Kolbrún Bergþórsdóttir
Sugar er sakamálasería með Colin Farrell í aðalhlutverki sem sjá má á Apple TV. Farrell leikur einkaspæjarann John Sugar sem rannsakar hvarf ungrar konu.
Það er eins og Sugar geymi innra með sér leyndarmál. Hann er gagntekinn af gömlum Hollywood-sakamálamyndum og atriðum úr fjölmörgum þeirra bregður fyrir í þáttunum. Það er skemmtun fyrir þá sem hafa gamlar klassískar kvikmyndir í hávegum.
Ljósvakarýnir var ekki alveg viss hvað henni ætti að finnast um þættina eftir að hafa horft á tvo þeirra en alls eru þeir átta. Þættirnir eru vel gerðir og Farrell er heillandi en atburðarásin var fremur óljós.
Vinnufélagi var búinn að horfa á þá til enda. „Geimverur koma við sögu,“ sagði hann fremur brúnaþungur. Það sást á honum að hann hefur ekki smekk fyrir geimverum. Það glaðnaði hins vegar yfir ljósvakarýni sem hefur mikið álit á geimverum. Allt sem ögrar hinu yfirlætisfulla mannkyni gleður ljósvakarýni og geimverur eru þar ofarlega á lista. Ekki síst þess vegna var horft á seríuna til enda.
Geimverurnar voru opinberaðar nokkuð seint en það var þess virði að bíða eftir því. Þarna er allt öðruvísi glæpasería á ferð.