Ingvar Georg Ormsson fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1922. Hann lést á Hrafnistu Nesvöllum 7. desember 2024.

Foreldrar Georgs voru Ormur Ormsson, f. 4. mars 1891, d. 26. des. 1965, og kona hans, Helga Kristmundardóttir húsfreyja frá Hólshúsi, f. 19. des. 1897, d. 3. maí 1977.

Systkini Georgs: Hrefna (látin), maki Þórður Guðjónsson (látinn); Ormur Guðjón (látinn), maki Sveinbjörg Jónsdóttir (látin); Vilborg (látin), maki Guðmundur Sveinsson (látinn); Sverrir (látinn), maki Dadda Sigríður Ámadóttir; Þórir Valdimar (látinn), maki Júlíana Hálfdánardóttir; Helgi Kristmundur (látinn), maki Þuríður Hulda Sveinsdóttir (látin); Karl Jóhann (látinn), maki Ásta Björg Ólafsdóttir (látin); Sveinn Ólafsson, maki Anna Pála Sigurðardóttir; Gróa (látin), maki Páll Steinar Bjarnason (látinn); Guðrún (látin), maki Gísli Kristjánsson (látinn); Árni Einar, maki Halldóra Marinósdóttir.

Eiginkona Georgs var Ágústa Randrup, f. í Hafnarfirði 11. október 1927, d. 12. nóvember 2013. Foreldrar hennar voru Emil Randrup, f. 16. maí 1888, d. 29. nóvember 1969 og Ögn Guðmundsdóttir, f. 7. september 1892, d. 6. nóvember 1989, þau skildu.

Georg og Ágústa eignuðust sex börn en einnig ólst upp hjá þeim Örn sonur Ágústu. Börnin eru: 1) Örn Randrup, f. 15.1. 1945, d. 10.6. 2015, verkamaður í Keflavík, maki Petrína Bára Árnadóttir, d. 22.5. 2020, þau áttu tvö börn, fyrri kona hans var Margrét Júlíusdóttir og áttu þau þrjú börn, þau skildu. 2) Ormur Þórir, f. 3.7. 1949, maki Lilja Kozlova, fyrri kona hans var Valgerður Reynaldsdóttir og eiga þau þrjú börn, þau skildu. 3) Ólafur, f. 16.11. 1953, kona hans er Sigurjóna Hauksdóttir og eiga þau fjögur börn. 4) Emil Ágúst, f. 21.1. 1955, maki Ásta Gunnarsdóttir og eiga þau fjögur börn. 5) Sigríður Helga, f. 27.11. 1959, maki hennar er Svavar Gunnarsson og eignuðust fjögur börn en eitt er látið. 6) Agnes Fjóla, f. 31.12. 1962, maki Sigurður Kristinsson og eiga þau þrjú börn. 7) Ingvar Georg, f. 17.4. 1968, sambýliskona Ása Hrund Sigurjónsdóttir, fyrri kona hans Herdís Halldórsdóttir og eiga þau þrjú börn, þau skildu.

Georg fæddist í Reykjavík og ólst þar upp til níu ára aldurs en flutti þá með fjölskyldu sinni vestur á Snæfellsnes og bjó þar til fullorðinsára. Hann lauk námi í vélvirkjun í Vélsmiðjunni Héðni 1948. Georg starfaði síðar í eitt ár hjá Vélsmiðju Hafnarfjarðar. Árið 1950 flutti hann til Keflavíkur og setti þar upp eigið bílaverkstæði en stundaði jafnframt leigubílaakstur. Hann var einnig til sjós öðru hvoru í millilandasiglingum. Þá stóð hann að því að kaupa togarann Surprice sem strandaði á Landeyjasandi haustið 1968 og vann að því að bjarga úr honum verðmætum. Georg hóf störf hjá Bátaradíói Keflavíkur 1979 og starfaði þar til 1987 en ók leigubíl eftir það til 75 ára. Þá voru Georg og Ágústa kona hans umboðsmenn Vísis og síðan DV í Keflavík um áratugi. Georg sat í stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Keflavík, í stjórn bílstjórafélagsins Fylkis, í stjórn SBK og BSÍ ásamt öðrum félagsstörfum.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 19. desember 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi. Hvað getur maður sagt um mann sem hefur lifað í 102 ár? Hann var með stórt hjarta og vildi allt fyrir alla gera. Ávallt var hann tilbúinn að leiðbeina manni hvort sem það var á verkstæðinu eða í lífinu. Eftir annasaman dag var gott fyrir ungan dreng að kúra í kjöltu pabba og horfa saman á sjónvarpið. Hann var mikill dýravinur og hugsaði vel um gæludýrin okkar. Pabbi var mikill snyrtipinni og ávallt vel til fara og alltaf með bindi og það var erfitt fyrir hann þegar hann missti þann eiginleika að binda bindishnút. Þegar ég varð hræddur á yngri árum þá tók hann alltaf utan um mig og útskýrði að það þyrfti ekkert að hræðast því að hann væri hjá mér, ég var alltaf í öruggum höndum hjá pabba. Honum þótti mjög gaman að spila og það var mjög erfitt fyrir hann þegar hann missti þann eiginleika. Hann kenndi mér bæði bridge og skák, hann var líka góður spilamaður, það var erfitt að vinna hann.

Ég tók nokkur viðtöl við hann og tók þau upp. Þessi viðtöl eru mér dýrmæt í dag. Þar nefnir hann æsku sína, hvar hann fæddist, þegar hann var í sveit í Höfnum, bjó á Hágörðum og á Laxárbakka sem var alltaf í uppáhaldi hjá honum en þar var hann mikið að vinna við landbúnaðarstörf ásamt ýmsu öðru sem tengdist heimilinu. Hann fór snemma að heiman til þess að mennta sig og fór þá til Reykjavíkur. Einnig ræddi hann það þegar hann flutti til Keflavíkur í Klampenborg og þegar hann keypti Íshússtíg 3 þar sem ég fæddist og ólst upp. Þegar mamma veiktist þá var hann sannur eiginmaður, var við rúm hennar allt fram að lokum, frá morgni til kvölds. Eftir að mamma féll frá þá fór hann fljótlega á elliheimili, hann var nú ekkert alltof hrifinn af því en það fór vel um hann. Hann saknaði mömmu og vildi ekki vera án hennar. Svo fór hann að missa þá eiginleika að keyra, síðan gönguna og undir það síðasta notaðist hann við hjólastól, honum þótti ekki gott að vera ósjálfbjarga. Pabbi kvaddi á fallegum degi, hann fór í friði og góðri sátt við lífið. Hann hafði svo sannarlega skilað sínu.

Hvíl í friði, elsku pabbi, það er sárt að kveðja þig en ég veit að þú varst alveg tilbúinn að fara til mömmu og við munum spila síðar. Ég mun lifa eftir þínu mottói, góðir hlutir gerast hægt og börnin mín eru svo sannarlega að meðtaka það og barnabörnin mín munu læra það líka, þetta er svo dýrmætt mottó sem allir eiga að lifa eftir.

Þinn sonur,

Ingvar Georg.