Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Ákveðið hefur verið að setja á fót spretthóp sem hafi samráð við fulltrúa sundlaugargesta varðandi fyrirkomulag gufubaðsþjónustu í sundlaugum Reykjavíkurborgar.
Hópurinn fær skamman tíma eins og nafnið bendir til og á að skila tillögum innan tveggja mánaða.
Gufubaðsmenning Reykvíkinga komst í fréttirnar sl. haust vegna nýrra reglna sem settar voru á nokkrum sundstöðum.
Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins kom fram að ákvörðun um kynjaskiptingu gufubaða fari eftir aðstöðu í hverri sundlaug og séu þau stundum kynjaskipt og stundum ekki.
Á síðasta fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs lögðu fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar fram tillöguna um spretthóp.
Segja fulltrúarnir í bókun að nokkur umræða hafi skapast um breytingar á sánuaðstöðu í Breiðholtslaug og Vesturbæjarlaug undanfarnar vikur og mánuði. Sundlaugargestir hafi viljað meira samráð varðandi þessar framkvæmdir og fyrirkomulag þjónustunnar og sé sjálfsagt að verða við því.
Mismunandi sjónarmið
„Þess vegna leggur meirihlutinn nú fram tillögu um skipan spretthóps sem beiti sér fyrir samráði við sundlaugargesti um hvernig best verði staðið að fyrirkomulagi sánubaðsþjónustu í sundlaugum borgarinnar með það að markmiði að leita leiða til að koma til móts við mismunandi sjónarmið.“
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að mjög mismunandi framboð er á gufubaðsþjónustu í átta sundlaugum Reykjavíkur, bæði með tilliti til tegunda en einnig hvað varðar aðgengi eftir kynjum.
Aðeins Grafarvogslaug býður upp á allar þrjár tegundir gufubaða, eimbað, sánu og infrarauðan klefa. Fjórar laugar bjóða upp á tvo valkosti og þrjár upp á einn valkost.
Nýliðið sumar voru gerðar breytingar á umgengnisreglum og sturtusvæði í Breiðholtslaug eftir opnun á endurnýjuðum þurrgufuböðum þar.
Ábendingar sem bárust frá viðskiptavinum í kjölfarið sýndu fram á að ekki liggur fyrir formleg stefna um fyrirkomulag gufubaðsþjónustu né eru samræmdar umgengnisreglur, segir í greinargerðinni.
Nefnt hafi verið að fyrirkomulagið í sundlaugum borgarinnar virðist á köflum tilviljanakennt og eru gufuböð í Grafarvogslaug dæmi um það þar sem þau voru sett upp í gegnum „„Betra hverfi“ og að því er virðist án samráðs við menningar- og íþróttasvið ( ÍTR). Þarfir íbúa sem endurspeglast í tillögum um „Betra hverfi“ hafi einnig sýnt fram á stóraukna eftirspurn eftir infrarauðum gufum.
„Nýlega þurfti að loka þurrsánu karla í Vesturbæjarlaug þar sem fyrirhugað er nauðsynlegt viðhald á elsta hluta laugarinnar. Vegna þessa var þurrgufu kvenna breytt í þurrgufu fyrir öll kyn. Þá hófst umræða meðal gesta um að í framtíðinni yrði mögulega ekki boðið áfram upp á sérstaka karla og kvenna þurrgufur. Ábendingar sem bárust frá viðskiptavinum í kjölfarið sýndu fram á að það þarf líka að líta til sjónamiða varðandi aðgengi fyrir kynin,“ segir m.a.í greinargerðinni.