Hörn fæddist 14. október 1938 í Reykjavík. Hún andaðist í Reykjavík 10. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Hörður Ágústsson, f. 29.12. 2013, d. 23.2. 1979 og Guðríður Ingibjörg Einarsdóttir, f. 28.3. 1919, d. 1.4. 2010.
Hörn eignaðist þrjú börn: Ágústu Ragnars, fædd 29.11. 1960, Ólaf Friðrik Gunnarsson, fæddur 10.10. 1963 og Úlfhildi Eysteinsdóttur, fædd 11.7. 1977. Barnabörnin eru sex og barnabarnabörnin eru orðin þrjú og fleiri á leiðinni.
Útför Harnar fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 19. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.
Elsku Hörn.
Ég man enn svo vel eftir fyrstu kynnum okkar. Þú sóttir okkur Úlfhildi á Akureyrarflugvöll þegar við komum norður saman í fyrsta sinn. Að koma heim til þín og Matta á Öldugötuna var svo notalegt! Það var áreynslulaust að kynnast þér og við gátum setið endalaust í eldhúsinu og kjaftað um daginn og veginn. Að mörgu leyti var eins og við hefðum alltaf þekkst. Ef ég loka augunum núna sé ég eldhúsið á Öldugötu, finn kaffilyktina og heyri í djasstónlistinni sem var á fóninum frammi í stofu. Þið Matti stiguð ykkar fallega dans inni í eldhúsi þar sem annað ykkar var að laga mat á meðan hitt snerist í hringi að hjálpa.
Í kringum þig var alltaf góður djass! Oft var það Billie Holiday sem ómaði í bakgrunninum þegar ég heimsótti þig. Hvert sem þú fórst gerðirðu allt svo fallegt í kringum þig og passaðir upp á að vel færi um okkur öll. Þegar þú fluttir til Reykjavíkur á ný eftir andlát Matta var einstaklega dýrmætt að fá að njóta fleiri stunda með þér. Þú hjálpaðir okkur með börnin á meðan við vorum í fæðingarorlofi, kíktir í kaffi og kenndir mér ýmislegt sem ég mun alltaf geyma með mér.
Ég vildi óska þess að hafa átt fleiri ár með þér en mikið er ég þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Ég lofa að halda sameiginlegu áhugamálunum okkar á lofti eins og Fridu Kahlo, Billie Holiday, söfnun á antíkbollum og jólaskrauti. Ég held áfram að gefa krökkunum kossa frá þér, eins og þú baðst mig alltaf um. Ég get ekki lýst því hversu erfitt þeim finnst að kveðja þig.
En eins og Frida Kahlo skrifaði eitt sinn: „Ekkert er algert. Allt breytist, allt hreyfist, allt snýst, allt flýgur og hverfur.“
Elsku tengdamamma, takk fyrir allt.
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir.
Þegar Hörn Harðardóttir er nú kvödd streyma til mín minningar frá mótunarárum lífsins og hugsanir um athvörfin í tilverunni í þá daga – sem enn eru ljóslifandi staðir innra með mér. Ég var lánsamur hvað þetta varðar, ólst upp hjá móður minni og stjúpföður í Borgarnesi ásamt hálfsystkinum og fóstursystur en átti einnig tryggt aðsetur hjá móðurafa og –ömmu í Reykjavík og sótti mikið þangað. Þegar ég var tíu ára bættist við mikilvægur staður þegar faðir minn, Eysteinn Þorvaldsson, og Hörn efndu til heimilis ásamt börnum hennar, Ágústu og Ólafi. Þegar afi minn og amma fluttu sig um set til Svíþjóðar í fáein ár þurfti ég því ekki að draga úr heimsóknum mínum til höfuðborgarinnar.
Þarna fann faðir minn dýrmætan stöðugleika í lífinu. En þau studdu líka hvort annað – hún lauk kennaranámi og réð sig í kennslu við Öskjuhlíðarskóla, hann lauk námi sínu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og varð síðar prófessor við Kennaraháskólann. Árið 1977 eignuðust þau dóttur sem fékk heitið Úlfhildur, gleðigjafi sem hefur staðið keik undir nafni.
Samleið þeirra Eysteins og Harnar lauk árið 1994 en sambúð þeirra í 27 ár skildi eftir margt gott í lífi þeirra sem þar komu við sögu. Óhætt er að segja að heimilislíf þeirra hafi verið að miklu leyti höfundarverk Harnar. Hún hélt dyggilega utan um sitt fólk, og í þann hóp vorum við börn Eysteins úr fyrri samböndum einnig velkomin. Hörn hafði iðulega frumkvæði að því að kalla okkur saman og átti þannig drjúgan þátt í að mynda virk tengsl á milli okkar, tengsl sem hafa haldist síðan – sem og að styrkja tengsl Eysteins við börn hans og barnabörn.
Flókin fjölskyldumynstur hafa færst í vöxt hér á landi á síðustu áratugum og það þarf oft mikla lagni og skilning, víðsýni og væntumþykju til að þau fái notið sín. Hörn bjó yfir gnótt af þessum eiginleikum, hún var í senn sköruleg og frjálsleg, glaðvær, kærleiksrík og örlát. Ég er þakklátur fyrir öll okkar einlægu og örvandi samskipti. Hún átti ekki lítinn þátt í að fleyta mér út á rúmsjó fullorðinsáranna.
