Böðvar Þorvaldsson fæddist 2. janúar 1940 á Útibleiksstöðum, Vestur-Húnavatnssýslu. Hann lést 9. desember 2024 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.
Foreldrar Böðvars voru hjónin Þorvaldur Kristmundsson, f. 15.2. 1892, d. 15.5. 1942, og Elín Björnsdóttir, f. 28.12. 1894, d. 14.9. 1949. Systkini Böðvars voru Kristín, f. 17.1. 1919, Guðrún, f. 2.1. 1921, Guðný, f. 15.2. 1922, og Björn, f. 21.5. 1927. Þau eru öll látin.
Eiginkona Böðvars er Þórunn Árnadóttir frá Akranesi, f. 9.4. 1947. Börn þeirra eru: 1) Árni, f. 23.1. 1971, maki Sigríður Fanney Pálsdóttir, f. 27.9. 1972. Börn þeirra eru Þórunn Ásta, f. 3.7. 2001, Guðrún Pála, f. 20.12. 2004, og Arna Fanney, f. 23.11. 2011. 2) Elín Þóra, f. 22.1. 1974, maki Halldór Ólason, f. 1.3. 1974. Börn þeirra eru Sara, f. 7.7. 2000, og Sævar, f. 28.3. 2003.
Fimm ára gamall fluttist Böðvar til Akraness með móður sinni og bjuggu þau hjá Guðnýju systur hans og Valgarði Lyngdal eiginmanni hennar. Eftir lát móður Böðvars, þegar hann var níu ára, tóku Guðný og Valgarður hann að sér. Þegar Böðvar var þrettán ára fluttist fjölskyldan að Eystra-Miðfelli, þar sem hann sinnti flestum þeim störfum sem til féllu, bæði innanhúss og utan. Síðar fór hann að sinna sjómennsku og fór í Stýrimannaskólann árið 1967 og lauk þaðan prófi 1968. Meirihluta ævinnar eftir það sinnti hann sjómennsku, oftast sem stýrimaður, meðal annars á Óskari Magnússyni, Víkingi AK-100 og Höfrungi III AK-250. Síðustu starfsár sín vann hann hjá Faxaflóahöfnum. Hann átti oftast einnig báta í sameign með öðrum, sem nýttir voru til frístundaveiða og skemmtunar.
Útför hans fer fram frá Akraneskirkju í dag, 19. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á slóðinni
www.akraneskirkja.is
Elsku pabbi.
Góðar minningar streyma fram á þessum tímum því þú varst einfaldlega bestur.
Við gerðum margt saman sem fjölskylda og líka bara við tvö. Við fórum bara tvö saman á grásleppuveiðar þegar ég var unglingur. Það voru svo dásamlegar stundir þar sem þú sigldir út á miðin, svo drógum við inn netin og oft var bara ansi gott fiskerí hjá okkur. Svo lögðum við netin aftur og þú lést mig kasta út seinni baujunni. Þegar því var lokið tók ég við stýrinu og þú fórst að gera að og kíktir öðru hvoru inn til mín til þess að sjá til þess að ég færi rétta leið með okkur heim.
Einnig voruð þið mamma alltaf svo dugleg að ferðast með okkur systkinin og þá oftast með Dísu og Dóra, þegar þú komst í land á sumrin þá var öllu hent í bílinn og haldið af stað í útilegu með A-tjaldið og allar græjur fóru með og allt komst þetta í bílinn því þú varst svo góður að raða öllu og skipuleggja. Við fórum margar hringferðir um landið og gistum við ýmist í tjaldi, sumarbústöðum eða á Eddu-hótelum og margt var brallað í þeim ferðum.
Ekki fækkaði samverustundunum eftir að börnin mín tvö fæddust og er ég ykkur mömmu svo þakklát fyrir allt sem þið hafið gefið mér og mínum í gegnum tíðina því þið voruð einstaklega samheldin og ástrík hjón.
Það verður mikið tómarúm hjá okkur og ekki síst hjá mömmu eftir að kletturinn í lífinu er farinn, en við eigum svo margar fallegar minningar. Elsku pabbi, takk fyrir allt.
