Gísli Vilhjálms Ákason fæddist í Ólafsfirði 28. febrúar 1934. Hann lést 8. desember 2024 á Vífilsstöðum.
Gísli var sonur hjónanna Áka Þorsteinssonar verkamanns og Sigurbjargar Elínar Guðmundsdóttur húsmóður. Fimm ára gamall missti hann móður sína og ólst eftir það að stærstum hluta upp hjá fósturafa sínum, Randver Jónssyni, og konu hans, Margréti Árnadóttur.
Gísli kvæntist 1957 eftirlifandi eiginkonu sinni, Bjarneyju Ágústu Ingólfsdóttur kennara. Sonur þeirra er Ingólfur Vilhjálms, prófessor við Háskóla Íslands, f. 16. nóvember 1956. Maki hans er Björk Óttarsdóttir, f. 1962. Börn þeirra eru: 1) Edda Sigurbjörg, f. 1985, maki Smári Árnason Snæfeld. Börn þeirra eru Arnar Jaki, f. 2009, Ingvar Breki, f. 2012, og Saga Rán, f. 2020. 2) Eyja Drífa, f. 1988, maki Benedikt Valberg Helgason. Börn þeirra eru Hilmir Leó, f. 2012, og Óskar Freyr, f. 2016. 3) Gísli Þór, f. 1994, sambýlismaður Ólafur Helgi Móberg Ólafsson.
Fyrir átti Gísli soninn Þráin Vilhjálms, stýrimann, f. 21. mars 1955, með Ingibjörgu Sigjónsdóttur, og dótturina Jóhönnu, kennara, f. 15. febrúar 1956, með Margréti Sigurjónsdóttur. Maki Jóhönnu er Rúnar Laxdal Gunnarsson, f. 1957. Börn þeirra eru: 1) Kolbrún Jóhanna, f. 1981, maki Andri Pálsson. Börn þeirra eru Jakob Tumi, f. 2007, Alexander Ari, f. 2010, og Elísa Lóa, f. 2016. 2) Margrét Elísa, f. 1984, maki Arnljótur Ástvaldsson. Börn þeirra eru: Ragnhildur Jóhanna, f. 2012, og Rúnar Sveinn, f. 2017. 3) Gunnar Sveinn, f. 1987, maki Valdís Frímann Vignisdóttir. Börn þeirra eru: Vignir Freyr, f. 2018, Sveindís María, f. 2021, og Jóhann Máni, f. 2024.
Gísli gekk í barnaskóla Ólafsfjarðar en 16 ára hleypti hann heimdraganum og fór til náms í héraðsskólanum í Reykholti og dvaldi þar tvo vetur. Lengst af starfaði Gísli í rafgeymaverksmiðjunni Pólar en síðustu áratugina ók hann sendibíl.
Gísli og Bjarney bjuggu á Kleppsvegi í Reykjavík til 1968 þegar þau keyptu fokhelt hús á Melaheiði 11 í Kópavogi og bjuggu þar síðan.
Útför Gísla fer fram frá Lindakirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 13.
Við kveðjum nú elsku afa okkar, þakklát yfir að hafa fengið að hafa hann hjá okkur svona lengi. Hann var stór hluti af lífi okkar og skilur eftir sig ótal minningar.
Við minnumst sykurmola í appelsínum, mysings í skeið og hunangs ofan á brauð, afi var mjög hrifinn af sætindum og vildi deila því með okkur.
Við minnumst þess að hafa fengið að hjálpa til í bílskúrnum, garðinum eða gróðurhúsinu, þar sem hann kenndi okkur svo ótal margt.
Við minnumst sumranna í Mýrhúsum þar sem við vorum vakin fyrir allar aldir til að fara út að róa, vitja í netin og gera að fiski, ævintýralegir sumarmorgnar.
Við minnumst litlu molanna eða rúsínanna sem birtust svo oft í lófa okkar og svo seinna meir í lófum barnanna okkar.
