Edda Gunnlaugsdóttir
eddag@mbl.is
Lopedro er nýtt hönnunarfyrirtæki í eigu Loga Pedro Stefánssonar, sem leit dagsins ljós fyrir aðeins nokkrum vikum. Logi er vöruhönnuður úr Listaháskóla Íslands og hefur starfað við hönnun síðan hann útskrifaðist. Hann fann þó alltaf fyrir sterkri löngun til að búa til hluti og fann sig knúinn til að stofna eigið fyrirtæki hér á landi.
„Ég hef verið að starfa sem hönnuður síðan ég útskrifaðist og var einhvern veginn alltaf hlutbundinn í mínu námi. Vöruhönnunarnám á Íslandi er oft út frá rannsóknum og minna verið að framleiða dót. En ég var alltaf með þannig sterka taug í skólanum og núna þegar ég er búinn að vera að vinna sem hönnuður vildi ég gera meira af því sem ég hef áhuga á. Til þess að geta gert það þurfti ég að stofna þetta vörumerki,“ segir hann.
„Það er erfitt að fá fjarvinnu sem vöruhönnuður, það er eiginlega ekki í boði. Það þarf að vera í stúdíóinu að vinna með efni og ég er bara hluti af nútímasamfélagi, með barn á tveimur heimilum, svo ég ætlaði ekki að fara til annars lands að elta þann draum að vinna við þetta. Svo þannig er staðan, ég bara stofnaði fyrirtæki.“ Mikil hugsun hefur verið lögð í verkefnið á liðnu ári og segir hann pláss á markaðnum fyrir vörumerki eins og hans. „Fagurfræðilega er þetta líka eitthvað sem hægt er að bjóða fólki upp á.“
Fyrsta varan sem varð til er lampinn. „Það er mikið rannsóknarferli að setja saman svona lampa, út frá framleiðslu sérstaklega. Hvernig er hentugt að hanna vöru fyrir framleiðsluna svo það sé hægt að framleiða? Svo er það líka hvaða form hann tekur á sig. Þetta var auðvitað smá tilraunastarfsemi fyrst,“ segir Logi og bætir því við að út frá því ferli hafi sprottið fram fleiri hugmyndir og pælingar.
Út frá vinnunni var hann kominn með grunnform sem birtist í öðrum vörum frá merkinu. „Þetta er nánast þríhyrningur úr hringum, sem er klassískt form í formfræðum. Þetta birtist í samfélögum úti um allan heim og er skemmtilegur grunnur að vinna með. Einhvers konar heilög þrenning sem talar til mannfólks.“
Hann ítrekar að markmiðið sé að búa til vörumerki sem ýtir við mörkunum hjá fólki, eitthvað sem fólk hefur ekki séð áður en er tilbúið að hafa heima hjá sér. „Ég var líka að reyna að forðast þetta drapplitaða, forðast sama gamla. Það er oft verið að reyna að tala inn í einhverja fagurfræði í stað þess að varpa ljósi á nýja.“
Litirnir og hönnunin eru eitthvað sem er bæði nýtt og ferskt, hvaðan kemur það?
„Persónulega finnst mér línan ekki vera neitt mikið „out there“ en ég átta mig samt á því að þegar maður er að bera þetta fram á borð þá hefur fólk orð á því að þetta sé rautt,“ svarar hann og hlær örlítið við. „Fólki finnst skrýtið að sjá liti en ég er svo vanur því að vinna með liti.“
Áhrifin sem hann verður fyrir í hönnuninni koma meðal annars frá skandinavískum og evrópskum hönnunarfyrirtækjum. „Það sem ég er að átta mig á er að tískan og það sem mér finnst vera í tísku er kannski ekki í tísku á Íslandi. Það eru alls konar tilvísanir í húsgagnamerki sem ég fylgist með og ég er mikið að spá í það sem er að gerast annars staðar. Í Skandinavíu og í Evrópu er fólk farið að leika sér með form og liti aftur,“ segir Logi.
Verður ekki að ögra sjálfum sér sem hönnuður?
