Fasteignaverð Hagfræðingur segir að þegar lóðir séu takmarkaðar þá vilji byggingaraðilar byggja dýrar íbúðir til að metta þann markað.
Fasteignaverð Hagfræðingur segir að þegar lóðir séu takmarkaðar þá vilji byggingaraðilar byggja dýrar íbúðir til að metta þann markað. — Morgunblaðið/Karitas
Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mældist 10,6% í nóvember en til samanburðar mældist hún 8,7% í október. Þetta kemur fram í tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Mánaðarhækkun vísitölu íbúðaverðs var 0,83% í nóvember en hún var 0,18% í október

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mældist 10,6% í nóvember en til samanburðar mældist hún 8,7% í október. Þetta kemur fram í tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Mánaðarhækkun vísitölu íbúðaverðs var 0,83% í nóvember en hún var 0,18% í október. Á síðustu þremur mánuðum hefur vísitalan hækkað um 0,7%, en það gerir 3% hækkun á ársgrundvelli.

Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 2,32% milli mánaða og nemur tólf mánaða breytingin um 12,33%. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 0,28% milli mánaða og nemur 12 mánaða breytingin 7,3%.

Grindavík hafi enn áhrif

Sérbýli á landsbyggðinni lækkuðu um -1,24% milli mánaða en 12 mánaða, breyting 15,15%. Fjölbýli á landsbyggðinni hækkuðu um 2,53% milli mánaða en 12 mánaða breytingin þar nemur 10,64%.

Kári S. Friðriksson hagfræðingur í Arion greiningu segir að enn séu töluverðar hækkanir í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og þá sérstaklega í sérbýli.

„Mig grunar að þarna sé enn um að ræða einhver áhrif af Grindavík. Þá er mögulegt, án þess að ég geti fullyrt nokkuð um það, að fólk sem ráði ekki við kaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu sé farið að leita í auknum mæli í nágrannasveitarfélögin,“ segir Kári.

Dýrar íbúðir seljast illa

Hann bætir við að meginvandamálið á höfuðborgarsvæðinu hafi verið skipulagsmálin. Margar nýjar og dýrar íbúðir hafi selst illa.

„Þetta er afleiðing af því að lóðir hafa verið af skornum skammti og þegar lóðir eru takmarkaðar þá vilja byggingaraðilar byggja þessar dýru íbúðir til að metta þann markað. Þessar nýju íbúðir eru oft á tíðum ekki með bílastæðum og margir kaupendur setja það fyrir sig. Þetta veldur því að erfiðlega gengur að selja þessar íbúðir,“ segir Kári og bætir við að klárlega sé þörf á meira framboði af hagkvæmum íbúðum og áhyggjuefni sé hversu lítið sé byggt af þeim.

Spurður um horfurnar segir Kári að hann búist við því að fasteignamarkaðurinn verði hægur á næstunni.

„Markaðurinn mun verða áfram hægur meðan stýrivextir eru háir og verðtryggðir vextir verða einnig háir. Þegar slakað verður á peningastefnunni og raunvextir fara að lækka mun markaðurinn taka við sér. Við gerum ráð fyrir að það verði næsta haust. Við munum sjá raunverðslækkanir á næsta ári,“ segir Kári að lokum.

Fasteignaverð

Árshækkun vísitölu íbúðaverðs 10,6% í nóvember.

Margar nýjar og dýrar íbúðir hafa selst illa.

Hagfræðingur segir skipulagsmálin meginvandamálið.

Býst við raunverðslækkunum á næsta ári.

Markaðurinn taki við sér næsta haust.