Ástráður Eysteinsson.
Hörn ástkæra systir mín hefur nú kvatt. Hún var 15 árum eldri en ég. Mér fannst mjög gaman að eiga svona „stóra“ hálfsystur sem var eldri en bæði eldri systkini mín, Örn og Tóta. Einar Þór var yngstur af okkur systkinunum en hann lést 2012.
Foreldrar mömmu þau amma Guðríður og afi Einar ólu Lillu upp, þar sem mamma bjó í foreldrahúsum þegar Lilla fæddist en það varð að samkomulagi milli þeirra að Lilla byggi áfram hjá ömmu og afa þegar mamma giftist Þórhalli pabba. Hún var alla tíð augasteinn gömlu hjónanna og þau nutu þess á allan hátt að fá að ala hana upp. Heimili þeirra var Lillu mjög kært og þar naut hún sín mjög vel að hennar sögn en heimili ömmu og afa var ætíð mjög mannmargt. Nafnið Lilla festist við Hörn þar sem hún var yngst á heimili ömmu og afa ásamt nokkrum af systkinum mömmu.
Vögguljóð sem Guðríður amma orti til Harnar:
Leggstu nú á litla koddann þinn.
Láttu ekki tárið væta kinn.
Amma situr sinni elsku hjá,
sussar, raular uns þú lokar brá.
Ég man söguna sem Lilla sagði mér þegar pabbi gerði hosur sínar grænar fyrir mömmu. Hún sagði mér að hann hefði verið einstaklega smart í tauinu og kom á flottum bíl þegar hann bauð mömmu í bíltúr. Pabbi og Lilla áttu alla tíð mjög kært samband, hann lá ekki á hrósi í hennar garð þegar það átti við og skilningur var ætíð þeirra á milli. Lilla varð stúdent frá MA en þar kynntist hún æskuástinni sinni Gunnari Ragnars, ættuðum frá Siglufirði. Þau giftu sig á Hólum í Hjaltadal 24. júní 1960. Pabbi og mamma fóru keyrandi norður á brúna Chevrolettinum sem var með vængjunum en það kom kuldahret og snjóaði niður í miðjar hlíðar og það í júnímánuði. Margar skemmtilegar myndir voru teknar í þessari ferð bæði af kuldalegu landslagi og úr brúðkaupinu en minnisstæðust er myndin af þeim Lillu og Gunnari standandi á kirkjutröppunum nýgiftum og sælum.
Mamma og Lilla áttu börn með nokkurra ára millibili sem varð til þess að þær voru saman í barnastússi í nokkurn tíma, Ágústa fæddist 1960 og Óli 1963 en Einar Þór var fæddur 1958. Ég man hvað Gunnari fannst sniðugt að segja frá því að hann gæti haldið á mági sínum í fanginu.
Lilla var kennari til margra ára og kenndi m.a. í Öskjuhlíðarskóla og var þar mjög vel liðin og elskuð af mörgum nemendum sínum. Síðar tók hún að sér að fara með hópa á enskuskóla í Skotlandi. Þórhallur Árni sonur okkar hjóna var svo lánsamur að vera með í hópi á hennar vegum þegar hann var tólf ára ásamt Úlfhildi Eysteinsdóttur yngstu dóttur Lillu en það er aðeins er eitt ár á milli þeirra.
Árið 2013 kom Lilla systir ásamt þáverandi sambýlismanni sínum Matthíasi Matthíassyni frá Hrísey með mér, fjölskyldu minni og vinum til Tenerife sem var sextugsafmælisferðin mín. Þessi ferð var okkur systrum einstaklega gefandi og skemmtileg í alla staði og er ég ævinlega mjög þakklát fyrir að hún og Matti skyldu koma með. Lífið var yndislegt þarna í sólinni og hitanum og ég hef sjaldan séð hana systur mína eins káta og glaða. Lilla átti góðan tíma með Matthíasi á Dalvík og virtist una hag sínum þar vel. Matthías lést 2015.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Guð geymi þig elsku stóra systir.
Sigríður Þórhallsdóttir.
Hörn systir mín, ávallt kölluð Lilla, var elst okkar fimm systkinanna. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Foreldrar okkar fóru norður til að fagna útskrift hennar. Faðir minn tók myndir og ég man að ég var montin af stóru systur minni með stúdentshúfuna. Skömmu seinna var hún komin til Reykjavíkur og þá með kærasta sem okkur fjölskyldunni leist vel á. Lillu var tónlist í blóð borin og gat hún spilað á gítar nánast hvað sem var og er mér minnisstætt þegar hún spilaði í sumarbústað okkar á Þingvöllum og öll sungum við með.
Þegar eldri börn hennar, Ágústa og síðan Ólafur, voru lítil og ég komin á unglingsárin varð ég barnapía númer eitt. Mér fannst þetta mjög gaman enda voru þau bæði hlýðin og skemmtileg. Ég leit á stóru systur mína Lillu sem sanna kvenhetju og lærði ég margt af henni sem ekki verður af bókum lært.
Þórunn Þórhallsdóttir.