„Fólk er oft með á heilanum að hönnun verði að leysa eitthvert hlutverk en það þarf líka að átta sig á því að eitt af sterkustu hlutverkum hönnunar er það sem við tökum og notum til að tjá hver við erum, hvernig okkur líður og hvernig við horfum á heiminn. Við gerum það oft út frá formi frekar en virkni. Við kaupum jakka í ákveðnum lit því hann talar til okkar frekar en að hann sé úr GoreTex til dæmis.“
Hættum aldrei að framleiða
Hann segir ákveðna hræðslu í hönnunarsamfélaginu á Íslandi við að búa til vörur. „Ég segi þetta með miklum kærleika en það eru kannski tíu vöruhönnuðir sem útskrifast úr Listaháskólanum en aðeins einn til tveir sem fara að vinna við einhvers konar vöruhönnun. Hluti af því er að við búum í heimi sem er mjög skrýtinn og á miklum tímamótum. Við erum meðvituð um umhverfissporið en á sama tíma, ef það eru ekki hönnuðir að hanna hluti þá gera það einhverjir aðrir. Við hættum aldrei að framleiða hluti svo ég held að það sé sterkari umhverfisstefna að hanna hluti sem raunverulega tala til fólks. Hanna þá frekar út frá sjálfbærum framleiðsluaðferðum og leyfa fólki að kaupa hluti sem því þykir raunverulega vænt um. Það geti jafnvel sagt úr hvaða línu hluturinn er og hvaða pælingar eru að baki.“
Hvenær fékkstu þá hugmynd að gera þetta bara sjálfur?
„Þetta byrjaði með því að ég var að gera prótótýpur af lampanum og það var meira svona æfing. Ég hafði verið að vinna í hönnunarverkefnum í fyrra og kláraði verkefnin mín í desember. Ég ákvað að eyða mánuðinum í að byrja að gera þessa lampa og það var fjör,“ svarar hann.
Vinur hans Aron Kristinn Jónasson hvatti hann til að fara að selja lampana. „Hann gerðist TikTok-stjarna á nokkrum vikum og sagði við mig að ég yrði að birta myndskeið af lampanum og fara að selja þessa lampa. Ég gerði það hálftilneyddur og seldi tvö upplög af lömpum sem voru þá einhvers konar ljósaskúlptúrar. Í kjölfarið fór ég í viðræður við hönnunarfyrirtæki um að framleiða hluti sem ég hafði verið að gera. Það er mikið ferli að byggja upp ferilskrá sem hönnuður. En þetta tekur allt tíma og ég fattaði þá að ég yrði að gera þetta sjálfur. Ég hugsaði að ég gæti raunverulega gert þetta.“
Í fullu námi meðfram rekstrinum
Hann skráði sig einnig í mastersnám í menningarstjórnun sem hann játar að hafi ekkert endilega verið besta hugmynd í heimi. „Ég fer í námið með það í huga að ég sé að stofna fyrirtæki og ætla að reyna að strúktúra námið í gegnum þetta ferli. Ég var að klára fyrstu önnina, það var næs en líka smá vitleysa að skrá sig í meistaranám meðfram þessu. En þetta gekk og var gaman. Ég náði að sinna sumum verkefnum betur en öðrum en á endanum hafðist þetta. Það var verðmætt að setjast niður og þurfa að gera markaðsgreiningar, viðskiptaáætlanir og strúktúra hluti fram í tímann. Það var líka gott að vera með fólki sem bendir á hvað þarf að gera betur og hvað ekki.“
Hverjar voru helstu áskoranirnar sem þú stóðst frammi fyrir?
„Fjármagn. Maður þarf að fjármagna mikið sjálfur og var ekki að leita eftir fjárfestum í verkefnið. Ég varð að setja upp verkstæði þar sem ég gat framleitt lampana og bakkana. Þá þurfti ég mikinn tækjabúnað sem ég varð að kaupa inn, svo var það húsaleiga og allt annað. Hitt var að finna rétta framleiðendur, búa til mörkunina og strúktúra sölukerfin,“ segir hann.
Í dag selur hann vörurnar á eigin heimasíðu, í Húrra Reykjavík og í Epal.
