Bækur
Steinþór
Guðbjartsson
Eva Björg Ægisdóttir hefur skrifað góðar glæpasögur og sú nýjasta, Kvöldið sem hún hvarf, er mikið meira en það. Höfundur tekur á mannlífinu frá ýmsum hliðum og skoðar það frá mismunandi sjónarhornum, ekki síst með siðfræði, sálarfræði, félagsfræði og erfðir í huga. Ofbeldið er aldrei langt undan, en kærleikurinn leynir sér samt ekki, þó ekki gangi allir alltaf í sömu átt í þeim efnum.
Titillinn vísar í hvarf Sólrúnar Sveinsdóttur á Akranesi haustið 2015 en líkamsleifar hennar finnast fyrir tilviljun á eyðibýli í Hvalfjarðarsveit sex árum síðar. Á sama stað eru bein og höfuðkúpa af barni. Rannsókn lögreglunnar beinist í margar áttir, en lengi vel virðast blindgöturnar vera jafn margar. Jafnvel Karitas, sem flytur með Bessa, fjögurra ára syni sínum, frá Reykjavík til Akraness, á erfitt með að finna nýja húsnæðið, sem er við litla botnlangagötu. Áður hafði verið litið á óvænt hvarf Sólrúnar sem sjálfsvíg og málið látið niður falla, en Elma hjá lögreglunni gefst ekki upp, fetar einstigið jafnt og þétt og finnur leiðina út úr völundarhúsinu.
Sagan er margslungin og margar persónur auðvelda ekki málið. Í hnotskurn má segja að um sé að ræða frásögn af lífi frá getnaði til dauða. Flóknara verður það varla, en Evu Björgu tekst að tengja ólíka þætti mannlífsins og rétt eins og nýtt líf kviknar út frá einum dropa þarf ekki mikið til að eyða því, jafnvel ekki nema eina pillu. Eina litla gula pillu, sem kallast á við sólirnar þrjár í huga Baldvins; dótturina Heiðdísi Sunnu, Sólrúnu og Karitas Sól. Afdrif Sólrúnar eru ljós, andi Heiðdísar svífur yfir í húsi Baldvins, þó hún sé hvergi sjáanleg og fjarvera hennar í byrjun ekki skýrð fyrr en líður á söguna, og framtíð Karitasar er óviss, þó hún eigi sér draum um ánægjulegt fjölskyldulíf.
Kvöldið sem hún hvarf hefst á hugrenningum ónefndrar persónu um myrkfælni í æsku, hættuleg skrímsli. Þau koma síðan fyrir aftur og aftur í ýmsum myndum í sögunni, birtast jafnvel upp úr þurru, þegar enginn á von á þeim, eru eins og úlfur í sauðargæru. Þessi óhugnaður ágerist eftir því sem á líður og það sem er slétt og fellt á yfirborðinu er aðeins önnur hliðin á peningnum. Hin hliðin getur verið óhugnanlegri en orð fá lýst. Helstu persónur gefa sögunni enn meiri vigt, hver á sinn hátt.
Hætturnar leynast víða og í fámenninu er mikið pískrað um mann og annan. Þeir sem eru öðruvísi verða fyrir barðinu á kjaftasögum, lygin á það til að hlaða upp á sig og áður en nokkur veit er ein fjöður orðin að fimm hænum. Sumir geta hrist af sér slúðrið og staðið teinréttir en aðrir bogna og jafnvel brotna undan álaginu, aðfinnslunum og þrýstingnum og trúa jafnvel sögunum að lokum. Lífið er ekki allra og í sumum tilfellum má þakka fyrir að getnaður verði ekki til þess að líf kvikni.
Þó kærleikurinn og ástin ráði víða ríkjum, ekki síst við fæðingu barns, getur sami viðburður virkað öfugt, ekki síst þar sem ofbeldi kemur við sögu. Þegar rannsókn Elmu og félaga hefst eftir beinafundinn og hulunni er svipt af persónum, sem eru til skoðunar, kemur í ljós hvað ofbeldið er víða. Heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, andlegt ofbeldi. Það hreinlega tröllríður mörgum fjölskyldum og leggur heimili í rúst. Tvöfeldnin er líka með ólíkindum að ekki sé talað um lygina og meðvirknina. Þegar öll kurl koma til grafar getur fallið orðið hátt.
Ólíklegasta fólk hefur eitthvað að fela og því gengur misjafnlega að burðast með byrðarnar. Hjónaband Elmu og Sævars er ekki eins tryggt og það virðist vera og þar telur Elma að gömlum syndum eiginmannsins sé um að kenna. Hún fer að hnýsast í einkamál hans, kemst að ýmsu og fyllist reiði. Þegar sannleikurinn kemur í ljós er ljóst að misklíðin hefur verið byggð á misskilningi og allt fellur í ljúfa löð. Mikilvægi sannleikans er kannski helsti boðskapur sögunnar. Að standa með sjálfum sér og virkja hið góða í sátt og sannleika við aðra.
Elma er í stóru hlutverki en á bókarkápu er henni ruglað við lögreglukonuna Emblu. Frekar neyðarlegt, en ekki við Evu Björgu að sakast og breytir engu um ágæti bókarinnar.