefur heldur aldrei verið meiri en á þessu ári en yfir níu milljarðar tonna af kolum voru unnir úr námum. Framleiðslumet voru sett í Kína, á Indlandi og í Indónesíu, sem eru helstu kolaframleiðendur heims.
Þótt kínversk stjórnvöld hafi reynt að auka fjölbreytni í orkuvinnslu, meðal annars með því að auka verulega nýtingu á sólar- og vindorku, var 4,9 milljörðum tonna af kolum brennt í landinu á þessu ári, sem er met.
Kolanotkun hefur dregist saman í þróuðum ríkjum, svo sem í Evrópu og Bandaríkjunum, en aukin eftirspurn eftir kolum í Kína, Indlandi og Indónesíu hefur vegið það upp.
Heldur hefur þó hægt á samdrætti í kolanotkun í Evrópu og Bandaríkjunum. Þannig dróst kolanotkun saman um 23% í Evrópu á árinu 2023 og um 17% í Bandaríkjunum en á þessu ári nam samdrátturinn 12% í Evrópu og 5% í Bandaríkjunum.
IEA hafði áður spáð því að kolanotkun myndi ná hámarki á þessu ári en í skýrslunni nú segir stofnunin að mikil fjölgun orkufrekra gagnavera sem knýi vaxandi notkun gervigreindar muni að öllum líkindum leiða til síaukinnar eftirspurnar eftir raforku, þar á meðal í Kína. gummi@mbl.is