Afi okkar var maður sem þótti vænt um fjölskylduna sína. Við munum minnast hans með þakklæti og söknuð í hjarta.
Edda Sigurbjörg, Eyja Drífa og Gísli Þór.
Við minnumst afa mest fyrir það hvað hann hafði gaman af því að ferðast og kom því oft við hjá okkur á Seyðisfirði þegar hann og Eyja amma voru á leið í Norrænu til Evrópu. Oftast var ferðinni heitið til Þýskalands þar sem þau þræddu gamlar og nýjar slóðir og líkaði vel að vera. Á leiðinni til Þýskalands var mesta tilhlökkunarefnið að koma við hjá Kurt vini þeirra á Jótlandi, en þar stoppuðu þau jafnan nokkrar nætur og áttu góðar stundir, enda var þeim tekið með kostum og kynjum. Kurt kynntust þau sem unglingi þegar hann kom með dönskum íþróttahópi til Kópavogs og afi og amma buðu sig fram sem gestgjafar og fengu Kurt sem gest. Þau héldu tryggð hvert við annað alla tíð síðan og Kurt og kona hans komu oft til Íslands í heimsókn, meira að segja komu þau til okkar á Seyðisfjörð ásamt Eyju ömmu og Gísla afa.
Ferðalöngun afa vaknaði snemma og yfirgaf hann kornungur sinn kæra Ólafsfjörð og fór til náms og vinnu fjarri heimahögum 16 ára gamall. Hann var í Héraðsskólanum í Reykholti í tvo vetur og vann svo eitt sumar á búgarði í Danmörku. Það var honum mikil lífsreynsla og hafði hann gaman af því að segja okkur frá dvölinni þar sem og ferðinni sem hann fór ungur á heimsleika æskunnar í Ungverjalandi, en ferðalagið þangað var býsna ævintýralegt fyrir Ólafsfjarðarstrákinn.
Þrátt fyrir að afi hefði yfirgefið æskustöðvarnar snemma var Ólafsfjörður honum ávallt hugstæður og auðheyrt að þrátt fyrir að hafa misst móður sína fimm ára gamall virðist hann hafa átt ljúfa æsku hjá Randveri fósturafa sínum sem hann talaði um með mikilli hlýju. En Áki faðir hans þurfti að vera mikið fjarverandi til sjós til að sjá þeim farborða. Afi ræktaði samband sitt við æskustöðvarnar m.a. með því að hitta Ólafsfirðinga á höfuðborgarsvæðinu og ómetanlegt fannst honum að komast norður í berjamó á haustin.
Afi hafði gaman af börnum og vorum við ávallt velkomin í stóra húsið þeirra í Melaheiði og minnumst við þess hvað það var notalegt að koma og fá að leika sér með legókubba og bíla í fyrrverandi Ingólfs-herbergi og alltaf fór afi inn í búr og sótti eitthvert góðgæti handa okkur. Það sama átti við þegar við fórum að koma með okkar börn í innlit í Melaheiðina. Afi var líka þrautseigur í pakkasendingum til smáfólksins og hafði stundum mikið fyrir því að koma glaðningi til barnanna.
Iðjusemi var einkennandi fyrir afa og minnumst við þess hve gaman hann hafði af því að vinna í garðinum og gera tilraunir með ýmiss konar ræktun. Til dæmis kom hann sér upp litlu gróðurhúsi þar sem uxu eplatré, kirsuber og fleiri plöntur sem eru sjaldséðar á Íslandi og einu sinni færði hann mömmu lítið kastaníutré sem hafði verið ræktað upp af danskri kastaníu.
Afi lést 8. desember síðastliðinn eftir rúmlega hálfs árs erfið veikindi. Fram að því hafði hann verið nokkuð hress miðað við níræðan mann; hugsunin skýr og viljinn til verka óskertur. Því hefur það verið honum erfitt að þurfa að vera rúmliggjandi alla þessa síðustu mánuði og hvíldin langa vonandi kærkomin.
Kolbrún Jóhanna, Margrét Elísa og Gunnar Sveinn.