„Ég er með ákveðnar pælingar. Mig langar að þetta merki sé staðsett inni í tískuverslunum en sú hugmynd hefur orðið til síðustu ár. Við sjáum meiri gjafavöru inni í hátískuverslunum en hugmyndin var að einblína á þann markað erlendis. Það er ástæðan fyrir því að ég talaði við Húrra og fór þangað inn. Þeir eru með gjafavöru líka og hafa mikla reynslu af þessum smásölumarkaði sem ég stefni á. Svo er ég í Epal því það er heimili íslenskrar hönnunar.“
Framleiðslan á hlutunum hans fer ekki fram á mörgum stöðum en hann framleiðir meirihlutann af vörunum sjálfur á eigin verkstæði. Keramikið er unnið í bænum sem hann fæddist í, í Portúgal, og íslenskur textílframleiðandi sér um ullarteppið.
Sem hönnuður á Íslandi hefurðu væntanlega kynnst því að þú þurfir að bera marga hatta?
„Það er stóri skellurinn í þessu,“ svarar hann og hlær. „Maður þarf að setja upp markaðsplanið, Facebook-auglýsingarnar og keyra áfram mörkunarvinnuna. En það þarf að halda um taumana í öllu ferlinu og vera með 360° nálgun. Á allt. Það er rými til að gera eitthvað einstakt og þegar maður er með ákveðna sýn getur maður keyrt hana áfram á öllum vígstöðvum. Á sama tíma er það líka ótrúlega þreytandi.“
Hann segist vera mjög heppinn með fólkið í kringum sig. „Það er tilbúið að hjálpa manni alltaf og við leggjum mikið upp úr því við vinirnir að vera tilbúnir að aðstoða í svona verkefnum. Það munar um það. Þegar átti að setja upp Facebook-auglýsingar til dæmis, forrita það og birta á samfélagsmiðlum þá fékk ég mikla hjálp frá Pétri Kiernan, heilanum á bak við Metta Sport, sem hefur náð miklum árangri í markaðssetningu og framleiðslu. Aron Kristinn vinur minn er mjög naskur á hvað snertir við fólki og svo er það auðvitað Arnar Már Jónsson sem ég hef unnið með, hann er mjög reynslumikill og fær hönnuður. Það er gott að geta leitað til hans því hann hefur mikla reynslu af þessum bransa.“
Hvað er fram undan?
„Meiri vöruþróun og ég ætla að kynna nokkrar vörur til viðbótar í kringum HönnunarMars. Stefnan er auðvitað líka sett út og ég er með áætlanir og er í samtali við nokkrar verslanir í Skandinavíu. Planið er að byggja merkið upp hægt og rólega en það verður „presence“ á árinu 2025. En svo er raunverulega planið bara að búa til vörur sem fólki má þykja vænt um fyrst og fremst og það er það sem mig langar til að gera. Búa til aðgengilegar vörur á samkeppnishæfu verði sem meikar sens fyrir alla. Ég er að reyna að bjóða fólki upp á vörur sem eru ekki eitthvert svindl, ekki eitthvað ódýrt, heldur er ég að bjóða upp á gæði.“
Hann hefur mikið hugsað til ungs fólks sem er að hefja búskap. „Ég vil búa til vörur sem fólk getur keypt inn á heimilið án þess að þurfa að taka raðgreiðslur á kreditkortið. Mér finnst svo mikilvægt að fólk hafi tóm til að búa sér til fallegt umhverfi. Við erum með búð eins og Ikea sem er geggjað fyrirbæri, þar ertu búinn að lýðræðisvæða hönnun og sama hvar þú ert í samfélaginu geturðu farið inn í þá verslun og keypt eitthvað við þitt hæfi. En mig langar að gefa ungu fólki færi á að kaupa eitthvað sem því þykir raunverulega vænt um, er ekki framleitt í milljónatali og það getur verið stolt af inni á heimilinu,“ útskýrir hann.
„Ég er með svo sterka minningu um lampann sem pabbi minn fékk í fermingargjöf og fylgdi honum alltaf. Þetta var bara venjulegur skrifstofulampi. En fyrir fimmtíu eða sextíu árum voru hlutir og húsgögn framleidd á allt annan hátt. Fólk hélt raunverulega upp á hlutina sína og mig langar að endurvekja það.“