Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Borgarráð hefur samþykkt samkomulag Reykjavíkurborgar við Eik fasteignafélag hf. um uppbyggingu á Skeifunni 7 og Skeifunni 9. Lóðirnar eru á milli Skeifunnar og Suðurlandsbrautar.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hafði tekið jákvætt í fyrirspurn um málið í ágúst 2023.
Er þetta samkomulag í samræmi við stefnu í aðalskipulagi um uppbyggingu og umbreytingu iðnaðar- og verslunarhverfis í blandaða byggð, sem þjónað verði með hágæða almenningssamgöngum og öðrum vistvænum fararmátum eins og það er orðað.
Í rammaskipulagi Skeifunnar er gert ráð fyrir 750 nýjum íbúðum á svæðinu og um 190 þúsund fermetrum undir verslun og þjónustu. Miðað við þær forsendur þurfi bílastæði að verða um 2.000 talsins á Skeifusvæðinu.
Uppbygging í Skeifunni og nágrenni er hafin fyrir nokkru, t.d. á Orkureit og Grensásvegi 1. Áformað er að hefja uppbyggingu á fleiri reitum. Til að mynda hafa verið kynntar hugmyndir að íbúðabyggð á lóðinni Suðurlandsbraut 56. Á lóðinni stendur 715 fermetra veitingahús sem upphaflega var reist fyrir hamborgarastaðinn McDonalds en hýsir nú veitingastaðinn Metro.
Á lóðunum tveimur viið Skeifuna standa nú tvö hús sem þurfa að víkja. Í Skeifunni 7, reist 1967, var Elko með verslun um árabil en henni var lokað og ný verslun opnuð á öðrum stað í hverfinu. Og í Skeifunni 9, reist 1979, var Bílaleiga Akureyrar með höfuðstöðvar þar til þær voru fluttar í Skútuvog fyrir nokkru. Samanlögð stærð húsanna sem rifin verða er 5.775 fermetrar.
Í bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. desember 2024, sem lagt var fyrir borgarráð, kemur fram að í vinnslu sé nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar. Gert er ráð fyrir niðurrifi á byggingum sem fyrir eru á lóðunum sökum lélegs ástands þeirra. Deiliskipulagstillagan er unnin af Kanon arkitektum.
Á nýrri sameinaðri lóð við Skeifuna verði heimilt að reisa nýbyggingu, allt að 35.428 fermetrum (m2) að stærð (ofan- og neðanjarðar, A- og B-rými), með 200 íbúðum og atvinnuhúsnæði. Byggingar verði 4-8 hæða. Gera má ráð fyrir allt að 215 bílastæðum á skipulagssvæðinu. Stærstur hluti þeirra skal vera í kjallara.
Í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar er samið um að lóðarhafi skuldbindi sig til þess að leggja til tiltekna fjárhæð til listsköpunar sem og að Félagsbústaðir hf. eigi kauprétt á íbúðum sem verða byggðar. Gert er ráð fyrir því að þær verði 10.
Samkvæmt samkomulaginu skal lóðarhafi annast og bera kostnað af öllum undirbúningi, hönnun og framkvæmdum vegna almenningsrýma eins og þau eru skilgreind sem og vegna göngu- og hjólabrúar. Þá skal lóðarhafi bera kostnað af öllum undirbúningi, hönnun og framkvæmdum á götum Skeifunnar sem nauðsynlegar reynast.
Fram kemur að Reykjavíkurborg eigi takmarkað land í Skeifunni sem setji skorður á möguleika borgarinnar til að uppfylla þær þjónustuþarfir sem fylgja uppbyggingu á lóðum og byggingu íbúða. Í samkomulaginu kemur fram að lóðarhafi skuldbindi sig til þess að hafa samvinnu um það við aðra lóðarhafa hvernig hægt sé að tryggja fullnægjandi þjónustu fyrir bæði nýja íbúa hverfisins og fjölgun gesta, s.s. húsnæði fyrir leikskóla, grenndarstöðvar fyrir endurvinnslu úrgangs, samnýtanleg bílastæði, gróðursæl dvalarsvæði fyrir almenning o.s.frv.
Í samkomulaginu sé ekki skuldbinding af hálfu Reykjavíkurborgar hvað varðar rekstur leikskóla.