Minning mín um þig,
er aðeins ljúf og góð.
Þú varst alltaf svo góður,
gerðir allt fyrir mig.
Þú varst þakklátur,
fyrir allt sem gert var fyrir þig.
Þú varst fyrirmynd mín,
og verður fyrirmyndin alla mína tíð.
Ég á eftir að sakna þín,
hvernig þú brostir, hvernig þú talaðir.
Ég kem svo og heimsæki þig,
þegar minn tími kemur.
(Iýr.)
Þín dóttir,
Elín Þóra.
Elsku tengdapabbi, það var fyrir rúmum 28 árum sem ég kynntist þér þegar ég kynntist syni þínum honum Árna. Þú tókst mér opnum örmum og bauðst mig strax velkomna í fjölskylduna. Traustari og hjartahlýrri tengdapabba hefði ég ekki getað óskað mér, ég datt svo sannarlega í lukkupottinn.
Á þessum 28 árum höfum við brallað ýmislegt saman. Efst í huga mér eru allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman í ferðalögum, hvort sem það var út fyrir landsteinana eða innanlands. Það voru ófáar útilegurnar sem við fórum saman, ferðuðumst um allt og oftar en einu sinni tengdust þessar útilegur fótboltamótum dætra okkar Árna. Það besta sem þær vissu í þessum ferðum var að vakna á morgnana og heimsækja þig og Tótu og fá nýbakaðar skonsur í morgunmat.
Einnig áttum við yndislegar stundir í sumarbústaðnum ykkar, við byggingu hans sá ég fyrir alvöru hvað þú varst handlaginn og það var nánast ekkert verk sem þú gast ekki unnið. Við hjónin nutum svo sannarlega góðs af handlagni þinni þegar við vorum í vanda stödd, eitt símtal og þú varst mættur á svæðið til að aðstoða og laga. Fyrir það erum við ætíð þakklát. Dætur mínar tala enn um að fá „afa“ ristað brauð í morgunmat, hvað þú gast dekrað við barnabörnin þín, það var algjör unun að horfa á þig dunda við að gera ristað brauð með heimagerðri bláberjasultu og osti sem þú skarst svo af mikilli nákvæmni í litla teninga þannig að þær gætu tínt brauðið upp í sig.
Þegar þú varst á sjó þá hlakkaði ég alltaf til þess þegar þú kæmir í land því þú verkaðir einn besta harðfisk sem ég hef smakkað og alltaf gafstu mér nóg af honum.
Aldrei máttir þú til þess hugsa að eitthvað af þínu fólki væri í vandræðum, ef þú fréttir af slíku þá varstu mættur á staðinn og ekki skipti þá máli hvar á landinu viðkomandi var staddur. Er mér efst í huga þegar ein af dætrum mínum ætlaði í útilegu á Flúðum og fellihýsið stóð eitthvað á sér. Þú gast ekki hugsað þér að hún þyrfti að hætta við útileguna, þannig að þú brunaðir úr bústaðnum og á Flúðir til að aðstoða. Stuttu áður fórum við saman í Húsafell og lentum í vandræðum með að hífa fellihýsið upp og við vorum alveg komin að því að fara heim. En þú sást vonbrigðin í augum dætra minna yfir því að við værum á leiðinni heim og þú fórst á stúfana og með þinni einskæru lagni og hjálp frá góðu fólki þá tókst þér á einhvern undraverðan hátt að laga þetta og eftir sitja ógleymanlegar minningar um viðburðaríka útilegu.
Þú vildir allt fyrir okkur gera og getum við í dag þegar við kveðjum þig yljað okkur við allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman. Ég þakka þér fyrir allt, elsku tengdapabbi minn, hvíl í friði
Megi gæfan þig geyma,
megi Guð þér færa sigurlag.
Megi sól lýsa þína leið,
megi ljós þitt skína sérhvern dag.
Og bænar bið ég þér,
að ávallt geymi þig Guð í hendi sér.
(Þýð. Bjarni Stefán Konráðsson)
Þín tengdadóttir,
Sigríður Fanney.