Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Hafnarfjarðarbær hefur gert ráð fyrir milljarði króna í greiðslu fyrir knatthúsið Skessuna í fjárhagsáætlun árið 2025. FH skuldar hins vegar tæpar 1.200 milljónir króna í tengslum við byggingu hússins. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte verðmetur það á um 1,5 milljarða króna.
FH hafði um 790 milljónir króna á milli handanna þegar bygging hússins hófst. Heildarkostnaður endaði hins vegar í rúmlega 1,5 milljörðum króna. Getur félagið ekki staðið skil á lántöku vegna byggingar hússins.
Enginn vill að FH fari í þrot
Eins og fram hefur komið var fjármálaóreiða í bókhaldi við byggingu Skessunnar. Þá hefur félagið óskað eftir því að Hafnarfjarðarbær kaupi húsið og yfirtaki rekstur þess.
Meðal annars kom fram að Jón Rúnar Halldórsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar, hefði séð félaginu fyrir stálgrind og dúk í gegnum félag sitt Best hús og Viðar Halldórsson formaður félagsins fengið greiðslu fyrir umsjón verksins.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar segir engan vilja sjá þetta gamalgróna og öfluga félag fara í þrot og segir bæinn viljugan til þess að eignast og taka við rekstri Skessunnar. Hins vegar vilji bærinn ekki greiða uppsett verðmat Deloitte fyrir húsið.
„Það er um ár síðan við hófum þessar samningaviðræður. Þá leituðu þeir til okkar, sem var kannski svolítið seint ef miðað er við aðstæður, og þessar viðræður hafa staðið yfir síðan þá,“ segir Rósa við mbl.is.
Segir hún að í samningaviðræðum hafi komið fram að ýmsar tölur í bókhaldinu voru án skýringa og var það hvatinn að því að gerð var óháð greining á ráðstöfun fjármuna við framkvæmd byggingar hússins.
Nánar er fjallað um málið á mbl.is.
Skessan í skuld
Ákveðið var að byggja Skessuna árið 2018.
Hafnarfjarðarbær keypti aðrar húseignir FH; Dverginn, Risann og handboltahúsið, og félagið fékk andvirðið til að byggja Skessuna.
FH fékk 790 milljónir kr. fyrir eignirnar, sem bærinn taldi að ætti að duga fyrir nýju knatthúsi, Skessunni.
Kostnaðurinn endaði hins vegar í 1,5 milljörðum og fyrir ári leitaði FH aftur til bæjarins.